Rebekka á leiðinni til Portúgal með U15 ára landsliðinu 

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í UEFA Development Tournament. Gróttukonan Rebekka Sif Brynjarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Rebekka er 14 ára gömul og gríðarlega efnileg knattspyrnukona. Hún lék tvo leiki með meistaraflokki Gróttu í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Þá lék hún einnig með 3. flokki kvenna og 4. flokki karla og kvenna í sumar þar sem hún skoraði samtals 30 mörk. Mótið verður haldið í Lissabon í Portúgal dagana 17.-23. nóvember, en liðið æfir í tvígang á Íslandi fyrir brottför. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Rebekku innilega til hamingju með valið og góðs gengis á mótinu! 

Anna Karólína og Katrín Anna í U20 ára landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U20 ára landsliðs kvenna, þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson völdu í gær landsliðshóp U20 ára landsliðsins til æfingar dagana 23. – 26.nóvember. Við í Gróttu eigum tvo fulltrúa í liðinu en það eru þær Anna Karólína Ingadóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir.

Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum.

Edda valin í U15 ára landslið kvenna

Landsliðsþjálfarar U15 ára landsliðs kvenna, Sigríður Unnur Jónsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir völdu í dag U15 ára landsliðshóp sem mun æfa dagana 23. – 26.nóvember næstkomandi. Einn fulltrúi frá Gróttu er í landsliðshópnum en það er hún Edda Sigurðardóttir. Edda er leikmaður í 4.flokki kvenna hjá félaginu.

Til hamingju Edda og gangi þér vel á æfingunum !

Grótta leitar að framkvæmdastjóra

Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

·        Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum

·        Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna

·        Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins

·        Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir

·        Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins

·        Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið

·        Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins

·        Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra

·        Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur

·        Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins

·        Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins

·        Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila

·        Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda

·        Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfniskröfur

·        Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni

·        Háskólamenntun sem nýtist í starfi

·        Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum

·        Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf

·        Sjálfstæð og öguð vinnubrögð

·        Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is

Fyrstu A-landsleikir Orra Steins 

Orri Steinn Óskarsson lék sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland mætti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 föstudaginn 8. september. Orri kom inn á í hálfleik en leikurinn tapaðist 1-3. Orri var síðan í byrjunarliði Íslands á Laugardalsvelli mánudaginn 11. september þegar liðið tók á móti Bosníu og Hersegóvínu. Ísland vann dramatískan 1-0 sigur en Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands í uppbótartíma. Orri Steinn spilaði allan síðari leikinn og stóð sig gríðarlega vel! Hákon Rafn Valdimarsson var einnig í landsliðshópnum og var á bekk Íslands í báðum leikjunum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af Orra og Hákoni og óskum við Orra Steini innilega til hamingju með fyrstu landsleikina! Svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir unga Gróttukrakka!

Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir 

Rakel valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins

Gróttukonan Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19 kvenna, hefur valið hóp sem æfir dagana 16.-18. janúar. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ, en einnig leikur liðið æfingaleik við Stjörnuna á Samsungvellinum. Liðið undirbýr sig fyrir æfingamót sem það tekur þátt í á Algarve í Portúgal 14.-22. febrúar næstkomandi.
Til hamingju Rakel og gangi þér vel!

Kjartan Kári valinn í hóp U21 ára landsliðsins

Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum dagana 3. og 4. nóvember. Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í hópnum. Æfingarnar fara fram á Víkingsvelli og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir vináttuleik gegn Skotlandi 17. nóvember ytra. Á æfingunum verða aðeins leikmenn sem leika á Íslandi, en lokahópur fyrir leikinn gegn Skotlandi verður tilkynntur síðar. Til hamingju Kjartan!

Arnfríður Auður valin í æfingahóp fyrir úrtaksæfingar U16 kvenna í október

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í þessum hóp en Aufí er einungis 14 ára gömul. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykið af því að eiga fulltrúa í þessum hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!

Sara Björk í Póllandi með U15

Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!