Axel Sigurðarson í Gróttu

Sóknarmaðurinn Axel Sigurðarson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu. Axel spilaði mikilvægt hlutverk í Gróttuliðinu síðasta sumar en þá spilaði hann 13 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim þrjú mörk. Axel á að baki sér 47 meistaraflokks leiki en hann hefur einnig spilað með KR, HK og ÍR.

Það er mikið gleðiefni að Axel muni spila með Gróttu á komandi tímabili, enda öflugur sóknarmaður sem mikils er vænst af. Við bjóðum Axel hjartanlega velkominn aftur á Nesið!

Þrír ungir og efnilegir leikmenn Gróttu skrifa undir

Þrír ungir og efnilegir Gróttumenn skrifuðu undir tveggja ára samning við félagið í vikunni. Um er að ræða þá Daða Má Patrek Jóhannsson, Kjartan Kára Halldórsson og Grím Inga Jakobsson. Daði Már er fæddur árið 2001 en Kjartan og Grímur eru fæddir 2003. Þeir Daði og Kjartan hafa æft með Gróttu frá 5 ára aldri en Grímur skipti yfir í Gróttu úr Val þegar hann flutti á Nesið fyrir fimm árum. Þremenningarnir eru allir lykilleikmenn í 2. flokki og hafa æft með meistaraflokki síðustu misseri. Þeir Kjartan og Grímur hafa ennfremur verið viðloðandi U16 og U17 ára landsliðin en Kjartan hefur spilað sex landsleiki og Grímur fjórtán.

Það er mikið gleðiefni fyrir Gróttu að hafa skrifað undir við þessa frambærilegu drengi sem munu vonandi vinna sig enn betur inn í meistaraflokkinn á árinu.