Jólablað knattspyrnudeildar Gróttu er komið út í tólfta sinn

Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!

Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.

Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙

Kjartan Kári valinn efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar 2022

Kjartan Kári Halldórsson er í úrvalsliðið Lengjudeildarinnar 2022 og var einnig valinn efnilegasti leikmaður ársins. Kjartan hefur skorað 15 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni í ár og staðið sig gríðarlega vel með sínu uppeldisfélagi. Grótta á einnig tvo fulltrúa á varamannabekk úrvalsliðsins en það eru þeir Jón Ívan Rivine og Arnar Þór Helgason. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Kjartani innilega til hamingju með þennan glæsta árangur!

Óliver Dagur Thorlacius er kominn í 100 leikja klúbb Gróttu

Óliver Degi var veittur blómvöndur fyrir leik Gróttu og Kórdrengja þann 2. september sl. í tilefni þess að hann hefur spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Óliver kom til félagsins frá KR árið 2018 og hefur verið lykilleikmaður í liðinu síðan. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Óliver innilega til hamingju með þennan merka áfanga.


Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Árskortin komin í sölu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur hafið sölu á árskortum vetrarins Boðið er upp á fimm mismunandi gerðir af árskortum sem henta fjölbreyttum hópi áhorfenda.

Gullkort
Gullkortið gildir fyrir tvo á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 40.000 kr.

Silfurkort
Silfurkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 25.000 kr.

Olísdeildarkort
Olísdeildarkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki meistaraflokks karla í Hertz-höllinni í vetur. Kortið kostar 15.000 kr.

Grill 66-deildarkort
Grill 66-deildarkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki meistaraflokks kvenna í Hertz-höllinni í vetur. Kortið kostar 10.000 kr.

Ungmennakort (16 – 20 ára)
Ungmennakortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 7000 kr.

Salan á kortunum fer fram í gegnum Stubbur appið. Beinn linkur á söluna er hérna: https://stubb.is/passes/teams/grotta

Athygli er vakin á að miðaverð á leiki í vetur er 2000 kr. Sala á heimaleikjakortum er stór fjáröflunarþáttur í starfi félagsins.

Við vonum að sem flestir styðji okkur í þessari fjáröflun.

Áfram Grótta !

Fyrsti heimaleikur í Olísdeildinni

Fyrsta umferð Olísdeildar karla fer fram í kvöld en þá mæta okkar menn ÍR í Hertz-höllinni á Nesinu. Leikurinn hefst kl. 19:30. Við hvetjum Seltirninga og annað Gróttufólk að mæta og styðja liðið frá upphafi.

Áfram Grótta !

Tómas Johannessen til Ungverjalands með U17

Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U17 karla, hefur valið leikmannahóp til þátttöku í alþjóðlegu móti í Telki í Ungverjalandi dagana 14.-21. ágúst n.k.
Alls hafa 20 leikmenn verið valdir í hópinn og koma þeir frá 15 félögum. Einn þeirra er Gróttumaðurinn Tómas Johannessen sem er einungis 15 ára. Vel gert Tómas og gangi þér vel!

Tveir leikmenn Gróttu og þjálfarinn í úrvalsliðinu

Grótta á tvo fulltrúa í úrvalsiði fyrri hluta Lengjudeildarinnar ásamt því að þjálfari fyrri hlutans er þjálfari Gróttu, Chris Brazell!
Kjartan Kári Halldórsson var valinn leikmaður fyrri hlutans en þessi 19 ára Seltirningur er langmarkahæstur í deildinni með 12 mörk. Fyrirliði Gróttu, Arnar Þór Helgason, er einnig í úrvalsliðinu í hjarta varnarinnar.
Grótta situr eins og stendur í 2. sæti Lengjudeildarinnar og er næsti leikur hjá drengjunum á laugardaginn þegar þeir halda til Ísafjarðar og mæta Vestra.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Arnar Þór og Kristófer Orri komnir í 100 leikja klúbbinn

Gróttumenn tóku á móti HK í þriðju umferð Lengjudeildar karla þann 19. maí sl. Áður en leikurinn var flautaður á veitti Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, þeim Arnari Þór Helgasyni og Kristófer Orra Péturssyni blómvendi í tilefni þess að þeir hafa spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Arnar Þór var að spila sinn 106. leik fyrir Gróttu og Kristófer Orri þann 100. Gróttumenn sóttu sér þrjú stig í kvöld eftir hörkuleik við HK. Staðan var 0-0 í hálfleik en Grótta var mun beinskeyttara liðið í síðari hálfleik og uppskar eftir því. Leikurinn fór 2-0 fyrir heimamönnum en mörk Gróttu skoruðu Sigurbergur Áki Jörundsson og Kjartan Kári Halldórsson.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að Addi og Kristófer hafi náð þessum merka áfanga og hafa haldið góðri tryggð við klúbbinn. Megi þeir spila sem lengst!

Robbi Gunn þjálfar Gróttu

Þjálfarateymi meistaraflokks karla Arnar Daði Arnarsson og Maksim Akbackev hafa óskað eftir að láta af störfum sem þjálfarar karlaliðsins og hefur stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu samþykkt uppsögnina.

Á sama tíma hefur Róbert Gunnarsson verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í Gróttu. Róbert þekkja allir sem hafa fylgst með handbolta undanfarin ár en hann lék með íslenska landsliðinu til margra ára, frá 2001 til 2016. Róbert vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki 2010 með landsliðinu. Hann lék meðal annars með Gummersbach, Rhein Neckar Löwen og PSG á farsælum atvinnumannaferli.

Róbert er fæddur árið 1980 og flutti á Seltjarnarnes síðastliðið sumar eftir að hafa þjálfað 19 ára lið Århus, þjálfað í ungliðaakademíu liðsins og verið í þjálfarateymi aðalliðs Århus. Hann er núverandi landsliðsþjálfari U21 árs landsliðsins.Davíð Örn Hlöðversson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins.

Davíð Hlöðvers þekkja allir sem hafa komið nálægt handbolta á Nesinu undanfarin ár. Núna í vetur þjálfari Davíð 5. og 3.flokks kvenna ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna.

Arnari Daða og Maksim er þakkað mikið og óeigingjarnt starf í þágu Gróttu undanfarin ár en Arnar Daði kom til félagsins sumarið 2019 og stýrði meistaraflokki í þrjú ár. Maksim kom til Gróttu vorið 2020 og hefur verið aðstoðarþjálfari karlaliðsins síðan þá. Saman hafa þeir náð eftirtektarverðum árangri með Gróttuliðið síðustu tímabil en hársbreidd vantaði að liðið kæmist í úrslitakeppnina í vor.

Einar Baldvin framlengir við Gróttu

Markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hefur framlengt samning sinn við Gróttu til tveggja ára. Einar Baldvin er uppalinn í Fossvoginum hjá Víkingi en hann lék með Val og Selfoss áður en hann kom til Gróttu síðastliðið sumar. Einar Baldvin átti frábært tímabil með Gróttu í vetur og var með þriðju bestu hlutfallsmarkvörsluna í Olísdeldinni eða 30,9%. Einar Baldvin var ennfremur markahæsti markmaður deildarinnar með 8 mörk.

Það eu mikil gleðitíðindi að Einar Baldvin verði áfram í herbúðum Gróttu enda frábær markmaður með mikinn metnað.