Æfingar hjá 9.flokki hefjast aftur

Æfingarnar í 9.flokki sem slógu í gegn í fyrra hefjast aftur í byrjun september. Æfingarnar verða kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfar verða þær Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu.

Skráning fyrir haustönnina er hafin og fer fram í gegnum Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF

Handboltaskóli Gróttu í ágúst

Líkt og undanfarin ár verður handboltaskóli Gróttu á sínum stað. Skólinn er haldinn dagana 2. – 19.ágúst en hægt er að skrá sig á einstakar vikur. Skólinn er kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á ókeypis gæslu frá kl. 08:00 og til kl. 13:00.

Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2016 – 2011 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum. Þátttakendum verður skipt upp eftir aldri.

Undanfarin ár hefur Handboltaskólinn verið vel sóttir enda markar hann upphaf handboltatímabilsins. Skólastjóri skólans er Maksim Akbachev yfirþjálfari en auk hans mun Andri Sigfússon, Birgir Steinn Jónsson, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Edda Steingrímsdóttir, Patrekur Pétursson Sanko koma að þjálfuninni auk annarra góðra þjálfara hjá deildinni.

Verð:

Vika 1 (2. – 5.ágúst) – 5500 kr
Vika 2 (8. – 12.ágúst) – 7000 kr
Vika 3 (15 – 19.ágúst) – 7000 kr

Allar vikurnar (2. – 19.ágúst) – 18.000 kr

Skráning í Handboltaskóla Gróttu fer fram hérna:

www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Afreksskóli Gróttu 2. – 18.ágúst

Líkt og Handboltaskóli Gróttu hefst eftir verslunarmannahelgina, þá hefst Afreksskóli Gróttu á sama tíma. Afreksskólinn er fyrir krakka fædda 2007 – 2010 eða þá iðkendur sem munu verða í 5. og 4.flokki á næsta tímabili.

Afreksskólinn er kl. 12:30-14:00 á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og fer fram Íþróttahúsi Gróttu. Líkt og undanfarin ár starfa frábærir þjálfarar við skólann. Í Afreksskólanum er farið dýpra í handboltafræðin en í Handboltaskóla Gróttu.

Skráningin fer fram hérna: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Þóra María í Gróttu

Þóra María Sigurjónsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Þóra María er 21 ára gamall leikstjórnandi og er öflugur varnarmaður. Hún kemur frá HK þar sem hún hefur leikið seinustu tvö tímabilin. Á nýafstöðnu tímabili skoraði hún 27 mörk með liðinu í Olísdeildinni. Áður en hún kom til HK lék Þóra María með Aftureldingu þar sem hún er uppalin. Hún hefur leikið með öllum yngri landsliðum HSÍ.

Það eru mikill fengur að Þóra María sé komin til Gróttu enda frábær leikmaður sem styrkir liðið mikið.

Frekari fréttir af leikmannamálum má vænta næstu daga.

Ída Margrét í Gróttu

Ída Margrét Stefánsdóttir hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu. Ída Margrét er 20 ára gömul og leikur sem vinstri skytta. Hún hefur bæði leikið í Grill 66-deild kvenna með Val U og í Olísdeildinni með Val seinustu ár. Ída var á láni í Gróttu í fyrra en hún staldraði stutt við þar sem hún var kölluð til baka til Vals. Hún lék fimm leiki og skoraði í þeim 24 mörk.

Ída er öflugur sóknarleikmaður en er líka frábær varnarmaður. Hún var valin besti varnarmaður Grill 66-deildarinnar tímabilið 2020-2021.

Velkomin aftur í Gróttu, Ída !

Þrjú á æfingum Hæfileikamótunar HSÍ

Í lok maí fór fram lokahluti Hæfileikamótunar HSÍ á þessu tímabili og fóru æfingar fram á Laugarvatni. Þrír fulltrúar frá okkur voru valdir á æfingarnar og voru þeir þessir:

Arnar Magnús Andrason
Arna Katrín Viggósdóttir
Sara Kristjánsdóttir

Við óskum þessum fulltrúm okkar hjartanlega til hamingju með valið !

Sex frá Gróttu í Handboltaskóla HSÍ

Helgina 20. – 22.maí síðastliðinn fór fram Handboltaskóli HSÍ var það í 27. sinn sem skólinn var haldinn. Um er að ræða fyrsta stig landsliða HSÍ og voru sex fulltrúa valdir frá Gróttu. Æfingarnar fóru fram í Kaplakrika í Hafnarfirði.

Frá Gróttu voru valin:
Aþena Mist Guðmundsdóttir
Edda Sigurðardóttir
Katrín Arna Andradóttir
Svandís Birgisdóttir
Birgir Davíðsson Scheving
Kristjón Þórðarson

Grótta óskar þessum sex leikmönnum til hamingju með valið og vonar að þetta sé upphafið að einhverju stærra hjá þeim.

Skólastjóri Handboltaskóla HSÍ er Jón Gunnlaugur Viggósson.

Robbi Gunn þjálfar Gróttu

Þjálfarateymi meistaraflokks karla Arnar Daði Arnarsson og Maksim Akbackev hafa óskað eftir að láta af störfum sem þjálfarar karlaliðsins og hefur stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu samþykkt uppsögnina.

Á sama tíma hefur Róbert Gunnarsson verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í Gróttu. Róbert þekkja allir sem hafa fylgst með handbolta undanfarin ár en hann lék með íslenska landsliðinu til margra ára, frá 2001 til 2016. Róbert vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki 2010 með landsliðinu. Hann lék meðal annars með Gummersbach, Rhein Neckar Löwen og PSG á farsælum atvinnumannaferli.

Róbert er fæddur árið 1980 og flutti á Seltjarnarnes síðastliðið sumar eftir að hafa þjálfað 19 ára lið Århus, þjálfað í ungliðaakademíu liðsins og verið í þjálfarateymi aðalliðs Århus. Hann er núverandi landsliðsþjálfari U21 árs landsliðsins.Davíð Örn Hlöðversson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins.

Davíð Hlöðvers þekkja allir sem hafa komið nálægt handbolta á Nesinu undanfarin ár. Núna í vetur þjálfari Davíð 5. og 3.flokks kvenna ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna.

Arnari Daða og Maksim er þakkað mikið og óeigingjarnt starf í þágu Gróttu undanfarin ár en Arnar Daði kom til félagsins sumarið 2019 og stýrði meistaraflokki í þrjú ár. Maksim kom til Gróttu vorið 2020 og hefur verið aðstoðarþjálfari karlaliðsins síðan þá. Saman hafa þeir náð eftirtektarverðum árangri með Gróttuliðið síðustu tímabil en hársbreidd vantaði að liðið kæmist í úrslitakeppnina í vor.

Einar Baldvin framlengir við Gróttu

Markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hefur framlengt samning sinn við Gróttu til tveggja ára. Einar Baldvin er uppalinn í Fossvoginum hjá Víkingi en hann lék með Val og Selfoss áður en hann kom til Gróttu síðastliðið sumar. Einar Baldvin átti frábært tímabil með Gróttu í vetur og var með þriðju bestu hlutfallsmarkvörsluna í Olísdeldinni eða 30,9%. Einar Baldvin var ennfremur markahæsti markmaður deildarinnar með 8 mörk.

Það eu mikil gleðitíðindi að Einar Baldvin verði áfram í herbúðum Gróttu enda frábær markmaður með mikinn metnað.