Tengslin efld milli meistaraflokks og yngri flokka

Þjálfarar meistaraflokks kvenna, þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson, hrintu af stað nýju verkefni fyrr í vikunni sem stuðlar að því að efla tengsl milli meistaraflokks og yngri flokka. Nokkrum sinnum í mánuði verða tveimur duglegum stelpum úr 4. eða 5. flokki boðið að mæta á meistaraflokksæfingu.

Stelpurnar kíkja inn í klefa fyrir æfingu og sitja stuttan fund með liðinu, taka svo þátt í upphitun og léttum boltaæfingum. Verkefnið fór af stað á þriðjudaginn þegar þær Nína og Aufí úr 5. flokki voru með á meistaraflokksæfingu og stóðu sig með eindæmum vel!

Signý Ylfa gengin til liðs við Gróttu

Hin 18 ára gamla Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val á láni út tímabilið. Signý spilar sem framherji en hún á að baki þrjá landsleiki fyrir U16 ára landslið Íslands og nokkra Lengjubikar- og Reykjavíkurmótsleiki fyrir Val.

Við bjóðum Signýju velkoma á Nesið og hlökkum til að fylgjast með henni í bláu treyjunni í sumar.

Vivaldi framlengir styrktarsamning sinn

Vivaldi á Íslandi hefur gert tveggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu vegna barna- og unglingastarf deildarinnar. Samkvæmt samningnum munu vörumerkin Vivaldi og Arna prýða keppnisbúninga yngri flokka Gróttu næstu tvö árin.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Við tilefnið afhenti Bragi Björnsson, formaður Gróttu, Jóni bronsmerki félagsins sem honum var veitt í byrjun árs, fyrir stuðning sinn við knattspyrnudeildina í gegnum árin.