Handknattleiksdeild Gróttu heldur A-stigs dómaranámskeið í samstarfi við HSÍ. Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 27.febrúar kl. 19:30 í hátíðarsal Gróttu. Námskeiðið endar með skriflegu prófi sem tekið er í gegnum síma.
Þar sem Gitta hefur látið af störfum eftir rúm 20 ár hjá Íþróttafélaginu Gróttu verður haldið kveðjuhóf til að þakka henni fyrir samstarfið. Kveðjuhófið verður haldið fimmtudaginn 22. febrúar í hátíðarsal Gróttu. Um er að ræða opið hús á milli 17:00-19:00 og öllum er velkomið að mæta! Það verða léttar veitingar í boði.
Línumaðurinn Hannes Grimm hefur framlengt samning sinn við Gróttu til ársins 2026. Hannes hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið með Gróttu til fjölda ára og á 148 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.
Það eru frábær tíðindi að Hannes verði áfram í herbúðum félagsins enda lykilleikmaður liðsins bæði sóknarlega og varnarlega.
Þeir eru vandfundnir meiri Gróttumenn en Hannes Grimm. Hann hefur undanfarin sjö ár þjálfað yngri flokka félagsins við góðan orðstír.
Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.
Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.
Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.
Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.
„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.
„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.
Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.
Í vetrarleyfinu verður boðið upp á handboltaskóla í Hertz-höllinni fyrir krakka f. 2012-2017 eða þá sem eru í 1. – 6.bekk. Skólinn er kl. 09:00-12:00 og eru krakkarnir beðnir um að taka með sér nesti. Byrjendur jafnt sem lengra komnir eru velkomnir.
Námskeiðsdagarnir eru:
Föstudagurinn 16.febrúar Mánduagurinn 19.febrúar
Skráning fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti
Kjör íþróttamanns Seltjarnarness 2023 í karla- og kvennaflokki fór fram fimmtudaginn 8. febrúar í 30. skipti við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu.
Íþróttamenn Seltjarnarness 2023 eru Auður Anna Þorbjarnardóttir fimleikakona og Ingi Þór Ólafson golfari.
Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa. Sex tilnefningar bárust nefndinni þetta árið. Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem Íslands- og bikarmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir og tveir íþróttamenn fengu úthlutað úr afreksmannasjóði ÍTS.
Auður Anna Þorbjarnardóttir, fimleikakona
Auður Anna er nýorðin 14 ára og einn allra efnilegasti iðkandi fimleikadeildar Gróttu. Hún var í bikarliði Gróttu í frjálsum æfingum vorið 2023, keppti fyrir Gróttu á Íslandsmóti í áhaldafimleikum í unglingaflokki í maí og varð í 4. sæti í fjölþraut. Auður Anna komst í úrslit á stökki, slá og gólfi og fékk silfur á stökki. Þá sigraði hún á stökki í unglingaflokki í GK móti Fimleikasambands Íslands og varð í 3. sæti á stökki í unglingaflokki á haustmóti FSÍ.
Auður Anna var valin í úrvalshóp Fimleikasambands Íslands og keppti með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamóti unglinga í Finnlandi sem og á EYOF (European Youth Olympic Festival) í Slóveníu á árinu. Á Norðurlandamótinu varð Auður Anna í 13. sæti í fjölþraut, stigahæst íslensku keppendanna. Hún komst í úrslit á stökki þar sem að hún vann silfurverðlaun. Þá keppti Auður með Gróttu á alþjóðlegu móti Gymsport í Porto á árinu þar sem hún varð í 10. sæti í fjölþraut og komst í úrslit á stökki og gólfi. Hún fékk bronsverðlaun fyrir stökk á mótinu og varð í 6. sæti á gólfi.
Ingi Þór Ólafson, golfari
Ingi Þór er afrekskylfingur sem keppir í golfi fyrir hönd Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Hann leikur á mótaröð þeirra bestu og endaði í 8. sæti á stigalista mótaraðarinnar 2023. Hápuktur sumarsins var 4. sæti í Íslandsmótinu í höggleik en einnig var hann í öðru sæti í Hvaleyrarbikarnum. Ingi Þór lék í karlasveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem sigruðu Íslandsmót golfklúbba 2023 og má segja að Ingi Þór hafi verið einn af lykilmönnum sveitar GM. Í kjölfarið var hann valinn í lið þriggja kylfinga úr GM til að leika á Evrópumóti golfklúbba í Portúgal.
Ingi Þór fór í tvö úrtökumót fyrir Nordic mótaröðina í haust og lék frábært golf og tryggði sér fullan þátttökurétt á mótaröðinni fyrir keppnistímabilið 2024. Einnig var Ingi Þór valinn í landsliðshóp GSÍ fyrir 2024.
Þau sem hlutu tilnefningar til Íþróttamanns Seltjarnarness 2023
Frá vinstri: Ingi Þór Ólafson golf, Lovísa Davíðsdóttir Scheving knattspyrna, Rut Bernódusdóttir handknattleikur og Auður Anna Þorbjarnardóttir. Á myndina vantar Hannes Grimm handknattleikur og Grím Inga Jakobsson knattspyrna.
Afreksmannastyrkur
Aðalsteinn Karl Björnsson júdó og Ingi Þór Ólafson golf.
Landsliðsfólk
Frá vinstri: Rebekka Sif Brynjarsdóttir U-15 knattspyrna, Arnfríður Auður Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Katrín Anna Ásmundsdóttir U19 handknattleikur, Antonie Óskar Pantano U-17 handknattleikur, Sara Björk Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Auður Anna Þorbjarnardóttir U-landslið fimleikar. Á myndina vantar Andra Fannar Elísson U-19 handknattleikur og Tómas Johannessen U-17 knattspyrna.
Ungt og efnilegt íþróttafólk
Í stafrófsröð:
Arnfríður Auður Arnarsdóttir, knattspyrna
Birgir Davíðsson Scheving, knattspyrna
Edda Sigurðardóttir, handknattleikur
Elísabet Þóra Ólafsdóttir, golf
Freyja Geirsdóttir, hópfimleikar
Jón Agnar Magnússon, golf
Jón Bjarni Pálsson, handknattleikur
Katrín Arna Andradóttir, handknattleikur
Nína Karen Jóhannsdóttir, áhaldafimleikar
Rakel Lóa Brynjarsdóttir, knattspyrna
Tómas Johannessen, knattspyrna
Þröstur Blær Guðmundsson, handknattleikur
Bikarmeistarar í 2. þrepi fimleikastigans
Í stafrófsröð:
Ása Agnarsdóttir
Áslaug Glúmsdóttir
Harpa Hrönn Egilsdóttir
Nína Karen Jóhannsdóttir
Á myndina vantar Eldey Erlu Hauksdóttur sem einnig varð Íslandsmeistari í 2. þrepi.
Til hamingju allir með frábæran árangur á árinu 2023.
Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U17 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í milliriðli Evrópumóts UEFA í Portúgal dagana 19.-28.febrúar 2024. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Hin 15 ára Aufí lék einnig með U17 í undankeppni EM í október sl. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal!
Grótta Gymnastic Club seeks a head coach for its female Artistic gymnastics department. We would like to hear from you if you have been coaching at a high level and are ready for a new adventure in Iceland.
Í kvöld fer fram risaleikur hjá stelpunum okkar þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Hertz-höllina í 8 liða úrslitum Powerade-bikarsins. Fjölmennum, styðjum okkar lið og tryggjum liðinu í undanúrslit. Leikurinn hefst kl. 20:00.
Fyrir það stuðningsfólk sem kemst ekki á leikinn, þá er hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2.
Við minnum á rjúkandi heitar Domino´s pizzur fyrir leik og í hálfleik.