Arndís Áslaug framlengir til 2028

Arndís Áslaug Grímsdóttir hefur framlengt leikmannasamninginn sinn við Handknattleiksdeild Gróttu út tímabilið 2028. Arndís er 18 ára gömul og leikur sem línumaður. Hún hefur verið í lykilhlutverki í 3.flokki kvenna undanfarin ár en Gróttuliðið hefur ekki tapað leik á þessu leiktímabili.

Í meistaraflokki hefur Arndís komið við sögu í 10 leikjum í Grill 66-deildinni og skoraði þeim 10 mörk. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Arndís leikið 51 leik með meistaraflokki.

Arndís er ekki bara góður sóknarlínumaður því hún er líka öflugur varnarmaður og getur leikið nokkrar stöður þar. Hún hefur æft með unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár.

„Arndís er virkilega efnilegur leikmaður sem gaman verður að sjá taka næsta skref. Hún er öflug beggja megin vallarins og hefur sýnt það að hún er framtíðarleikmaður Gróttu“ sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttuliðsins við undirritun samningsins.

RISAKVÖLD Á FÖSTUDAGINN

Það er heldur betur RISAKVÖLD hjá meistaraflokkunum okkar á föstudaginn.

Strákarnir hefja leik kl. 18:00 í Hertz-höllinni þegar Víkingar koma í heimsókn. Bæði lið á toppnum og gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

Stelpurnar taka við kl. 20:00 í Kórnum í Kópavogi þegar þær mæta HK. Toppslagur milli liðanna og gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

Gróttufólk þarf að fjölmenna á þessa tvo leiki og hjálpa okkar liði í þessum mikilvægu leikjum.

Áfram Grótta !

Katrín Helga áfram í Gróttu til 2029

Katrín Helga Sigurbergsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Handknattleiksdeild Gróttu sem gildir út tímabilið 2029. Katrín Helga er 23 ára gömul en þrátt fyrir ungan aldur er hún hokin af reynslu í meistaraflokki. Hún hefur leikið 177 leiki með Gróttu og er önnur af tveimur fyrirliðum kvennaliðs Gróttu.

Katrín Helga leikur sem skytta og miðjumaður. Hún er útsjónarsöm og öflugur skotmaður. Þess fyrir utan er hún frábær varnarmaður og leikur í hjarta Gróttuvarnarinnar.

Það eru frábær tíðindi að Katrín Helga verði áfram í Gróttubúningnum til ársins 2029. „Katrín Helga hefur stimplað sig inn undanfarin misseri sem frábær varnarleikmaður og ein af þeim betri hér á landi. Þess fyrir utan er hún góður skotmaður og stýrir leik Gróttu vel í sókninni. Hún er góður karakter sem smitar út frá sér til yngri leikmanna liðsins. Það gleður mig mikið að hún verði áfram í Gróttuliðinu næstu árin“, sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttuliðsins þegar blekið var þornað á undirskriftinni.

Soffía Helen skrifar undir

Markvörðurinn Soffía Helen Sölvadóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta leikmannasamning við Handknattleiksdeild Gróttu. Soffía er 15 ára gömul og leikur sem markvörður. Hún hefur undanfarin misseri verið valin í öll yngri landslið kvenna og nú nýverið í U16 ára landsliðið.

Soffía hefur leikið alla leiki með 4.flokki og 3.flokki kvenna núna í vetur og staðið sig vel. Báðir flokkar leika í 1.deild Íslandsmótsins.

Það verður spennandi að sjá Soffíu halda áfram að bæta sig og eflast á næstu misserum.

Á myndinni má sjá Soffíu Helen með Júlíusi Þóri þjálfara meistaraflokks kvenna.

Velkominn heim Mummi

Handknattleiksdeild Gróttu hefur ráðið Guðmund Árna Sigfússon, Mumma, sem yfirþjálfara yngri flokka,  aðalþjálfara 3. flokks kvenna og aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna fyrir komandi tímabil. Með ráðningunni er verið að styrkja enn frekar faglegt starf deildarinnar en Mummi mun sinna stöðu yfirþjálfara yngri flokka ásamt Andra Sigfússyni, sem hefur verið yfirþjálfari síðastliðin ár. Þeir munu vinna þétt saman að áframhaldandi uppbyggingu í yngri flokkum félagins.

Yngri flokka starf Gróttu hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og iðkendum fjölgað mikið. Til að tryggja áframhaldandi gæði í þjálfun og uppeldi yngra iðkenda var ákveðið að bæta við starfsmanni og efla yfirþjálfarateymið enn frekar.

Einar Örn Jónsson hefur sinnt starfi þjálfara 3. flokks kvenna undanfarin ár og þökkum við Einari kærlega fyrir hans framlag og góðu þjálfun.

Mummi mun starfa við hlið Júlíusar Þóris Stefánssonar, aðalþjálfara meistaraflokks kvenna, og stýra hinu unga og efnilega kvennaliði meistaraflokks Gróttu.  Þar munu þeir halda áfram á þeirri uppbyggingavegferð sem Grótta hefur verið á undanfarin misseri með kvennaliðið og stýra því upp í deild þeirra bestu.

Mumma þarf vart að kynna fyrir Gróttufólki. Hann er uppalinn á Nesinu, æfði með félaginu frá unga aldri, hóf þjálfun árið 1988 og er silfurmerkishafi Gróttu. Árið 2016 tók Mummi við sem yfirþjálfari og þjálfari hinna ýmsu flokka Fram og hefur starfað þar síðan við góðan orðstír. Hugurinn leitar þó alltaf heim og er mikil tilhlökkun hjá Barna- og unglingaráði og stjórn meistaraflokka Gróttu handboltans fyrir komandi tímabilum.

„Ég hlakka mikið til komandi verkefna hjá Gróttu. Það er rífandi gangur í yngri flokka starfinu og mikil spenna að halda áfram þeirri vegferð sem það starf hefur verið á. Stelpurnar í meistaraflokknum eru hungraðar að komast aftur á meðal bestu liða og það verður gaman að vinna með Úlla að því markmið. Fyrst og síðast er ánægður að vera kominn aftur á Nesið“ sagði Mummi þegar samningur var í höfn.

Við bjóðum Mumma hjartanlega velkominn heim og hlökkum til spennandi samstarfs á komandi árum!

Yfirþjálfarar yngri flokka Grótta – Andri Sigfússon og Guðmundur Árni Sigfússon

Grótta í Final 4

Á fimmtudaginn leika stelpurnar okkar svo sannarlega mikilvægan leik í Final 4. Stelpurnar hafa komist alla leið í undanúrslit í bikarnum eftir frábæra sigra gegn FH og Víking. Það er skyldumæting fyrir allt Gróttufólk að mæta á Ásvelli og hvetja okkar stelpur áfram. Leikurinn fer fram á fimmtudaginn klukkan 20:15 og verður spilaður á Ásvöllum.

Áfram Grótta !

Góð stemning á Kynningarkvöldi

Mikill fjöldi og góð stemning var á Kynningarkvöldi Gróttu sem fram fór í kvöld í Hátíðarsal Gróttu. Þar hlýddu gestir á þjálfara meistaraflokkanna, þá Róbert Gunnarsson og Sigurjón Friðbjörn Björnsson fara yfir leikmannahópana, hvernig undirbúningurinn hefur verið og markmið fyrir veturinn.

Ólafur Finnbogason formaður Handknattleiksdeildar Gróttu ræddu hin ýmsu mál og kynnti breytt úrval árskorta sem eru komin í sölu á Stubbur appinu. Nýr og glæsilegur keppnisbúningur var frumsýndur og var Einar Örn Jónsson fjölmiðlamaður með létta tölu um Gróttu.

Kvöldið heppnaðist frábærlega og var góð stemning á meðal stuðningsfólks. Fyrstu eikir meistaraflokkanna okkar eru á laugardaginn þegar fyrsta Gróttutvenna tímabilsins fer fram.

Grótta – ÍBV kl. 14:00 / Mfl. kvenna

Grótta – KA kl. 16:15 / Mfl. karla

Fjölmennum og styðjum Gróttu til sigurs !

Íslenska U20 ára landsliðið í 7.sæti

Íslenska U20 ára landsliðið með okkar stelpum, Önnu Karólínu Ingadóttur og Katrínu Önnu Ásmundsdóttur innanborð gerði sér lítið fyrir og endaði í 7.sæti á HM. Mótið var haldið í Norður-Makedóníu og stóðu okkar leikmenn sig vel.

Íslenska liðið vann riðilinn sinn og komst í milliriðla með full hús stiga. Þar unnu þær íslensku Svartfjallaland en töpuðu gegn Portúgal. Með þeim úrslitum voru andstæðingar íslenska liðsins Ungverjaland í 8 liða úrslitum. Ungverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar og því um erfiða leik að ræða. Okkar stelpur létu það lítið á sig fá og fór leikurinn í framlengingu. Ungverjar voru sterkari þar og mætti því íslenska liðið Svíum í krossspili um 5. – 8.sæti. Þar voru Svíar sterkari og mætti íslenska liðið því Svisslendingum um 7.sæti mótsins. Íslenska liðið sýndi mátt sinn og megin og vann 29-26 í miklum baráttuleik.

Þessi árangur, 7.sæti á HM er besti árangur sem kvennalandslið hefur náð frá upphafi. Við erum stolt af árangri liðsins og ekki síst okkar leikmanna, Önnu Karólínu Ingadóttur og Katrínar Önnu Ásmundsdóttur sem léku vel fyrir liðið. Þessi reynsla mun án efa hjálpa þessum efnilegum leikmönnum til frekari afreka og hjálpa Gróttuliðinu í Olísdeildinni í haust.

Til hamingju leikmenn og þjálfarar !

Anna Karólína og Katrín Anna í 8 liða úrslit

Anna Karólína og Katrín Anna ásamt U20 ára landsliði kvenna eru heldur betur að standa sig vel á HM í Norður-Makedóníu. Íslenska liðið mætti Svartfjallalandi og Portúgal í milliriðlum á mánudaginn og þriðjudaginn. Leikurinn gegn Svartfjallalandi vannst örugglega en því miður tapaðist leikurinn gegn Portúgal með aðeins einu marki.

Íslenska liðið endaði því í 2.sæti í milliriðlinum og er komið í 8 liða úrslit á HM. Þar mun liðið mæta feykilega sterku liði Ungverjalands sem eru ríkjandi Evrópumeistarar. Leikurinn fer fram á morgun, fimmtudag kl. 16:00. Allir leikir íslenska liðsins eru sýndir í beinni útsendingu á rás IHF á Youtube. Með sigri kemst Ísland í undanúrslit mótsins en tapi liðið gegn Ungverjum leikur liðið um sæti 5 – 8 í keppninni.

Gróttustelpurnar hafa heldur betur staðið sig vel á mótinu hingað til. Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði 1 mark gegn Svartfjallalandi og 3 mörk gegn Portúgal og er samtals komin með 17 mörk í mótinu. Þar er hún í 3.sæti af íslensku stelpunum. Anna Karólína Ingadóttir náði því miður ekki að verja þau skot sem hún fékk á sig í milliriðlinum. Engu að síður er hún búin að verja 18 skot í keppninni með 47,3% markvörslu. Þar er hún í 2.sæti yfir bestu hlutfallsmarkvörsluna í öllu mótinu.

Við höldum áfram að fylgjast með liðinu og okkar stelpum í mótinu.