Knattspyrnuskólanum lokið

Þá er enn öðru farsælu sumri hjá knattspyrnuskóla Gróttu lokið, en hann var starfrækur frá 10. júní til 31. júlí. Góð mæting var á öll fjögur námskeiðin en tæplega 380 börn voru skráð á námskeiðin. Til viðbótar því voru um 100 börn sem sóttu sumarnámskeið fyrir 4. og 5. flokk. Iðkendur í skólanum eru bæði krakkar sem hafa æft lengi og einnig krakkar sem eru að prófa fótbolta í fyrsta skipti, og lögð er áhersla á að kenna fótbolta í gegnum skemmtilega leiki og æfingar. Námskeiðin voru 4 talsins, í tvær vikur í senn, og í lok hvers námskeiðs var krökkunum blandað saman og skipt í landslið og keppt í HM. Að keppni lokinni var síðan pulsupartí og allir fóru glaðir inn í helgina. Áhugasamir og fjörugir krakkar, efnilegir unglingar og gott veður var virkilega góð blanda sem varð til þess að námskeiðin gengu gríðarlega vel. Hér má sjá myndir frá starfinu í sumar, en einnig eru fleiri myndir og myndbönd á instagram.com/grottasport

Starfsmenn knattspyrnuskólans þakka fyrir sumarið og hlakka til að sjá sem flesta aftur næsta sumar!

Grótta með 12 lið á Símamótinu

Hátt í 80 Gróttustelpur kepptu á Símamótinu í Kópavogi helgina 10-12. júlí. Um 2400 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins!
5. flokkur Gróttu tefldi fram fjórum liðum sem samanstóðu af 31 stelpu, 6. flokkur kvenna var með 16 stelpur í þremur liðum og 7. flokkur kvenna fór með 28 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags.
Grótta náði góðum árangri á mótinu í öllum flokkum. Grótta 1 í 7. flokki kvenna vann sinn riðil eftir 3-2 sigur gegn Njarðvík 1 í úrslitum og fóru því með bikar heim! Grótta 1 í 6. flokki kvenna komst í undanúrslit en töpuðu fyrir Hetti 1 2-1, og enduðu í 4. sæti. Grótta 1 í 5. flokki kvenna komst einnig í undanúrslit A-liðakeppni mótsins en töpuðu 2-1 fyrir Þrótti sem stóðu síðan uppi sem sigurvegarari, en Grótta endaði í 4. sæti.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu.
Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu og voru Gróttu til sóma 👏🏼
Myndir: Eyjólfur Garðarsson og Sporthero.

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Eldra ár 6. flokks karla hélt til Vestmannaeyja í síðustu viku til að spila á Orkumótinu. Grótta fór með þrjú lið á mótið sem samanstóðu af 24 drengjum. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og var hópurinn vel samstilltur og var ótrúlega góður andi í öllum sem voru í Gróttu. Öll liðin stóðu sig frábærlega á vellinum, spilið hjá drengjunum til fyrirmyndar og voru allir staðráðnir í að standa sig eins vel og þeir gátu fyrir liðsfélagana sína og sitt lið. Utan vallar voru þeir til fyrirmyndar og voru flottir fulltrúar Gróttu.

5. flokkur kvenna á TM-mótinu í Eyjum

Á dögunum héldu pæjurnar í 5. flokki Gróttu á TM-mótið í Vestmannaeyjum, betur þekkt sem Pæjumótið. Annað árið í röð fóru 34 stelpur frá Gróttu sem skipuðu fjögur lið, hvorki meira né minna!
Grótta1 gerði sér lítið fyrir og endaði í 4. sæti mótsins sem er besti árangur Gróttu frá upphafi. Ennfremur jöfnun á besta árangri 5. flokks Gróttu á stórmóti í en A-lið 5.fl.kk hjá Gróttu endaði í 4. sæti á N1-mótinu árið 2009. Arnfríður Auður Arnarsdóttir var fulltrúi Gróttu í landsleiknum og skoraði tvö mörk fyrir framan troðfulla stúku. Í mótslok var Aufí, eins og hún er oftast kölluð, valin í úrvalslið mótsins.
Grótta2 byrjaði brösuglega en komst svo á þvílíka siglingu og sigraði alla sína leiki á öðrum degi. Stelpurnar héldu áfram að spila vel á lokadeginum og voru ekki langt frá því að komast í úrslit í sinni deild. Enduðu sem fimmta hæsta B-lið mótsins.
Grótta3 byrjaði hægt en óx jafnt og þétt eftir því sem leið á mótið. Sama má í raun segja um stelpurnar í Gróttu4 en þar voru allar á sínu fyrsta Pæjumóti og þurftu því sinn tíma til að venjast aðstæður.
Auk fótboltans fór Gróttuliðið í skemmtilegra siglingu og tók þátt í hæfileikakeppni. Stelpurnar voru Gróttu til mikils sóma á móti og mikið gleðiefni að svo stórir og glæsilegir hópar stelpna séu nú á fleygiferð í fótbolta hjá Gróttu.

7. flokkur karla á Norðurálsmótinu

Helgina 19.-21. júní hélt 7. flokkur karla á Akranes til að spila á hinu fræga Norðurálsmóti. Grótta fór með 39 drengi í sjö liðum á mótið svo það var nóg um að vera hjá strákunum og þjálfurum. Spilað var á Akranesi þrjá daga í röð, föstudag til sunnudag, og gist á Skaganum. Margir voru að fara á sitt fyrsta stórmót og því mikil spenna í hópnum. Mótið gekk mjög vel hjá drengjunum og allir fóru glaðir heim, þótt margir hefðu helst vilja vera aðeins lengur 😊

7. flokkur kvenna á Kristalsmóti Gróttu

Kristalsmót Gróttu fór fram þann 21. júní á Vivaldivellinum en á mótið var fyrir 7. flokk kvenna. Um 200 stelpur mættu á mótið frá Gróttu, Val, Stjörnunni, Fylki, Álftanesi, HK og FH. Sólin skein á Vivaldivellinum og mótið gekk gríðarlega vel! Allir fóru heim með medalíu, Kristal og bros á vör.

6. flokkur kvenna á Steinullarmóti Tindastóls

15 stelpur úr 6. flokki kvenna fóru á Steinullarmót Tindastóls síðustu helgi. Stelpurnar stóðu sig vel innan sem utan vallar og gekk mótið mjög vel fyrir sig. Það er alltaf mikil upplifun að fara á gistimót og spenningurinn var því búinn að vera mikill. Grótta tefldi fram þremur liðum á mótinu en spilað var á laugardegi og sunnudegi, ásamt því að brasa ýmislegt þess á milli. Næst á dagskrá hjá stelpunum er Símamótið og eftirvæntingin ekki síðri fyrir því! 

8. og 7. flokkur á VÍS móti Þróttar

Laugardaginn 31. maí skelltu 7. flokkur karla og 8. flokkur karla og kvenna sér á VÍS mót Þróttar. Sumir voru að fara á sitt fyrsta mót á ævinni en allir á sitt fyrsta mót í langan tíma. Grótta fór með 3 lið úr 8. flokki karla, 1 lið úr 8. flokki kvenna og 2 lið úr 7. flokki karla. Krakkarnir voru hress og kát innan sem utan vallar og greinilegt að það var mikið fjör að fá loksins að keppa í fótbolta!

Halda áfram að lesa