6. flokkur karla á Njarðvíkurmótinu og með bikar heim

6. flokkur karla skellti sér á Njarðvíkurmótið síðustu helgi. Grótta tefldi fram 5 liðum á mótinu en spilað var í Reykjaneshöllinni. Fallegur fótbolti og leikgleði var fremst í flokki og allir leikmenn stóðu sig með prýði. Lið Gróttu í Ensku-deildinni gerði sér svo lítið fyrir og vann sína deild á mótinu 👏🏼🏆

Rakel Lóa á úrtaksæfingum U16 ára landsliðsins

Gróttukonan Rakel Lóa Brynjarsdóttir er í hóp U16 ára kvennalandsliðsins sem æfði saman 29.-31. janúar undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar. Rakel er á á sextánda ári og því á eldra ári í 3. flokki en æfir alfarið með meistaraflokki Gróttu. Rakel er mjög efnileg knattspyrnukona sem er búin að stimpla sig vel inn í meistaraflokkinn.

Tinna Brá á úrtaksæfingum U17 ára landsliðsins

Gróttukonan Tinna Brá er í hóp U17 kvenna sem æfir saman dagana 22.-24. janúar. Tinna Brá er á eldra ári í 3. flokki en æfir einnig og spilar með meistaraflokki kvenna. Tinna Brá er gríðarlega efnilegur markmaður sem vann m.a. það afrek að vera fyrsta landsliðskona Gróttu þegar hún lék með U15 ára landsliðinu í Víetnam s.l. sumar.

Meistaraflokkur karla í 4. sæti í valinu á liði ársins

Kvennalið Vals í körfubolta var valið lið ársins á kjöri Íþróttamanns ársins í Hörpu þann 28. desember s.l. Þess ber að geta að karlalið Gróttu í knattspyrnu var í fjórða sæti í valinu á liði ársins! Eins og kunnugt er sigruðu strákarnir Inkasso-deildina sem nýliðar, eftir að hafa verið spáð 9. sæti fyrir mót. Ekkert knattspyrnulið hlaut fleiri atkvæði í kjörinu og má því að segja að Grótta sé knattspyrnulið ársins að mati íþróttafréttamanna!

Hákon Rafn framlengir við Gróttu

Markmaðurinn Hákon Rafn Valdimarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Gróttu. Þetta er mikið fagnarefni fyrir félagið enda Hákon einn allra efnilegasti markmaður landsins. Hákon sem er fæddur árið 2001 kom inní lið Gróttu árið 2018 og í sumar lék hann alla 22 leiki liðsins í Inkasso-deildinni og í lok tímabilsins var hann valinn í úrvalsliðs ársins hjá Fótbolti.net.

Hákon hefur varið mark U19 ára landsliðsins í ár og var kallaður til æfinga hjá U21 árs landsliðinu nú í haust. Hans bíður spennandi verkefni með nýliðum Gróttu í Pepsi Max deildinni næsta sumar.