Chris framlengir samning sinn við knattspyrnudeildna

Knattspyrnudeild Gróttu hefur framlengt samning við Chris Brazell sem yfirþjálfari yngri flokka hjá deildinni til haustsins 2022.
Chris, sem er 27 ára gamall, er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska stórliðsins Norwich þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu.

Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni í nóvember á síðasta ári og hefur strax sett mark sitt á starf deildarinnar. Deildin fagnar því að hafa nú ráðið yfirþjálfara til næstu tveggja ára sem mun halda áfram að stuðla að þeirri uppbyggingu sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Um framlenginguna hafði Chris þetta að segja: „Það er mér mikill heiður að framlengja samning minn við Gróttu í tvö ár til viðbótar. Á þeim tíma munum við halda áfram með þá uppbyggingu sem hefur verið í gangi og halda áfram að veita samfélaginu á Seltjarnarnesi framúrskarandi þjónustu. Klúbburinn er afar heppinn að búa yfir frábærum hópi þjálfara og starfsfólks bæði á vellinum og á bakvið tjöldin, og það er ekki síst vegna þessa fólks sem að mér fannst ég strax eins heima hjá mér og viss strax að ég vildi vera áfram. Þjálfararnir okkar, leikmenn og samfélagið gera deildina að því sem hún er og ég mun halda áfram að leggja mitt af mörkum til uppbyggingarinnar og njóta margra spennandi stunda með ykkur á næstu árum.“

Davíð Örn ráðinn þjálfari 5.flokks kvenna

Davíð Örn Hlöðversson núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu hefur verið ráðinn þjálfari 5.flokks kvenna fyrir keppnistímabilið 2020-2021.

Davíð þekkja flestir sem koma að félaginu en hann hefur þjálfað samfleytt í að verða 12 ár hjá Gróttu með góðum árangri auk þess að eiga að baki 144 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.

Síðastliðin 2 keppnistímabil hefur hann verið annar af aðalþjálfurum meistaraflokks kvenna og stýrt þar uppbyggingu kvennahandboltans hjá félaginu með myndarbrag.

Handknattleiksdeild Gróttu fagnar því mjög að Davíð komi að yngri flokka starfi félagsins á næsta keppnistímabili og verður hann lykilaðili í þó góða uppbyggingarstarfi sem á sér stað innan kvennaflokka félagsins um þessar mundir og tekur við mjög efnilegum 5.flokki kvenna.

Handknattleiksdeildin vinnur þessa dagana hörðum höndum að undirbúning næsta keppnistímabils og er frekari frétta af þeim undirbúning að vænta á næstu vikum.

Gróttumót 7. flokks karla haldið í þriðja sinn á Vivaldivellinum

Gróttumót 7. flokks karla var haldið í þriðja sinn síðastliðinn sunnudag. Sólin skein á Vivaldivellinum þegar 250 drengir víðsvegar af landinu spiluðu fótbolta af kappi. Grótta, Víkingur R., KR, ÍR, Leiknir R., Hamar, Álftanes, Skallagrímur og KFR tefldu fram liðum á mótinu sem gekk vonum framar. Allir þátttakendur fóru glaðir heim með Floridana safa, medalíu og gjafabréf á Hamborgarafabrikkuna.

Benedikt Bjarnason tók liðsmyndir á mótinu en þær má allar finna á facebook síðu knattspyrnudeildarinnar.

Tengslin efld milli meistaraflokks og yngri flokka

Þjálfarar meistaraflokks kvenna, þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson, hrintu af stað nýju verkefni fyrr í vikunni sem stuðlar að því að efla tengsl milli meistaraflokks og yngri flokka. Nokkrum sinnum í mánuði verða tveimur duglegum stelpum úr 4. eða 5. flokki boðið að mæta á meistaraflokksæfingu.

Stelpurnar kíkja inn í klefa fyrir æfingu og sitja stuttan fund með liðinu, taka svo þátt í upphitun og léttum boltaæfingum. Verkefnið fór af stað á þriðjudaginn þegar þær Nína og Aufí úr 5. flokki voru með á meistaraflokksæfingu og stóðu sig með eindæmum vel!

Vivaldi framlengir styrktarsamning sinn

Vivaldi á Íslandi hefur gert tveggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu vegna barna- og unglingastarf deildarinnar. Samkvæmt samningnum munu vörumerkin Vivaldi og Arna prýða keppnisbúninga yngri flokka Gróttu næstu tvö árin.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Við tilefnið afhenti Bragi Björnsson, formaður Gróttu, Jóni bronsmerki félagsins sem honum var veitt í byrjun árs, fyrir stuðning sinn við knattspyrnudeildina í gegnum árin.