Kári tekur við mfl. kvk Gróttu á ný!

Kári Garðarsson var í dag ráðinn sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu til næstu 3ja ára og tekur við liðinu af þeim Davíð Erni Hlöðverssyni og Arnari Jóni Agnarssyni.

Kári hefur starfað lengi við þjálfun hjá Gróttu og meðal annars stýrt báðum meistaraflokkum félagsins en nú síðast var hann þjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni og kom þeim m.a upp í efstu deild þar sem hann stýrði liðinu á núverandi keppnistímabili.

Kári endurnýjar nú kynni sín af kvennaliði félagsins en hann náði stórbrotnum árangri með liðið á tímabilunum 2013-2017 þar sem hann gerði liðið meðal annars að tvöföldum Íslandsmeisturum.

Með ráðningu Kára er framhaldið þeirri stefnu sem unnið hefur verið að í handboltanum á Seltjarnarnesi en Kára er ætlað að taka næsta skref í því að koma kvennaliði félagsins aftur í efstu deild og í fremstu röð á næstu árum.

Stjórn deildarinnar vill koma að sérstökum þökkum til fráfarandi þjálfara, Davíðs og Arnars, fyrir þeirra starf síðastliðin 2 ár með meistaraflokk kvenna.

Frekari frekna af meistaraflokkum félagsins er að vænta á næstu vikum en undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil er í fullum gangi.

HSÍ aflýsir öllu mótahaldi – Karlaliðið upp í efstu deild!

Stjórn HSÍ ákvað á fundi sínum í kvöld að aflýsa öllu frekara mótahaldi á vegum sambandsins. Ákvörðun þessi er tekin í ljósi þess að yfirvöld hafa ákveðið að framlengja samkomubanni til 4. maí nk. og er því ljóst að ekki verður unnt að hefja keppnir að nýju þar sem félögin þarfnast að minnsta kosti 2-3 vikna undirbúnings til að geta hafið leik.

Continue reading

Davíð Örn ráðinn þjálfari 5.flokks kvenna

Davíð Örn Hlöðversson núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu hefur verið ráðinn þjálfari 5.flokks kvenna fyrir keppnistímabilið 2020-2021.

Davíð þekkja flestir sem koma að félaginu en hann hefur þjálfað samfleytt í að verða 12 ár hjá Gróttu með góðum árangri auk þess að eiga að baki 144 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.

Síðastliðin 2 keppnistímabil hefur hann verið annar af aðalþjálfurum meistaraflokks kvenna og stýrt þar uppbyggingu kvennahandboltans hjá félaginu með myndarbrag.

Handknattleiksdeild Gróttu fagnar því mjög að Davíð komi að yngri flokka starfi félagsins á næsta keppnistímabili og verður hann lykilaðili í þó góða uppbyggingarstarfi sem á sér stað innan kvennaflokka félagsins um þessar mundir og tekur við mjög efnilegum 5.flokki kvenna.

Handknattleiksdeildin vinnur þessa dagana hörðum höndum að undirbúning næsta keppnistímabils og er frekari frétta af þeim undirbúning að vænta á næstu vikum.