Mikið fjör á æfingum 9.flokks

Tæplega 30 krakkar mæta að staðaldri á æfingar 9.flokks á laugardögum í Íþróttahúsi Gróttu. Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir hafa veg og vanda að skipulagningu og æfingum krakkanna en þær eru margreyndar úr þjálfun hjá félaginu og tvær af leikjahæstu leikmönnum Gróttu frá upphafi.

Innihald æfinganna eru leikir með og án bolta auk fjölbreyttra handboltaæfinga sem reyna á samhæfingu, jafnvægi, styrk og hittni. Segja má að mikil einbeiting og mikið stuð sé hjá þessum flotta hópi á laugardögum.

Skráning í flokkinn fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Áfram Grótta !

Sara Björk á leið til Póllands með U15 ára landsliðinu!

Gróttukonan Sara Björk er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið fyrir UEFA development mót í Póllandi dagana 2. – 9.október. Hópurinn mun æfa tvisvar sinnum áður en haldið er til Pólland og fara þær æfingar fram 30. september og 1. október í Miðgarði.
Til hamingju Sara og gangi þér vel! 💪🏽💙

Fannar Hrafn valinn í Hæfileikamót N1 og KSÍ

Gróttumaðurinn Fannar Hrafn Hjaltason hefur verið valinn til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ 2022 dagana 14.- 16. september. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Fannar er fæddur árið 2008 og er gríðarlega efnilegur. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að eiga fulltrúa í þessum hópi og óskar Fannari góðs gengis á æfingunum!

Góð mæting á 8. flokks æfingar

Æfingar hjá yngri flokkum félagsins hófust þann 1. september og fór 8. flokkur karla og kvenna vel af stað á sinni fyrstu æfingu. 8. flokkur karla og kvenna er fyrir börn fædd 2017 og 2018 og eru æfingar í vetur inni í íþróttahúsi en á sumrin er fært sig út á Vivaldivöll.

Æfingatímarnir eru eftirfarandi:
8 flokkur kvenna: Þriðjudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur karla: Miðvikudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur kk og kvk: Fimmtudaga kl. 15:45-16:25

Börnin eru sótt í leikskólann á fimmtudögum og á þriðjudögum og miðvikudögum er þeim fylgt í leikskólann að æfingu lokinni. Við hvetjum börn fædd 2017 og 2018 til að koma og prófa fótboltaæfingu
Þjálfari flokksins er Hansína Þóra Gunnarsdóttir og henni til aðstoðar eru Agnar Guðjónsson, Helga Sif Bragadóttir og Jóna Guðrún Gylfadóttir.

Æfingar hefjast í handboltanum

Á mánudaginn, 22.ágúst, hefjast handboltaæfingar hjá öllum flokkum í Gróttu. Við hvetjum alla krakka til að koma á æfingar strax frá upphafi. Við vonumst til að sjá alla iðkendurna frá því í fyrra og þeir krakkar sem vilja koma og prófa eru sérstaklega boðin velkomin. Frítt er að prófa handboltaæfingar í ágúst. Þjálfarar taka vel á móti krökkunum.

Æfingatöfluna má sjá hér fyrir neðan en einnig eru allar æfingar komnar inn í Sportabler. Búið er að opna fyrir skráningar í Sportabler. Allir iðkendur fá nýjan keppnisbúning frá Craft núna í haust en sérstakur mátunardagur verður auglýstur síðar.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Maksim yfirþjálfara á netfangið maksim@grotta.is

Áfram Grótta !

Æfingar hjá 9.flokki hefjast aftur

Æfingarnar í 9.flokki sem slógu í gegn í fyrra hefjast aftur í byrjun september. Æfingarnar verða kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfar verða þær Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu.

Skráning fyrir haustönnina er hafin og fer fram í gegnum Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

6. flokkur karla á Króksmótinu

Tæplega þrjátíu Gróttustrákar úr 6. flokki karla skelltu sér á Sauðárkrók um helgina og léku á Króksmóti Tindastóls. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig mjög vel og uppskáru eftir því. Að sögn þjálfaranna spiluðu strákarnir geggjaðan fótbolta á Sauðárkróki! Lið Gróttu hétu eftir meistaraflokks leikmönnum til að vekja athygli drengjanna á þeim fyrirmyndum sem þeir hafa innan félagsins. Liðin hétu Addi Bomba, Kristófer Orri, Arnþór Páll, Kjartan Kári og Júlí Karls.

4. flokkur kvenna í 3. sæti á Rey Cup

4. flokkur kvenna tók þátt í Rey Cup sem var haldið í 21. sinn í Laugardalnum í lok júlí og sendi Grótta/KR tvö lið til leiks að þessu sinni. Bæði lið stóðu sig með prýði á mótinu og enduðu bæði liðin í 3. sæti í sínum styrkleikaflokki. Spilað var frá miðvikudegi til sunnudags á vallarsvæði Þróttar. Grótta/KR 1 tapaði naumlega 1-0 fyrir KA á laugardeginum og spilaði því upp á 3. sætið á sunnudeginum. Stelpunum tókst að landa bronsinu með 2-1 sigri á Þór. Grótta/KR 2 spilaði einnig um 3. sætið á sunnudeginum og unnu KF/Dalvík 2-1 og tókst þeim með sigrinum að næla sér í 3. sætið líkt og samherjum sínum. Stelpurnar skemmtu sér vel á mótinu, innan sem utan vallar, og spiluðu fallegan fótbolta. Liðin stóðu sig bæði vel og gaman að uppskera 3. sætið eftir hörkuleiki.
Vel gert stelpur!

3. flokkur kvenna alla leið í 8-liða úrslit á Gothia Cup

3. flokkur kvenna fór í júlí til Svíþjóðar þar sem Gothia Cup, eitt stærsta fótboltamót heims fer fram. Stelpurnar unnu fyrstu þrjá leikina sína, 1-0 gegn sænsku liði, 3-0 gegn þýsku liði og síðan 4-0 gegn sænsku liði og komust upp úr riðlinum sínum og í 16-liða úrslit. Í 16-liða úrslitum mættu þær sænska liðinu Mjölby AI/FF og var staðan 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Þá var farið í vítaspyrnukeppni þar sem Grótta/KR bar sigur úr býtum, en mörk Gróttu/KR skoruðu Katla, Íris, Rakel og Jóhanna. Gaman er að segja frá því að fram að vítaspyrnukeppninni höfðu markmennirnir okkar, Helena og Júlíana, ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum leikjunum. Síðar sama dag var strax komið að 8-liða úrslitunum og mættu stelpurnar þar gríðarlega sterku liði frá Noregi, Arna-Bjørnar, þar sem Grótta/KR beið lægri hlut. Arna-Bjørnar stóðu síðan upp sem sigurvegarar á mótinu í 3. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel í miklum hita og spiluðu vel saman. Þær nýttu frítímann einnig vel, kíktu á ströndina, fóru í Liseberg, versluðu og nutu samverunnar. Þær mega vera stoltar af sinni frammistöðu og þeim árangri sem þær náðu á mótinu og óskum við þeim til hamingju með hann!

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF