Orri Steinn Óskarsson varð í gær yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeild Evrópu!
Orri Steinn er leikmaður FC Kaupmannahafnar og hefur fengið tækifæri með aðalliðinu undanfarið eftir að hafa brillerað með U17 og U19 ára liðum liðsins síðan hann samdi við FCK árið 2020. Orri hefur komið inná í fjórum leikjum í deild og var í byrjunarliði í danska bikarnum um daginn. Orri kom inn af varamannabekknum í Meistaradeildinni í gær en mótherjar FCK voru Sevilla sem höfðu betur gegn danska liðinu. Orri er fæddur árið 2004 og var 18 ára og 57 daga gamall þegar hann spilaði í gær. Orri bætti met Skagamannsins Arnórs Sigurðssonar, en Arnór var 19 ára og 127 daga gamall þegar hann lék fyrir CSKA Moskvu gegn Viktoria Plzen árið 2018.
Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykin af frammistöðu Orra Steins og óskar honum innilega til hamingju og áframhaldandi velgengni.
Sara Björk í Póllandi með U15
Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!
2. flokkur karla upp um deild!
Það var frábær stemning á Vivaldivellinum og fjöldi fólks í stúkunni þegar 2. flokkur karla tryggði sér sæti í B-deild Íslandsmótsins í lok september. Andstæðingar Gróttu var lið KR2 sem tefldi fram nokkrum sterkum leikmönnum í leiknum, þar sem jafnræði var með liðunum fyrsta hálftímann. Grótta skoraði tvö mörk rétt fyrir leikhlé og í byrjun seinni hálfleiks gerðu strákarnir út um leikinn og komust í 4-0. Kjartan Kári Halldórsson var með tvö mörk, Benjamin Friesen með eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Halldór Orri Jónsson skoraði rétt fyrir leikslok og tryggði Gróttu 5-0 sigur og mikil gleði braust út í leikslok. Í sumar hefur liðsheildin í 2. flokknum verið sterk og leikmenn A- og B-liðsins staðið vel við bakið hvor á öðrum. Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra, Arnari Þór Axelssyni og Dominic Ankers, innilega til hamingju með árangurinn!
Gróttukonur upp í Lengjudeildina!
Gróttukonur tryggðu sér í september sæti í Lengjudeildinni næsta sumar. Grótta endaði í 2. sæti 2. deildar kvenna með 34 stig og bestu markatölu deildarinnar! Þessum árangri var fagnað vel á Vivaldivellinum þegar lokaleikur stelpnanna fór fram föstudaginn 23. september. Til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir sem að liðinu koma!
Emelía skorar fyrir Kristianstad
Emelía Óskarsdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðallið Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í síðustu viku 👏🏽💥
Emelía kom inná undir lok fyrri hálfleiks þegar Kristianstad tók á móti Hammarby Hún skoraði þriðja mark liðsins en Kristianstad fór með 3-1 sigur. Gróttukonan Emelía gekk í raðir Kristianstad í janúar á þessu ári og hefur henni gengið vel að stimpla sig inn í liðið, en hún er einungis 16 ára gömul. Það er mikið gleðiefni að ungar Gróttustelpur eigi ekki einungis góðar fyrirmyndir innan félagsins heldur einnig úti í heimi. Vel gert Emelía! 🙌🏽
Fannar Hrafn valinn í Hæfileikamót N1 og KSÍ
Gróttumaðurinn Fannar Hrafn Hjaltason hefur verið valinn til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ 2022 dagana 14.- 16. september. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Fannar er fæddur árið 2008 og er gríðarlega efnilegur. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að eiga fulltrúa í þessum hópi og óskar Fannari góðs gengis á æfingunum!
Kjartan Kári valinn efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar 2022
Kjartan Kári Halldórsson er í úrvalsliðið Lengjudeildarinnar 2022 og var einnig valinn efnilegasti leikmaður ársins. Kjartan hefur skorað 15 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni í ár og staðið sig gríðarlega vel með sínu uppeldisfélagi. Grótta á einnig tvo fulltrúa á varamannabekk úrvalsliðsins en það eru þeir Jón Ívan Rivine og Arnar Þór Helgason. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Kjartani innilega til hamingju með þennan glæsta árangur!
Góð mæting á 8. flokks æfingar
Æfingar hjá yngri flokkum félagsins hófust þann 1. september og fór 8. flokkur karla og kvenna vel af stað á sinni fyrstu æfingu. 8. flokkur karla og kvenna er fyrir börn fædd 2017 og 2018 og eru æfingar í vetur inni í íþróttahúsi en á sumrin er fært sig út á Vivaldivöll.
Æfingatímarnir eru eftirfarandi:
8 flokkur kvenna: Þriðjudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur karla: Miðvikudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur kk og kvk: Fimmtudaga kl. 15:45-16:25
Börnin eru sótt í leikskólann á fimmtudögum og á þriðjudögum og miðvikudögum er þeim fylgt í leikskólann að æfingu lokinni. Við hvetjum börn fædd 2017 og 2018 til að koma og prófa fótboltaæfingu
Þjálfari flokksins er Hansína Þóra Gunnarsdóttir og henni til aðstoðar eru Agnar Guðjónsson, Helga Sif Bragadóttir og Jóna Guðrún Gylfadóttir.
Óliver Dagur Thorlacius er kominn í 100 leikja klúbb Gróttu
Óliver Degi var veittur blómvöndur fyrir leik Gróttu og Kórdrengja þann 2. september sl. í tilefni þess að hann hefur spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Óliver kom til félagsins frá KR árið 2018 og hefur verið lykilleikmaður í liðinu síðan. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Óliver innilega til hamingju með þennan merka áfanga.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Æfingatafla knattspyrnudeildar 2022-2023
Æfingatafla knattspyrnudeildarinnar fyrir veturinn 2022-2023 hefur verið birt. Æfingar samkvæmt töflunni hefjast í dag, fimmtudag 1. september.
Continue reading