Maggi og Pétur áfram með meistaraflokk kvenna

Í gærkvöldi skrifuðu þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson undir samning sem þjálfarar meistaraflokks kvenna út næsta ár. Eins og kunnugt er tók Magnús við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Þeir munu á komandi tímabili stýra liðinu í sameiningu en Grótta er á leið í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa endað í 6. sæti í sumar.

„Ég er hrikalega spenntur að halda áfram að vinna með þessum efnilega hópi. Maður er sjálfur í yngri kantinum og því frábært að fá tækifæri til að vera aðalþjálfari í meistaraflokki á þessum tímapunkti. Við Maggi höfum unnið vel saman og munum gera það áfram“ segir Pétur sem varð 27 ára nú í haust.

Magnús tók í sama streng:„Það er stór áskorun fyrir okkur að vinna vel úr reynslunni sem við fengum síðasta sumar. Tækifærin sem Gróttuliðið hefur eru mikil og ég hlakka mikið til að byrja æfingar á ný. Pétur hefur sýnt síðustu ár hve öflugur þjálfari hann er og ég trúi því að hann muni eflast enn frekar með stærra hlutverki.“

Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar skrifaði undir með strákunum í gær. Hann segir að markmið síðustu tveggja ára hafi náðst í sumar og nú sé horft fram á nýja og spennandi tíma. „Við erum á áætlun. Stelpurnar sýndu það í sumar að þær eiga fullt erindi í 1. deild og nú tekur við áskorun um að festa sig enn frekar í sessi sem alvöru lið í deildinni. Við í stjórninni erum spennt fyrir því að halda áfram þróun þessa flotta liðs með þá Magga og Pétur við stjórnvöllinn.“

Tímabilið blásið af

Þá er orðið ljóst að tímabilinu er formlega lokið. Sumarið 2020 mun seint gleymast – karlaliðið í fyrsta sinn í Pepsi Max og kvennaliðið í fyrsta sinn í Lengjudeildinni. Knattspyrnuhreyfingin mætti mörgum áskorunum vegna heimsfaraldursins en við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum stolt af leikmönnum okkar, þjálfurum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir það hvernig þau tókust á við það mótlæti. Pepsi Max ævintýrinu er lokið í bili og munu báðir meistaraflokkarnir okkar spila í Lengjudeildinni að ári. Við hlökkum til næstu verkefna og komum sterkari til leiks þegar að því kemur.
Takk fyrir stuðninginn 💙 Áfram Grótta!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Íþróttastarf Gróttu fellur niður til 17. nóvember

Það má með sanni segja að síðustu vikur og mánuðir hafi verið óvenjulegir í starfi Gróttu og auðvitað í heiminum öllum. Íþróttastarf hefur ýmist verið í fullum gangi, í gangi með takmörkunum eða legið alfarið niðri. Nú er það ljóst að allt íþróttastarf mun liggja niðri til 17. nóvember næstkomandi.

Halda áfram að lesa

Tinna til Apulia Trani

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, hefur gert lánssamning við ítalska liðið Apulia Trani sem leikur í Serie C. Tinna er komin út og gæti leikið sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn í borginni Palermo á Sikiley. Eins og kunnugt er gekk Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir til liðs við Apulia Trani í síðustu viku en báðar framlengdu samninga sína við Gróttu á dögunum.
Tinna er uppalin í Gróttu og hefur leikið 75 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 35 mörk. Hún hefur verið lykilleikmaður frá því að meistaraflokkur var settur á laggirnar árið 2016 og er leikjahæsta Gróttukonan ásamt Diljá Mjöll Aronsdóttur.
Við heyrðum hljóðið í Tinnu sem kom til Trani í gærkvöld eftir langt ferðalag.
„Þetta á sér ekki langan aðdraganda. Félagið hafði samband við mig fljótlega eftir að Sigrún var komin út og eftir að hafa talað við hana og hugsað málið aðeins ákvað ég að slá til. Það er frábært tækifæri að búa í nýju landi og æfa fótbolta við aðrar aðstæður. Það var til dæmis mjög notalegt að vakna í sól og blíðu í morgun! En ég vona aðallega að þetta verði reynsla sem muni nýtast mér í framtíðinni, bæði inni á vellinum með Gróttu og annars staðar í lífinu“
Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Þar segir meðal annars: „Við erum sannfærð um að eiginleikar Tinnu sem framherja muni efla sóknarleik liðsins og hjálpa til við að ná settum markmiðum. Við bjóðum Tinnu hjartanlega velkomna til Trani“ 🇮🇹