Á þriðja hundrað iðkenda hlýddu á Pálmar

Í vikunni hafa vel á þriðja hundrað iðkenda allra þriggja deilda Íþróttafélagsins Gróttu hlýtt á fræðsluerindi Pálmars Ragnarssonar. Í fyrirlestri fyrir íþróttaiðkendur fjallar hann á skemmtilegan hátt um samskipti í íþróttum, hvernig við getum verið góðir liðsfélagar, leiðtogar og náð því besta úr öllum í liðinu.

Halda áfram að lesa

Þjálfarar 2. og 3. flokks karla kynntir til leiks

Þá er komið að því að kynna til leiks þjálfara 2. og 3. flokks karla.

Óskar Hrafn Þorvaldsson og Arnar Axelsson þjálfa 2. flokk karla. Óskar stýrði meistaraflokki karla síðastliðið tímabil með góðum árangri og mun gera það áfram ásamt Halldóri Árnasyni. Óskar hefur þjálfað hjá Gróttu síðustu þrjú tímabli en hann er með UEFA-A þjálfaragráðu og er fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður. Arnar hefur þjálfað hjá Gróttu síðustu fjögur ár, en tvímenningarnir munu einnig þjálfa 6. flokk karla í ár.

Magnús Örn Helgason og Einar Bjarni Ómarsson þjálfa 3. flokk karla. Það þarf vart að kynna Magga til leiks, en hann er öllu Gróttufólki kunnugur enda að hefja sitt tólfta tímabil hjá félaginu. Einar Bjarni er hins vegar að hefja sitt fyrsta tímabil hjá Gróttu sem þjálfari en hann er uppalinn Seltirningur og spilaði með meistaraflokki Gróttu árin 2010 og 2011. Síðan þá hefur Einar leikið með Fram og KV en hann er eini Gróttumaðurinn sem hefur skorað í Evrópuleik!

Landsliðsmenn Gróttu á ferðinni um helgina

Um helgina voru yngri landslið Íslands í handbolta á ferðinni og átti Grótta sína fulltrúa í U-17, U-19 og U-21 árs landsliðinu.

U-17 ára landslið karla hélt til Frakklands og lék þar á sterku 4 landa æfingarmóti en fulltrúar Gróttu í ferðinni voru þeir Ari Pétur Eiríksson og Gunnar Hrafn Pálsson.

Strákarnir léku gegn heimamönnum í Frakklandi, Sviss og Króatíu og upplifðu þar jafntefli, sigur og tap gegn þessum sterku þjóðum. Okkar strákar stóðu sig með mikilli prýði en Gunnar Hrafn skoraði 5 mörk í leikjunum þremur og Ari Pétur 2 mörk.

U-19 ára landslið karla æfði hér heima á Íslandi yfir helgina og áttum við einn fulltrúa þar í Kára Rögnvaldssyni.

U-21 árs landsliðið spilaði svo hér heima tvo æfingarleiki við sterkt lið Frakka og átti Grótta 3 fulltrúa í hópnum, þá Hannes Grimm, Alexander Jón og Svein Jose Riviera. Fyrri leikurinn fór fram á föstudaginn og vannst þar frábær sigur 28-24 og skoruðu þeir Sveinn og Alexander sitthvort markið í þeim leik. Síðari leikurinn fór fram daginn eftir og tapaðist hann 21-26 og skoraði Hannes Grimm 1 mark í þeim leik.

Drengirnir voru flottir fulltrúar félagsins um helgina og vonumst við til að sjá þá leika enn fleiri landsleiki í framtíðinni.

Fimm drengir úr 3. flokki á U16 úrtaksæfingum

Þeir Hannes Ísberg, Orri Steinn, Kjartan Kári, Krummi Kaldal og Grímur Ingi úr 3. flokki karla tóku þátt í U16 úrtaksæfingum KSÍ um helgina.

Þetta er glæsilegur árangur, en gaman er að segja frá því að Grótta er með þriðju flestu leikmennina í úrtakinu.

Aðeins Breiðablik og Stjarnan eru með fleiri leikmenn en Grótta í þessu úrtaki.

Á myndinni að ofan vantar Hannes, en hann meiddist í gær.