Minning – Davíð B. Gíslason

Davíð B. Gíslason verður lagður til hinstu hvílu í dag. Hann lést á heimili sínu í lok janúar eftir erfið veikindi. Fjöldi ættingja, vina og samstarfsfélaga minnast Davíðs í minningargreinum Morgunblaðsins í dag og næstu daga. Davíð starfaði innan Gróttu frá 12 ára aldri. Fyrst sem iðkandi og síðar leikmaður meistaraflokks í handbolta um árabil. Hann kom einnig að starfinu sem þjálfari, dómari, stjórnarmaður, foreldri, fararstjóri og stuðningsmaður.Íþróttafélagið Grótta færir fjölskyldu Davíðs einlægar samúðarkveðjur með djúpri þökk fyrir ómetanlegt starf Davíðs á liðnum árum. Minningin um frábæran félaga mun lifa.

Andlát – Davíð B. Gíslason

Svo óvænt er komið að leiðarlokum fallinn er frá einstakur Gróttumaður Davíð B. Gíslason, eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm.
Þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, fyrirvaralaust, er okkur sem eftir lifum oft orða vant. Okkur verður oft starsýnna á það sem ekki varð fullgert, fremur en það góða og mikla dagsverk, sem unnið var. Davíð lifði góða ævi og lét margt gott af sér leiða, bæði með fjölskyldu sinni og í daglegum störfum sínum en ekki síður í margvíslegum félagsstörfum fyrir Gróttu. Davíð var um árabil óþreytandi í öllu starfi félagsins. Hann hóf handboltaiðkun tólf ára gamall og einungis fimmtán ára var hann farinn að æfa með meistaraflokki félagsins sem hann lék með lék alla tíð ef frá eru talin tvö keppnistímabil þegar hann lék með Fram. Lék hann með Gróttu allt þar til hann varð fertugur. Davíð spilaði jafnframt með öllum yngri landsliðum Íslands.

Auk þess að vera leikmaður Gróttu sinnti hann margvíslegum félagsstörfum fyrir félagið. Davíð sat m.a. í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu/KR árin 2003-2004 og aftur í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu 2012-2013. Hann var handknattleiksdómari á vegum HSÍ fyrir Gróttu á árunum 2010-2011. Jafnframt dæmdi Davíð fjölmarga leiki í yngri flokkum Gróttu, þann síðasta á vormánuðum árið 2021. Davíð sat í stjórn HSÍ sem varaformaður frá árinu 2013 og til dauðadags auk þess að sinna öðrum trúnaðarstörfum fyrir HSÍ frá árinu 2007.

Að auki sinnti Davíð margvíslegum störfum fyrir Íþróttafélagið sem foreldri. Þannig fylgdi Davíð börnum sínum þeim Evu Björk, Þorgeiri Bjarka, Önnu Láru og Benedikt Davíð á öll þau mót og alla þá leiki sem hann frekast gat komið við bæði í handbolta og fótbolta. Var hann oftar en ekki fararstjóri í þeim ferðum sem farið var út á land eða utan landsteina og í nokkrum ferðum var hann yfirfarastjóri enda átti hann auðvelt með að hrífa fólk með sér til starfa auk þess að vera einstaklega dugmikill og ósérhlífinn í félagsstörfum.

Davíð var árið 2010 sæmdur bronsmerki Gróttu fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins og árið 2014 fékk hann afhent silfurmerki Gróttu fyrir áralangt starf fyrir félagið sem leikmaður, þjálfari, dómari, stjórnarmaður, fararstjóri og stuðningsmaður.

Með Davíð er genginn drenglyndur og heilsteyptur maður langt um aldur fram. Grótta saknar vinar í stað og harmar einstakan liðsmann. Mestur er þó missir fjölskyldu Davíðs, móður, eiginkonu, barna og annarra aðstandenda. Stjórn og starfsmenn Gróttu færa þeim einlægar samúðarkveðjur með djúpri þökk fyrir ómetanlegt starf Davíðs á liðnum árum. Megi hið eilífa ljós lýsa Davíð á nýju og æðra sviði.

Lumar þú á ljósmyndum úr sögu Gróttu ?

Undanfarið ár höfum við verið í átaki að leita uppi myndir úr starfi Gróttu í gegnum tíðina. 
Hrafnhildur Thoroddsen sem kemur til okkar þrisvar í viku og hún hefur undanfarið ár skannað allar þær myndir sem hafa safnast saman hjá okkur á skrifstofu Gróttu. 
Við viljum líka taka við stafrænum myndum sem við getum geymt í skýinu okkar. 

Nánar upplýsingar gullijons@grotta.is

Við höfum reglulega sett  inn gamlar Gróttumyndirí albúm  á Facebook síðu okkar. 
Sjá hér: https://www.facebook.com/media/set?vanity=grottasport&set=a.1015947284420987

Hrafnhildur að skanna myndir úr sögu Gróttu.

Íþróttamaður Grótta myndbandið – bakvið tjöldin

Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn.

Við boðuðum tilnefnda og vinningshafa í myndatöku hjá Eyjólfi Garðarssyni fimmtudaginn 6 janúar og myndbands upptökur með siguvegurum fóru fram fyrstu helgina eftir undir styrkri stjórn Fjalars Sigurðarsonar.  

Eftirtaldir aðilar lögðu fram krafta sína í myndbands gerðina og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. 
Þulur: Lilja Nótt Þórarinsdóttir 
Hljóðsetning: Jói B/Audioland.is
Klipping: Ástrós Lind
Grafík: Elsa Nielsen
Ljósmyndir: Eyjólfur Garðarsson
Handknattleiksefni: Kári Garðarsson og Arnar Daði Arnarsson
Fimleikaefni: Fimleikasamband Íslands
Ýmsar reddingar: Lilja Nótt Þórarinsdóttir
Framleiðendur: Gunnlaugur Jónsson & Fjalar Sigurðarson

Eyjólfur ljósmyndari var mættur laugardaginn 8 janúar þegar upptökur fóru fram á myndbandinu og fangaði stemmninguna. 

Fjalar Sigurðarsson við upptökur
Nanna Guðmundsdóttir íþróttakona Gróttu 2021
Kjartan Kári íþróttamaður æskunnar
Verðlaunagripirnir

Arnar Daði þjálfari ársins
Pétur Theodór íþróttamaður Gróttu árið 2021
Hér er myndbandið í fullri lengd

Níu aðilar fengu heiðursmerki Gróttu

Íþróttafélagið Grótta veitti í byrjun ársins 9 aðilum heiðursmerki sem hafa unnið gott starf fyrir félagið. 
Þau eru: Eyjólfur Garðarsson knattspyrnu og handknattleiksdeild sem fékk gullmerki Gróttu.  Ásdís Björk Pétursdóttir fimleikdeild fékk silfurmerki Gróttu. 
Bronsmerki hlutu Guðjón Rúnarsson og Axel Bragason fimleikadeild. Ásmundur Einarsson handknattleiksdeild og frá knattspyrnudeild Sigurvin Reynisson, Halldór Kristján Baldursson, Eydís Lilja Eysteinsdóttir  og Alexander Jensen Hjálmarsson.
Til hamingju öll sömul og takk fyrir ómetanlegt starf fyrir Gróttu 🙏

Þorrablótinu frestað !

Þorrablót Gróttu sem árlega fer fram í janúar fellur því miður niður vegna áhrifa heimsfaraldurs. Þetta er annað árið í röð sem fella þarf niður þorrablót Gróttu sem hefur verið gríðarlega vinsæll viðburður. Tekjutapið fyrir deildir félagsins er umtalsvert en þessi viðburður hefur verið mikilvægur hlekkur í félagslífi Gróttufólks undanfarin ár og þykir okkur því afar leitt að þurfa að aflýsa þorrablótinu. Við munum blása til viðburðar á vegum félagsins um leið og tækifæri gefst.

Arnar Daði þjálfari ársins 2021

Arnar Daði Arnarsson er þjálfari ársins 2021 hjá Gróttu. 

Úr umsögn handknattleiksdeildar:
Arnar Daði er fæddur árið 1992 og var ráðinn til Gróttu haustið 2019 á erfiðum tíma hjá Handknattleiksdeild Gróttu. Þá hafði liðið fallið úr úrvalsdeildinni og ekki bjartir tímar framundan. Fáir leikmenn voru samningsbundnir félaginu og elstu yngri flokkar Gróttu voru fámennir. Ný stjórn við og réð Arnar Daða sem þjálfara meistaraflokks karla. Arnar Daði hafði aldrei áður stýrt meistaraflokk en hafði sýnt frábæran árangur sem þjálfari yngri flokka. Á sínu fyrsta ári kom Arnar Daði liðinu aftur á meðal bestu liða landsins, í úrvalsdeildina sem vakti mikla athygli í handboltaheiminum.

Í fyrra lék liðið í úrvalsdeildinni og með fyrstu verkum Arnars Daða var að fá Maksim Akbachev sem aðstoðarþjálfara. Arnar Daði fékk til sín unga og efnilega leikmenn sem langaði að sanna sig og í bland við unga og efnilega Seltirninga gerðist hið ótrúlega, liðið hélt sæti sínu í deildinni um vorið. Sá árangur vakti mikla athygli enda Gróttuliðið ungt, efnilegt og lítill leikmannakostnaður sem fylgdi því. 

Núna í vetur er sama uppi á teningnum. Gróttuliðið er ungt, efnilegt og kostnaðarlítið. Liðið situr sem stendur í 10.sæti Olísdeildarinnar og hefur náð frábærum árangri í leikjunum hingað til. Grótta hefur tapað naumlega gegn bestu liðum landsins, unnið verðskuldað leiki gegn virkilega sterkum liðum og spilað feikilega skemmtilegan handbolta. Auk þess að þjálfa meistaraflokk, þjálfar Arnar Daði 3.flokks félagsins sem eru ungir leikmenn sem vonandi með tíð og tíma munu spila með meistaraflokki félagsins. Arnar Daði er ennfremur í þjálfarateymi ungmennaliðs Gróttu sem Maksim Akbachev stjórnar. Liðið situr þar á toppi 2.deildar.

Arnar Daði er mikill félagsmaður. Ekkert verk er of lítið eða of stórt fyrir hann. Hann hefur áhuga á öllu starfi deildarinnar eða félagsins ef því er að skipta. Hann tekur mikinn þátt í sjálfboðaliðstarfi félagsins, hvort sem það er mönnum dómara, dómgæsla, umgjörð á leikjum meistaraflokka eða hvað það sem viðkemur deildinni.

Kjartan Kári er íþróttamaður æskunnar 2021

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er íþróttamaður æskunnar árið 2021.
Hinn 18 ára Kjartan Kári er Gróttumaður í húð og hár sem átti frábært tímabil með Gróttu síðastliðið sumar. Hinn ungi og efnilegi Kjartan á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan var valinn efnilegasti leikmaður Gróttu á lokahófi meistaraflokkanna í haust. 

Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Kjartan spilaði fyrir íslenska U-19 ára landsliðið þegar liðið keppti í undankeppni EM, þar kom hann við sögu í öllum þremur leikjum liðsins. Kjartan spilaði einnig í þremur vináttulandsleikjum fyrir U-19 ára landsliðið á árinu. 

Nú á dögunum framlengdi Kjartan samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.

—-
Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.

Katrín Anna er íþróttakona æskunnar 2021

Katrín Anna Ásmundsdóttir er íþróttakona æskunnar fyrir árið 2021 hjá Gróttu.
Úr umsögn handknattleiksdeildar um Katrínu Önnu:
Katrín Anna er leikmaður meistaraflokks kvenna og 3.flokks félagsins. Hún er fædd árið 2004 og er örvhentur hornamaður. Þrátt fyrir ungan aldur er þetta þriðja tímabil Katrínar Önnu með meistaraflokki Gróttu. Hún skoraði 51 mark í deildinni í fyrra þegar liðið komst alla leið í úrslit í umspili um sæti í Olísdeildinni en tapaði í úrslitaeinvígi við Olísdeildarlið HK. Katrín Anna hefur sýnt með sinni frammistöðu að hún er einn albesti örvhenti hornamaður deildarinnar. Á lokahófi meistaraflokks í vor var Katrín Anna valinn efnilegasti leikmaður liðsins.

Katrín Anna hefur verið fastamaður í unglingalandslið Íslands og var tvívegis valin í keppnisferðir með liðinu á árinu. Í sumar lék U17 ára landslið Íslands í Litháen á Evrópumóti B-landsliða. Þar komst liðið alla leið í úrslitaleik en tapaði honum naumlega. Katrín Anna lék stórt hlutverk með liðinu og stóð sig frábærlega. Núna í haust var hún aftur valin og nú til keppni í Serbíu þar sem liðið lék við Slóvena, Slóvaka og Serba um laust sæti á Evrópumót A-landsliða næstkomandi sumar. Því miður tapaði liðið aftur úrslitaleik og nú gegn Serbíu. Aftur lék Katrín Anna vel með liðinu.
Katrín Anna er félagsmaður mikill og tekur virkan þátt í starfi félagsins. Í sumar þjálfari Katrín Anna í Handboltaskóla Gróttu og stóð sig vel þar.

Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. 
Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.