Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝
Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.
Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”