Við minnum á greiðslu æfingagjalda og hvetjum ykkur til að ganga frá skráningu iðkenda í gegnum Abler.
Æfingagjöldin eru forsenda þess að iðkandi gerist löglegur og geti tekið þátt í keppnum á vegum félagsins. Einnig eru þau lífæð félagsins í rekstri deilda.
Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu og hefur tekið til starfa.
Ágústa Edda kemur til Gróttu frá Sidekick Health þar sem hún hefur starfað við verkefnastýringu og notendarannsóknir síðustu fjögur ár. Áður starfaði hún hjá Félagsvísindastofnun í 10 ár sem verkefnastjóri við rannsóknir, rýnihópa, kannanir og viðtöl. Ágústa Edda hefur einnig sinnt stundakennslu í íþróttafélagsfræði við bæði HÍ og HR. Hún hefur ennfremur yfirgripsmikla reynslu af þjálfun þvert á íþróttagreinar. Ágústa Edda þjálfaði fimleika hjá Gróttu, var yfirþjálfari yngri flokka Vals í handbolta um árabil og er enn að þjálfa hjólreiðar hjá Hreyfingu, World Class og utandyra með Tindi. Ágústa Edda er með MA-gráðu í félagsfræði frá HÍ og B.sc. í félagsfræði og viðskiptafræði frá sama skóla.
Margir þekkja Ágústu Eddu sem afreksíþróttakonu í fimleikum, handbolta, hjólreiðum og nú nýlega í hlaupum. Ágústa Edda byrjaði í fimleikum 8 ára gömul þegar Fimleikadeild Gróttu var stofnuð, var í fyrsta keppnishóp félagsins og var valin í landsliðið. Handboltinn átti síðar hug hennar allan og spilaði hún með U-18 ára og A-landsliðum um árabil. Síðustu 10 ár hefur Ágústa Edda stundað hjólreiðar af kappi, verið í landsliðinu og keppt á þremur heimsmeistaramótum. Nú er hlaupin í hana áhugi fyrir hlaupum og við hlökkum til að fylgjast með afrekum hennar á því sviði.
Ágústa Edda býr í Garðabæ og á þrjá syni sem hafa allir stundað íþróttir af kappi hjá Stjörnunni og yngri landsliðum. Hún hefur einnig setið í stjórn Barna-og unglingaráðs Stjörnunnar. Ágústa Edda býr þannig yfir víðtækri reynslu af íþróttastarfi og afreksþjálfun barna sem iðkandi, foreldri og þjálfari. Við bjóðum Ágústu Eddu hjartanlega velkomna til starfa heim á Seltjarnarnesið og erum sannfærð um að þarna fari mikill liðstyrkur fyrir Gróttu og Fimleikadeildina.
Málfríður Sigurhansdóttir nýráðin framkvæmdastjóri félagsins hóf störf síðastliðinn mánudag. Við bjóðum hana velkomna og þökkum jafnframt Jóni Sigurðssyni fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir samstarfið og vel unnin störf fyrir félagið.
Málfríður eða Fríða eins og hún er gjarnan kölluð hefur margra ára og víðtæka reynslu af störfum í íþróttageiranum og bindum við miklar vonir til hennar að leiða félagið í gegnum uppbyggingu, samþættingu og að öll Gróttu hjörtu slá í takt hvernig sem þau tengjast félaginu. Fríða starfaði meðal annars hjá Fjölni í tæp 18 ár og 10 ár þar á undan í stjórnum deilda, er í stjórn UMFÍ, var lengi í stjórn hjá sérsambandi og hefur setið í ótal nefndum og ráðum innan hreyfingarinnar. Fríða ólst upp á Seltjarnarnesi og byrjaði ung að árum að æfa íþróttir hjá Gróttu. Við bjóðum Fríðu hjartanlega velkomna heim í Gróttu!
Um helgina fór fram Bikarmót 2025 í áhalda- og hópfimleikum, þar sem fremsta fimleikafólk landsins keppti um titlana. Mótið var haldið af Fjölni í Egilshöll, og óhætt er að segja að sannkölluð fimleikaveisla átti sér stað. Grótta sendi sex lið til keppni ásamt tveimur gestum í frjálsu þrepi og 2. þrepi fimleikastigans. Liðin stóðu sig með prýði.
Í 3. þrepi A-deild tryggði lið Gróttu sér titil bikarmeistara með frábæra útkomu, 223.196 stig. Liðið skipuðu Mjöll Jónsdóttir, Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir, Þuríður Katrín Kistinsdóttir, Fanney Petrea L. Arnórsdóttir, Sigríður Lára Indriðadóttir og Sunna Mist Sheehen. Það er einnig vert að nefna að Grótta var með yngsta liðið í keppninni, og óskum við þeim innilega til hamingju með stórkostlegan árangur.
Í 3. þrepi B-deild hafnaði lið Gróttu í 2. sæti, og óskum við stelpunum innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Liðið skipuðu Guðrún Jakóbína Eiríksdóttir, Margrét Helga Geirsdóttir, Magnea Margrét Þorsteinsdóttir, Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar, Sigurlaug Margrét Pétursdóttir og Mirra Kjartansdóttir.
Hópfimleikadeild Gróttu sendi fjögur lið til keppni, og sýndu liðin miklar framfarir. Lið 3. flokks í A-deild hafnaði í 4. sæti, og verður gaman að fylgjast með þeim á Íslandsmeistaramótinu í hópfimleikum, sem fram fer á Akranesi 10.–13. apríl. Óhætt er að segja að framtíðin sé björt í fimleikadeild Gróttu.
Ofurhetjumót Fimleikadeildar Gróttu og Colgate 2025, fór fram síðustu helgi, þar sem alls 330 ofurhetjur frá fjórum félögum sýndu glæsilega takta í fimleikum, allt frá 6. þrepi upp í frjálst þrep, Íslenska fimleikastigans. Keppt var frá föstudegi til sunnudagskvöld og óhætt að segja að mikil gleði og líf ríkti í Hertzhöllinni.
Mótið tókst ótrúlega vel og það var frábært að sjá keppendur njóta sín í litríkri og ævintýralegri umgjörð mótsins. Fimleikadeild Gróttu vill þakka öllum keppendum og foreldrum kærlega fyrir komuna. Sérstakar þakkir fá einnig allir þjálfarar, dómarar og sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóg við uppsetningu og framkvæmd mótsins.
Að lokum viljum við þakka styrktaraðila Ofurhetjumótsins, Colgate innilega fyrir stuðninginn, en allir keppendur fóru heim með glæsilega þátttökugjöf frá þeim.
Ofurhetjumót Fimleikadeildar Gróttu og Colgate, fer fram um helgina, þar sem alls 300 ofurhetjur frá fjórum félögum sýna listir sínar í fimleikum. Keppt verður í 6. þrepi, bæði hjá stúlkum og drengjum, auk keppni í fimmta, fjórða og þriðja þrepi stúlkna. Undirbúningur fyrir mótið er á fullum og mikil tilhlökkun ríkir innan Gróttu. Fylgjast má með mótinu á Instagram-síðu fimleikadeildar Gróttu @grottafimleikar og á Facebook-síðu deildarinnar, Grótta Fimleikar.
Við óskar öllum keppendum góðs gengis á mótinu og hlökkum til að taka á móti gestum í Hertz- höllina um helgina.
Helgina 7-9 febrúar fór fram GK-mót yngri í Gerplu, þar sem Grótta tók þátt með fjögur lið: eitt lið í 4. flokki, tvö lið í stökkfimi 4. flokks og eitt lið í keppnisflokki KKY.
Grótta náði góðum árangri í stökkfimi þar sem annað liðið hafnaði í 1. sæti og hitt í 9. sæti. Liðið í 4. flokki endaði í 8. sæti, í A- deild og keppnisflokkur KKY hafnaði í 5. sæti.
Fimleikadeild Gróttu er stolt af árangri sinna keppenda og óskar þeim innilega til hamingju með frammistöðuna og hlakkar til að fylgjast með yngri flokkum deildarinnar í hópfimleikum.
Þrepamót í 1.-3. þrepi íslenska fimleikastigans fór fram helgina 15.-16. febrúar í Keflavík. Fimleikadeild Gróttu átti fjölmennan og glæsilegan hóp keppenda, sem sýndi frábæra frammistöðu á fyrsta móti vorannar. Keppendur stóðu sig með prýði og náðu miklum árangri.
Í 2. þrepi stúlkna, 13 ára og eldri, keppti Hildur Monika Baldvinsdóttir á sínu fyrsta móti í 2. þrepi. Hún sýndi nýjar æfingar á slá og gólfi með góðum árangri.
Í 3. þrepi stúlkna 11 ára og yngri náði Mjöll Jónsdóttir tilsettum stigafjölda í fjölþraut til að ná þrepinu. Mjöll sigraði einnig í tvíslá og hlaut gullverðlaun, og Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir náði bronsi í gólfæfingum í sama flokki.
Í 3. þrepi stúlkna 12 ára, fékk Hugrún Anna Guðnadóttir bronsverðlaun í stökki.
Í 3. þrepi stúlkna 13 ára og eldri, fékk Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar gull á stökki og Sunna Mist Sheehan hlaut gull á tvíslá.
Fimleikadeild Gróttu óskar keppendum sínum og þjálfurum innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með frekari frammistöðu á komandi mótum.
Fimleikadeild Gróttu hefur ráðið fimm erlenda þjálfara til starfa. Þjálfararnir eru frábær viðbót við öfluga liðsheild hjá félaginu og hafa náð að aðlagast hratt og vel að starfinu og iðkendum.
Elsa Garcia er 33 ára og kemur frá Mexíkó. Hún er fyrrum landsliðskona Mexíkó í áhaldafimleikum, var í landsliði Mexíkó frá 2000 til 2023 og á ferli sínum keppti hún bæði á Ólympíuleikum og á nokkrum heimsmeistaramótum. Elsa hefur unnið til 35 alþjóðlegra verðlauna og er ein af bestu áhaldafimleikakonum Mexíkó frá upphafi.
Josiel er 23 ára bandaríkjamaður. Hann er bæði metnaðarfullur og áhugasamur þjálfari með yfir 6 ára reynslu. Hann hefur þjálfað alla aldurshópa, frá leikskólaaldri til keppnishópa á efri stigum. Josiel lauk tölvunarfræðinámi í vor og hefur sótt mörg þjálfaranámskeið.
Csaba er frá Ungverjalandi og hefur þjálfað fimleika í Noregi frá árinu 2016. Hann hefur reynslu af þjálfun bæði stúlkna og drengja í áhaldafimleikum, en hefur að auki verið aðstoðarþjálfari í hópfimleikum.
Gemma Mc Cormick er 22 ára og kemur frá Írlandi og hefur góða reynslu í þjálfun bæði frá Írlandi og Banaríkjunum þar sem hún hefur starfað í International Gymnastics Camp. Gemma er ein af fremstu fimleikakonum í Írlandi og á langan og farsælan feril í fimleikum þar í landi. Gemma mun þjálfa keppnishópa í áhaldafimleikum og líka grunnhópa í fimleikum.
David Dexter kemur frá Bandaríkjunum og býr yfir 8 ára reynslu í fimleikum. Hann hefur þjálfað breiðan hóp iðkenda, eða allt frá byrjendum og upp í afreksþjálfun.
Við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin til starfa hjá Gróttu þar sem þekking þeirra, reynsla og metnaður hefur þegar haft jákvæð áhrif á bæði iðkendur og starfið í heild sinni.
Við hlökkum til að sjá árangurinn af starfi þeirra á komandi misserum.