Einar Baldvin framlengir við Gróttu

Markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hefur framlengt samning sinn við Gróttu til tveggja ára. Einar Baldvin er uppalinn í Fossvoginum hjá Víkingi en hann lék með Val og Selfoss áður en hann kom til Gróttu síðastliðið sumar. Einar Baldvin átti frábært tímabil með Gróttu í vetur og var með þriðju bestu hlutfallsmarkvörsluna í Olísdeldinni eða 30,9%. Einar Baldvin var ennfremur markahæsti markmaður deildarinnar með 8 mörk.

Það eu mikil gleðitíðindi að Einar Baldvin verði áfram í herbúðum Gróttu enda frábær markmaður með mikinn metnað.

Jakob Ingi framlengir

Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jakob er fæddur árið 1997 og leikur í vinstra horninu. Jakob kom til Gróttu árið 2019 frá Aftureldingu en hann er uppalinn í Breiðholtinu hjá ÍR.

Jakob skoraði 20 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni í vetur og myndaði frábært hornapar í vinstra horninu með Andra Þór Helgasyni. Jakob nýtir færin næstbest allra í Olísdeildinni en af þeim leikmönnum sem skoruðu fleiri en 3 mörk í deildinni, þá er hann með næstbestu nýtinguna eða 87%.

Það eru gleðileg tíðindi að Jakob Ingi verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær hornamaður sem við bindum vonir við að haldi áfram að dafna á Nesinu.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Mér hefur liðið vel í félaginu á undanförnum árum og næsta tímabil stefnir í veislu“, sagði Jakob Ingi við undirskriftina.

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Pétur Theódór til Breiðabliks

Knattspyrnudeild Gróttu hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Breiðabliks um félagaskipti Péturs Theódórs Árnasonar að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Pétur Theódór, sem er 26 ára gamall,er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og lék hann upp alla yngri flokka Gróttu. Pétur lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki Gróttu árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall en sama ár spilaði hann með U16 ára landsliði Íslands. Pétur fór í framhaldi á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa Íslands næstu misseri á eftir. Pétur Theódór þurfti að taka sér hlé frá fótboltanum vegna meiðsla, en endurkoma hans frá árinu 2018 hefur verið ævintýri líkust. Árið 2019 var Pétur Theódór lykilmaður í meistaraliði Gróttu í Inkasso-deildinni, var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum ásamt því að vera markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins. Pétur Theódór var valinn besti leikmaður fyrri hluta deildarinnar, var í liði ársins auk þess að vera íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness sama ár. Pétur var lykilmaður í Gróttuliðinu á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild sumarið 2020. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Pétur Theódór verið sjóðheitur fyrir framan markið, er markahæstur í Lengjudeildinni með 18 mörk í 18 leikjum. Alls hefur hann leikið 139 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 62 mörk.

Pétur hefur öll sín ár hjá Gróttu verið sannur liðsmaður, góður samherji og fyrirmynd ungra iðkenda, ekki síst vegna eljusemi, þrautseigju og metnaðar. Þótt allt Gróttufólk muni kveðja Pétur Theódór að loknu tímabili með trega, samgleðjumst við honum og óskum velgengni í nýjum verkefnum 👊🏼💙

Hákon valinn í U21 fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson var á dögunum valinn í hóp U21 karla landsliðsins sem mætir Svíþjóð í undankeppni EM þann 4. september á Víkingsvelli. Hákon er fæddur árið 2001 en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í meistaraflokki síðustu tvö ár. Gríðarlega efnilegur leikmaður sem er vert að fylgjast með.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸