Gróttunámskeið í Fókusþjálfun

Grótta býður iðkendum sínum að taka þátt í spennandi námskeiði á vegum Fókusþjálfunar. Skemmtilegt námskeið þar sem farið er yfir liðkun, jafnvægi og snerpuæfingar. Einnig eru gerðar skemmtilegar boltaæfingar sem reyna á samhæfingu, athygli og víðsýni.

Námskeiðið verður í fjóra daga, mánudaginn 29.júlí til fimmtudagsins 1.ágúst. Námskeiðið fer fram í Hertz-höllinni.

Þjálfari námskeiðsins er Tinna Jökulsdóttir, eigandi Fókusþjálfunar, sjúkraþjálfari og fyrrum handboltakona. Hún er sjúkraþjálfari meistaraflokks kvenna í Stjörnunni og A-landsliðs kvenna í handbolta. Skráning fer fram á tinnaj@sjukrasport.is

Frekari upplýsingar um Fókusþjálfun má nálgast á instagram-síðunni https://www.instagram.com/fokusthjalfun

Óli í Gróttu

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Hafsteinn Óli, eða Óli eins og hann er kallaður kemur úr herbúðum HK þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú árin. Óli lék eitt tímabil með Aftureldingu en er uppalinn hjá Fjölni í Grafarvogi. Þar var hann hluti af sigursælum 2000-árgangi sem urðu meðal annars bikar- og Íslandsmeistarar í 3.flokki.

Óli er hávaxinn og er örvhentur. Hann eykur breidd Gróttuliðsins hægra megin á vellinum en hann muna deila stöðunni með Ara Pétri Eiríkssyni.

Óli lék með öllum yngri landsliðum Íslands og var til dæmis hluti af U18 ára landsliðinu sem fékk silfur á EM í Króatíu.

„Það eru góð tíðindi að Óli sé kominn á Nesið. Það býr mikið í honum enda hæfileikaríkur leikmaður. Það er ekki eingöngu mikil skotógn af honum, heldur er hann afbragðs varnarmaður. Ég hlakka mikið til að vinna með honum á næstu tímabilum“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Vertu velkominn í blátt, Óli !

Á myndinni má sjá Hafstein Óla með Hörpu Guðfinnsdóttur stjórnarkonu í stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Frábær ferð til Þýskalands

Í byrjun júní hélt 3.flokkur karla í æfinga- og keppnisferð til Þýskalands. Liðið dvaldi í Leipzig fyrri hluta ferðarinnar þar sem liðið æfði og lék þrjá æfingaleiki gegn unglinga- og ungmennaliðum félagsins. Fyrsti leikurinn var gegn B-jugend liðinu. Okkar strákar léku við hvern sinn fingur og uppskáru góðan 23-40 sigur þar sem allir útileikmenn skoruðu og markmennirnir dreifðu markvörslunni á milli sín.

Daginn eftir léku strákarnir gegn U23 ára liði Leipzig. Um var að ræða hörkuleik gegn öflugu liði. Því miður tapaðist leikurinn 31-24 og segja má að Akkilesarhæll liðsins hafi verið færanýting. Seinasti æfingaleikur Gróttu var gegn A-jugend liði Leipzig. Eftir hraðan og skemmtilegan leik voru það okkar menn sem uppskáru fimm marka sigur, 35-40.

Á meðan liðið dvaldi í Leipzig bauð Gróttumaðurinn Viggó Kristjánsson leikmaður Leipzig liðinu heim til sín í grillveislu. Við þökkum honum kærlega fyrir heimboðið og gestrisnina.

Seinni hluti ferðarinnar var í Köln þar sem strákarnir fylgdust með Final 4 í meistaradeildinni. Þar horfðu þeir á undanúrslitin og úrslitaleikina í stórkostlegri Lanxess-höllinni. Eftir mikla baráttu voru það Barcelona sem voru sterkastir eftir æsispennandi úrslitaleik.

Ferðin stóð yfir í rúmlega viku og heppnaðist frábærlega. Hún skilur án efa eftir góðar minningar hjá strákunum.

Anna Karólína og Katrín Anna í 8 liða úrslit

Anna Karólína og Katrín Anna ásamt U20 ára landsliði kvenna eru heldur betur að standa sig vel á HM í Norður-Makedóníu. Íslenska liðið mætti Svartfjallalandi og Portúgal í milliriðlum á mánudaginn og þriðjudaginn. Leikurinn gegn Svartfjallalandi vannst örugglega en því miður tapaðist leikurinn gegn Portúgal með aðeins einu marki.

Íslenska liðið endaði því í 2.sæti í milliriðlinum og er komið í 8 liða úrslit á HM. Þar mun liðið mæta feykilega sterku liði Ungverjalands sem eru ríkjandi Evrópumeistarar. Leikurinn fer fram á morgun, fimmtudag kl. 16:00. Allir leikir íslenska liðsins eru sýndir í beinni útsendingu á rás IHF á Youtube. Með sigri kemst Ísland í undanúrslit mótsins en tapi liðið gegn Ungverjum leikur liðið um sæti 5 – 8 í keppninni.

Gróttustelpurnar hafa heldur betur staðið sig vel á mótinu hingað til. Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði 1 mark gegn Svartfjallalandi og 3 mörk gegn Portúgal og er samtals komin með 17 mörk í mótinu. Þar er hún í 3.sæti af íslensku stelpunum. Anna Karólína Ingadóttir náði því miður ekki að verja þau skot sem hún fékk á sig í milliriðlinum. Engu að síður er hún búin að verja 18 skot í keppninni með 47,3% markvörslu. Þar er hún í 2.sæti yfir bestu hlutfallsmarkvörsluna í öllu mótinu.

Við höldum áfram að fylgjast með liðinu og okkar stelpum í mótinu.

Samningar við unga og efnilega leikmenn

Grótta heldur áfram að framlengja leikmannasamninga við unga og efnilega leikmenn félagsins. Samningarnir eru til tveggja ára og eru hluti af framtíðaráformum félagsins við að byggja upp meistaraflokkinn með leikmönnum Gróttu.

Allir leikmennirnir eru lykilleikmenn í 3.flokki og U-liði félagsins. Leikmennirnir eru Bessi Teitsson, Hrafn Ingi Jóhannsson, Kári Benediktsson og Þórður Magnús Árnason,

* Bessi er 18 ára gamall. Hann rétthentur hornamaður og öskurfljótur sem slíkur. Hann býr yfir mikilli skottækni.

* Hrafn Ingi er 18 ára gamall og er fjall að burðum. Hann er línumaður og öflugur varnarmaður.

* Kári er 17 ára gamall. Hann er örvhentur og leikur sem hornamaður. Hann er hávaxinn og sterkur.

* Þórður Magnús er 17 ára gamall. Hann er metnaðarfullur markvörður sem ætlar sér langt. Hann býr yfir snerpu og góðum staðsetningum.

Allir leikmennirnir voru tvívegis í leikmannahópi meistaraflokks á nýafstaðinni leiktíð. Við munum án efa fá að sjá þá enn oftar á næstu leiktíð.

Grótta er virkilega ánægt með samningana enda eru þeir mikilvægur liður í framtíðaráformum félagsins.

„Við erum mjög ánægðir að vera búnir að semja við þessa ungu stráka. Þessir strákar hafa verið viðloðandi meistaraflokkinn síðastliðinn vetur og því eðlileg þróun að þeir stígi næsta skref og verði partur af uppbyggingunni,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Arnari veitt gullmerki HSÍ og silfurmerki ÍSÍ

Ársþing HSÍ fór fram miðvikudaginn 19.júní síðastliðinn í Laugardalshöll. Eins og venja ber á ársþingum þá eru reikningar og skýrsla stjórnar síðasta árs lagðir fram, stjórnarkjör fer fram og önnur mál sem fram koma í lögum sambandsins.

Gróttumaðurinn Arnar Þorkelsson hefur setið í stjórn HSÍ sem gjaldkeri undanfarin 8 ár. Hann hefur ákveðið að hætta í stjórn sambandsins og við það tilefni var honum afhent gullmerki HSÍ fyrir frábær störf fyrir handboltann í landinu. Við sama tilefni var honum einnig afhent silfurmerki ÍSÍ fyrir sín störf.

Þó að Arnar hafi byrjað ungur að æfa handbolta hjá Gróttu, þjálfað yngri flokka, setið í barna- og unglingaráði, setið í nefndum á vegum Gróttu, verið formaður Handknattleikadeildar Gróttu og setið í stjórn HSÍ í 8 ár, þá er hann engan veginn hættur. Hann hefur tekið sæti í barna- og unglingaráði Handknattleiksdeildar Gróttu.

Til hamingju Arnar !

Ungir og efnilegir skrifa undir

Grótta hefur framlengt samninga sína til tveggja ára við unga og efnilega leikmenn félagsins sem hluta af uppbyggingu félagsins. Allir leikmennirnir eru lykilleikmenn í 3.flokki og U-liði félagsins. Leikmennirnir eru Alex Kári Þórhallsson, Gísli Örn Alfreðsson, Hannes Pétur Hauksson og Sverrir Arnar Hjaltason.

* Alex Kári er 18 ára gamall. Hann örvhentur og getur bæði leikið sem skytta og hornamaður. Hann er klókur leikmaður og spilar vel upp á félaga sína í liðinu.

* Gísli Örn er 17 ára gamall og getur bæði leikið sem leikstjórnandi og skytta. Hann er góður skotmaður, fylginn sér og öflugur beggja megin vallarins.

* Hannes Pétur er 18 ára gamall og er hávaxinn markvörður. Hann hefur góðar staðsetningar, les skotin vel og hefur góða sendingagetu.

* Sverrir Arnar er 16 ára gamall og er línumaður. Hann er nautsterkur, viljugur og hefur stigið stór framfaraskref síðastliðinn vetur.

Gísli og Hannes hafa hlotið eldskírn sína í Olísdeildinni á meðan Alex og Sverrir eiga hana eftir og vonandi kemur hún á næstu misserum.

Grótta er virkilega ánægt með samningana enda eru þeir mikilvægur liður í framtíðaráformum félagsins.

„Við erum mjög ánægðir að vera búnir að semja við þessa ungu stráka. Þessir strákar hafa flestir verið viðloðandi meistaraflokkinn síðastliðinn vetur og því eðlileg þróun að þeir stígi næsta skref og verði partur af uppbyggingunni,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Elvar Otri framlengir

Leikstjórnandinn og skyttan Elvar Otri Hjálmarsson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til tveggja ára. Elvar er 23 ára gamall og kom til Gróttu frá Fjölni fyrir tveimur árum síðan. Hann fór mikinn á nýafstöðu leiktímabili en þá skoraði hann 44 mörk og var öflugur í varnarleik Gróttuliðsins.

Það eru frábært tíðindi að Elvar verði áfram í Gróttu enda mikilvægur hlekkur í liðinu. Það verður gaman að sjá hann og Gróttuliðið taka næsta skref á næsta leiktímabili.

Atli Steinn í Gróttu

Atli Steinn Arnarson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Atli Steinn er tvítug skytta sem hefur leikið með FH undanfarin ár. Atli Steinn fór á lán til HK um stundar sakir á síðasta leiktímabili og skoraði 17 mörk í 5 leikjum. Þess fyrir utan skoraði hann 9 mörk með FH í Olísdeildinni. Atli Steinn hefur leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár og fer til Slóveníu á EM U20 ára landsliða í júlí.

„Atli Steinn er mjög efnileg skytta sem verður virkilega góð viðbót við Gróttuliðið. Hann er kraftmikill leikmaður sem nýtist okkur vel. Það verður gaman að vinna með honum“. sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu við undirritun samningsins.

Á myndinni má sjá Arnkel Bergmann Arnkelsson varaformann Handknattleiksdeildar Gróttu og Atla Stein handsala samninginn.

Velkominn í Gróttu, Atli Steinn !