Lúðvík áfram í Gróttu

Lúðvík Thorberg Arnkelsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Gróttu. Lúðvík er 24 ára gamall og leikur aðallega sem leikstjórnandi og skytta. Hann hefur skorað 29 mörk í Olísdeildinni í vetur og sent 24 stoðsendingar.

Lúðvík hefur undanfarin tvö árin leikið með Gróttu en hann er uppalinn í Safamýrinni.

„Það eru virkilega góð tíðindi að Lúðvík verði áfram í herbúðum okkar enda hefur hann leikið fantavel með liðinu í vetur, bæði sóknar- og varnarlega. Það er von okkar að hann muni halda áfram að þróa leik sinn enn frekar enda býr mikið í Lúlla“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Hannes Grimm framlengir

Línumaðurinn Hannes Grimm hefur framlengt samning sinn við Gróttu til ársins 2024. Hannes hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið með Gróttu til fjölda ára og á 114 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.


Það eru frábær tíðindi að Hannes verði áfram í herbúðum félagsins enda lykilleikmaður liðsins bæði sóknarlega og varnarlega.

Þeir eru vandfundnir meiri Gróttumenn en Hannes Grimm. Hann hefur undanfarin fimm ár þjálfað yngri flokka félagsins við góðan orðstír.

„Það er mikill hugur í félaginu til næstu ára og Hannes mikilvægt í pússl í þeirri vegferð“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari liðsins við undirskrift samningsins.

Kjartan Kári á úrtaksæfingum U19 ára landsliðsins

Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er einn af þeim sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið til að taka þátt í úrtaksæfingum 21.-23. febrúar 🙌🏼💙

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði. Liðið undirbýr sig fyrir milliriðla í undankeppni EM 2022, en þar er Ísland í riðli með Rúmeníu, Georgíu og Króatíu og fer riðillinn fram dagana 23.-29. mars.

Kristófer Melsted framlengir

Kristófer Melsted hefur framlegt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Kristófer er uppalinn Gróttumaður en hann á að baki 95 leiki fyrir Gróttu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Gróttu árið 2016 og hefur síðustu ár verið einn lykilmanna liðsins en hann lék 20 leiki á síðasta tímabili í Lengjudeildinni og skoraði í þeim tvö mörk. Samningurinn er Gróttu sérstakt fagnaðarefni þar sem Kristófer er mikil fyrirmynd ungra íþróttamanna hjá félaginu, innan sem utan vallar.

Kjartan Kári framlengir hjá Gróttu

Hinn 18 ára gamli Kjartan Kári Halldórsson framlengdi nú á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Hinn ungi og efnilegi Kjartan Kári á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.
Samningurinn við Kjartan Kára er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn þess og hlökkum við til að fylgjast með Kjartani á komandi tímabili.

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.