Leynast myndir úr starfi Gróttu í þinni geymslu ?

Hún Hrafnhildur Thoroddsen kemur á skrifstofuna til okkar hjá Gróttu þrisvar í viku og vinnur að ýmsum tilfallandi verkefnum. Fyrir nokkru fjárfestum við í myndaskanna og því er Hrafnhildur þessa dagana að skanna inn mikið safn mynda sem safnast hafa í gegnum árin úr starfi félagsins.

Verkefnið gengur vel en okkur langar að kanna hvort það leynist mögulega fleiri myndir sem tengjast sögu og starfi Gróttu í albúmum eða geymslum.

Lumar þú mögulega á myndum sem við mættum fá lánaðar til að skanna?

Ef svo er settu þig í samband við gullijons@grotta.is sem einnig veitir nánari upplýsingar.

Skráning á vornámskeið í stubbafimi

Skráning á vornámskeið í stubbafimi fyrir iðkendur fædda 2016 og 2017 er hafin inn á skráningarsíðunni grotta.felog.is.

Stubbafimi er ætluð yngstu iðkendum fimleikadeildar Gróttu. Áhersla er lögð á grundvallarhreyfigetu og líkamsvitund með fjölbreyttum æfingum. Markmiðið er að vekja áhuga á fimleikum, byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum.

Fyrsti stubbatími vorannar verður laugardaginn 9. janúar og sá síðasti 24. apríl (15 skipti).
Kennt er á laugardagsmorgnum.  

Fyrirkomulagið er á þann hátt að börnin æfa án foreldra í tímunum.

Sérstakur covid-19 íþrótta- og tómstundastyrkur

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn vegna áhrifa af Covid-19. Markmið styrkjanna er að jafna tækifæri barna sem búa á tekjulægri heimilum til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Nánari upplýsingar og umsóknarform er að finna hér:

Íslenska – https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs
Enska – https://island.is/…/support-for-childrens-recreational

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/11/18/Opnad-fyrir-umsoknir-a-serstokum-ithrotta-og-tomstundastyrk-vegna-ahrifa-af-Covid-19/?

Nýtt hugarfarmynd um hugrekki

Hér kemur síðasta myndbandið í röð hugarfarmyndbanda Gróttu sem hófst 19. október síðastliðinn. Jón Halldórsson og Anna Steinsen frá Kvan hafa í síðustu viku fjallað um sjálfstraust, styrkleikana, liðsheild en í þessu myndbandi tekur Anna fyrir hugrekki.

Halda áfram að lesa

Hákon á reynslu hjá Norrköping

Hákon Rafn Valdimarsson, markmaður Gróttu, er á leið til reynslu hjá sænska úrvaldsdeildarfélaginu Norrköping. Hákon, sem er 19 ára gamall, heldur til Svíþjóðar á fimmtudaginn og verður í eina viku. Knattspyrnudeild Gróttu heyrði hljóðið í Hákoni sem sagðist vera mjög spenntur fyrir þessu tækifæri. Grótta óskar Hákoni góðs gengis meðan á dvölinni stendur 🇸🇪⚽️

Signý til Gróttu – Margrét Rán skrifar undir

Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val og hefur skrifað undir tveggja ára samning. Signý var á láni í sumar og skoraði 3 mörk í 13 leikjum en lenti einnig í meiðslum sem héldu henni frá keppni í 6 vikur. Signý er 19 ára gömul og á að baki þrjá leiki fyrir U16 ára landslið Íslands. Við sama tækifæri skrifaði hin 17 ára Margrét Rán Rúnarsdóttir undir tveggja ára samning við Gróttu. Margrét kom sterk til baka í sumar eftir að hafa verið frá í heilt ár vegna höfuðmeiðsla. Hún kom við sögu í 12 leikjum með meistaraflokki og var lykilmanneskja í 2. flokki Gróttu/KR sem sigraði B-deild Íslandsmótsins. Magnús Örn, annar þjálfara Gróttuliðsins, fagnar því að stelpurnar hafi skrifað undir: „Það var frábært að sjá Margréti snúa aftur á völlinn í sumar eftir langa fjarveru. Það er hægara sagt en gert að vera svona lengi frá en margir hefðu hreinlega gefist upp. Það verður gaman fyrir okkur þjálfarana að geta unnið með Margréti allt tímabilið og sömuleiðis Signýju sem kom til okkar rétt fyrir Covid pásuna í mars. Nú er hún orðin innvígð Gróttukona sem eru gleðifréttir fyrir félagið.“

Maggi og Pétur áfram með meistaraflokk kvenna

Í gærkvöldi skrifuðu þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson undir samning sem þjálfarar meistaraflokks kvenna út næsta ár. Eins og kunnugt er tók Magnús við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Þeir munu á komandi tímabili stýra liðinu í sameiningu en Grótta er á leið í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa endað í 6. sæti í sumar.

„Ég er hrikalega spenntur að halda áfram að vinna með þessum efnilega hópi. Maður er sjálfur í yngri kantinum og því frábært að fá tækifæri til að vera aðalþjálfari í meistaraflokki á þessum tímapunkti. Við Maggi höfum unnið vel saman og munum gera það áfram“ segir Pétur sem varð 27 ára nú í haust.

Magnús tók í sama streng:„Það er stór áskorun fyrir okkur að vinna vel úr reynslunni sem við fengum síðasta sumar. Tækifærin sem Gróttuliðið hefur eru mikil og ég hlakka mikið til að byrja æfingar á ný. Pétur hefur sýnt síðustu ár hve öflugur þjálfari hann er og ég trúi því að hann muni eflast enn frekar með stærra hlutverki.“

Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar skrifaði undir með strákunum í gær. Hann segir að markmið síðustu tveggja ára hafi náðst í sumar og nú sé horft fram á nýja og spennandi tíma. „Við erum á áætlun. Stelpurnar sýndu það í sumar að þær eiga fullt erindi í 1. deild og nú tekur við áskorun um að festa sig enn frekar í sessi sem alvöru lið í deildinni. Við í stjórninni erum spennt fyrir því að halda áfram þróun þessa flotta liðs með þá Magga og Pétur við stjórnvöllinn.“