Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu fara fram þriðjudaginn 30. apríl 2024 í hátíðarsal Gróttu. Aðalfundirnir hefjast kl. 17:30 og er gert ráð fyrir að þeim sé lokið kl. 18:30. Eftir að aðalfundum lýkur verður öllum fundargestum boðið upp á léttar veitingar.
Fyrirspurnum og framboðum til stjórna skal skilað á netfangið jon@grotta.is.
Meistaraflokkur kvenna vann undanúrslitaeinvígið gegn Víkingi 2-0 á dögunum og er komið í úrslitaeinvígið við Aftureldingu um sæti í Olísdeildinni á næsta leiktímabili. Einvígið byrjar mánudaginn 22.apríl en það lið sem vinnur fyrr þrjá leiki kemst í Olísdeildina. Leikið er til skiptis í Mosfellsbænum og í Hertz-höllinni á Nesinu.
Leikdagarnir eru: Mánudaginn 22. apríl / Afturelding – Grótta Fimmtudaginn 25.apríl / Grótta – Afturelding Sunnudaginn 28.apríl / Afturelding – Grótta Miðvikudaginn 1.maí / Grótta – Afturelding * (ef til hans kemur) Laugardaginn 4.maí / Afturelding – Grótta * (ef til hans kemur)
Fjölmennum og leikið liðsins og hjálpum stelpunum okkar að komast meðal bestu liða landsins í Olísdeildinni !
Norðurlandamótið í áhaldafimleikum var haldið í Osló í Noregi á dögunum. Grótta átti tvo keppendur á mótinu þær Freyju Hannesdóttur og Auði Önnu Þorbjarnardóttur. Freyja keppti með Íslenska kvennalandsliðinu sem gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari í liðakeppni. Auður Anna keppti með Íslenska stúlknalandsliðinu sem náði einnig frábærum árangri á mótinu og hafnaði í öðru sæti. Á mótinu var einnig keppt til úrslita í fjölþraut og á einstaka áhöldum og Auður Anna var fyrst inn í úrslit á stökki og endaði í 6. sæti sem er virkilega vel gert.
Við óskum keppendum og þjálfurum þeirra innilega til hamingju með frábæran árangur.
Í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar munu Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú fara í opinbera heimsókn á Seltjarnarnes á morgun, þriðjudag.
Forsetahjónin verða allan daginn á Seltjarnarnesi. Þau munu fara víða til að hitta bæjarbúa og kynnast samfélaginu en seinnipart dags eða í kringum 16:15 koma þau í heimsókn í íþróttahús Gróttu. Endilega takið vel á móti þeim og sýnum okkar frábæra starf í fullu fjöri.
Fimmtudaginn 21. mars fór fram ársþing UMSK í veislusal golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.
Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ veitti fjórum starfsmerki UMFÍ og tvö af þeim fengu Bragi Björnsson og Kristín Finnbogadóttir.
Bragi er landsliðsmaður í félagsstarfi og hefur ástríðu sem fáir aðrir geta stært sig af. Hann hefur starfað innan skátahreyfingarinnar og var um skeið skátahöfðingi. Hann var formaður aðalstjórnar Gróttu um fjögurra ára skeið og á sinn þátt í uppgangi félagsins. Hann er duglegur til verka og stendur enn vaktina á öllum knattspyrnuleikjum meistaraflokks karla sem sjálfboðaliði. Á starfstíma hans hjá aðalstjórn réðst hann í metnaðarfulla stefnumótun og hafði gríðarlegan metnað til þess að lyfta félaginu upp í hæstu hæðir.
Kristínu þarf vart að kynna fyrir þeim sem hafa komið að starfi Gróttu undanfarna áratugi en hún á að baka ríflega tveggja áratuga starf hjá Gróttu. Hún var framkvæmdastjóri félagsins frá 2001 til 2015 og fjármálastjóri frá 2015 þar til hún lét af störfum nú um áramótin. Gitta hefur verið leiðarljós félagsins og lýst upp leið félagsmanna með óhagganlegum kærleika, takmarkalausri góðvild og gleði í yfir 20 ár. Nærvera Gittu hefur mótað sjálfan efniviðinn í Gróttu og fyllt félagið af hlýju, samúð og tilfinningu fyrir samfélagi sem á sér enga hliðstæðu.
Á ársþinginu voru fleiri heiðranir á vegum UMSK og þar má nefna íþróttafólk ársins og merki sambandsins. Þá voru einnig veitt merki ÍSÍ en einn af frumkvöðlum íþróttalífs á Seltjarnarnesi, Hilmari Sigurðssyni var afhent silfurmerki ÍSÍ. Hilmar var formaður knattspyrnudeildar Gróttu um 16 ára skeið og lagði grunn að öflugu starfi deildarinnar og velgengni. Hilmar er fylgin sér og öflugur liðsmaður sem alltaf er reiðubúin að leggja hönd á plóg og er öðrum sjálfboðaliðum innan Gróttu góð fyrirmynd.
Við óskum þeim innilega til hamingju með vel verðskuldaðar viðurkenningar.
Fimleikadeild Gróttu ætlar að bjóða uppá 8 vikna námskeið í fullorðinsfimleikum sem hefst þriðjudaginn 2. apríl. Kennt verður á þriðjudags og fimmtudagskvöldum frá kl. 20:00-21:15 í fimleikasal Gróttu. Ekki þarf bakgrunn úr fimleikum til þess að vera með.
6.flokkur kvenna yngri og 6.flokkur karla eldri léku sunnudaginn 10.mars í bikarúrslitum í Laugardalshöllinni.
Andstæðingar stelpnanna voru Valur. Fjölmargir áhorfendur gerðu leið sína í Laugardalshöllina til að fylgjast með stelpunum. Eftir mikla baráttu gegn frábæru liði, þá þurftu okkar stelpur að sætta sig við silfrið að þessu sinni. Lokatölur voru 2-7 fyrir Val. Gróttustelpurnar geta þrátt fyrir úrslitin verið hrikalega sáttar enda börðust þær eins og ljón allan leikinn og ekki sjálfgefið að komast alla leið í úrslitaleikinn. Vonandi nýta þær sér þessa reynslu til að halda áfram að bæta sig, þetta er rétt að byrja !
Andstæðingar strákanna voru FH. Strákarnir komu reynslunni ríkari í Laugardalshöllina eftir svekkjandi tap í úrslitaleik fyrir ári síðan. Liðið lék á bikarmóti HSÍ í janúar og núna fór fram úrslitaleikurinn í því móti. Baráttan og leikgleðin skein úr andliti strákanna í dag sem fengu góðan stuðning fjölmargra áhorfenda. Gróttustrákarnir uppskáru sigur, 8-5 eftir frábæran leik.
Íþróttafélagið Grótta hefur opnað fyrir umsóknir í sumarstörf 2024. Auglýst eru til umsóknar eftirfarandi sumarstörf:
Íþróttafélagið vill ráða einstaklinga 20 ára og eldri (fædd 2004 og eldri) í störf:
Verkefnastjóra sumarnámskeiða
Flokkstjóra leikjanámskeiða Gróttu
Íþróttafélagið Grótta vill ráða ungt fólk 18 ára og eldri (fædd 2006 og eldri) í störf:
Leiðbeinendur á sumarnámskeiðum.
Leiðbeinendur í fimleika- og leikjaskóla Gróttu.
Leiðbeinendur í handbolta- og afreksskóla Gróttu.
Leiðbeinendur í knattspyrnuskóla Gróttu.
Umsækjendur skulu sækja um ofangreind störf á heimasíðu alfred.is Nánari upplýsingar og lýsingar á störfunum má finna á grotta.is/sumarstorf-hja-grottu Umsóknarfrestur er til og með 18. mars 2024.
Um helgina fara fram bikarúrslit í öllum keppnisflokkum HSÍ. Við í Gróttu eigum tvö lið í úrslitum en það eru 6.flokkur karla eldri og 6.flokkur kvenna yngri.
Allir úrslitaleikirnir fara fram við glæsilega umgjörð í Laugardalshöllinni. Báðir leikir Gróttu fara fram á laugardeginum.
6.flokkur kvenna yngri Grótta – Valur Laugardaginn 8.mars kl. 09:45
6.flokkur karla eldri Grótta – FH Laugardaginn 8.mars kl. 11:15
Við hvetjum allt Gróttufólk til að fjölmenna í Laugardalshöllina og hvetja okkar upprennandi leikmenn til dáða.