Antoine Óskar valinn í U18 ára landsliðið

Á dögunum var valið í U18 ára landslið karla fyrir næsta verkefni sem verður í lok desember. Í hópnum var Antoine Óskar Pantano líkt og undanfarin skipti. Liðið mun koma saman 18.desember og æfa fram að jólum. Milli jóla og nýárs mun liðið síðan fara á geysisterkt æfingamót í Þýskalandi, Sparkassen Cup.

Antoine Óskar hélt upp á þetta val með virkilega flottum leik með meistaraflokki gegn Selfyssingum þar sem hann skoraði 5 mörk, var með 6 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína og eitt fiskað víti.

Til hamingju Antoine og gangi þér vel !

Skattaafsláttur þegar þú styrkir Gróttu

Með því að styrkja starf Gróttu með fjárframlögum þá getur þú fengið skattaafslátt. Lágmarksupphæð styrks til að fá lækkun á tekjuskattsstofni er 10.000 krónur, en hámark 350.000 krónur – eða samtals 700.000 krónur hjá hjónum.

Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, og þar á meðal er Íþróttafélagið Grótta.

Fólk sem ákveður að styrkja félagið getur komið þeim skilaboðum áleiðis á skrifstofu Gróttu á netfangið kristin@grotta.is. Síðan er hægt að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabankann. Fjármálastjóri Gróttu sér síðan um að upplýsa Skattinn um styrkina og síðan er það fært inn í skattframtal viðkomandi í framhaldi. Frádráttur frá tekjuskattsstofni er áritaður fyrirfram inn á framtalið, í reit 155 í klafla 2.6. á tekjusíðu framtals. Því er það mjög mikilvægt að láta skrifstofu félagsins vita til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í ferlinu.

Lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.

Þegar fólk ákveður að styrkja Gróttu er hægt að velja um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0537-26-201234, kt. 700371-0779 – eða fá reikning í heimabanka.

Grótta þakkar öllum styrktaraðilinum innilega veittan stuðning

Áfram Grótta

Aufí skoraði í sigri U18 gegn Svíþjóð 

Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, lék með U18 ára landsliði Íslands gegn Svíþjóð í byrjun desember. Liðin mættust í vináttuleik í Miðgarði þann 1. desember sl. og fór Ísland með 4-1 sigur. Aufí kom inn á á 64’ mínútu og var ekki lengi að setja sitt mark á leikinn en hún skoraði glæsilegt mark örfáum mínútum síðar. Frábær frammistaða hjá þessum unga og efnilega leikmanni. Gaman er að segja frá því að Aufí hefur spilað með þremur yngri landsliðum á árinu. Hún lék með U16 á UEFA mótinu í Englandi í apríl og á Norðurlandamótinu í júlí, með U17 í undankeppni EM í október og nú með U18 ára landsliðinu!

Komdu og prófaðu handbolta

Í tilefni af því að íslenska kvennalandsliðið hefur leik á HM í handbolta á morgun, þá býður Grótta öllum stelpum sem vilja koma og prófa handbolta frítt á æfingar á meðan mótið stendur yfir. Fyrsti leikur Íslands er á morgun, 30.nóvember og lýkur mótinu með úrslitaleik 17.desember.

Tveir leikmenn Íslands léku með Gróttu. Elín Jóna Þorsteinsdóttir er uppalin á Nesinu og lék með öllum yngri flokkum félagsins. Hún varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með meistaraflokki áður en skipti yfir í Hauka og loks út í atvinnumennskuna. Þórey Anna Ásgeirsdóttir lék með Gróttu í þrjú keppnistímabil og varð Íslandsmeistari árið 2016 áður en hún skipti yfir í Stjörnuna og síðan í atvinnumennskuna.

Æfingatöflu Gróttu má finna hér: https://grotta.is/aefingatoflur/

Frábæru þjálfararnir okkar taka vel á móti krökkunum.

Allar upplýsingar gefur skrifstofa Gróttu eða yfirþjálfari handknattleiksdeildar, Magnús Karl Magnússon á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Rebekka með U15 í Portúgal

Rebekka Sif Brynjarsdóttir er nýkomin heim frá Portúgal þar sem hún var við keppni með U15 ára landsliðinu. Ísland var þar ein fjögurra þáttökuþjóða á UEFA Development Tournament, ásamt Þýskalandi, Spáni og Portúgal. Í fyrsta leik mætti Ísland Spáni og gerði 3-3 jafntefli. Ísland tapaði seinni tveimur leikjunum, 2-0 gegn Portúgal og 4-1 gegn Þýskalandi. Ljóst er að Ísland er að spila gegn sterkum þjóðum og hefur þetta verið mikil áskorun fyrir þennan efnilega hóp. Þjálfari U15 ára landsliðsins er Magnús Örn Helgason sem er Gróttufólki vel kunnugur. Þá var Harpa Frímannsdóttir, sem situr í stjórn knattspyrnudeildarinnar, einnig hluti af starfsliði hópsins. Þrír liðsfélagar Rebekku úr Gróttu/KR voru einnig í hópnum, þær Matthildur, Rakel og Kamilla.
Rebekka Sif stóð sig gríðarlega vel með landsliðinu úti og tekur helling með sér í reynslubankann! Knattspyrnudeild Gróttu er stolt af því að eiga svona glæsilegan fulltrúa í þessum hóp.

Aufí valin í U18 ára landsliðið

Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U18 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum og leikjum við Svíþjóð. Hópurinn mun hittast til æfinga helgina 25-26.nóvember og þriðjudaginn 28.nóvember 2023. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í hópnum. Þrátt fyrir ungan aldur lék Aufí lykilhlutverk í liði Gróttu í Lengjudeildinni í sumar en hún er einungis 15 ára gömul. Aufí lék 16 leiki í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim sjö mörk.
Gaman er að segja frá því að Aufí er eini leikmaður hópsins sem fædd er 2008, en aðrir leikmenn eru fæddir árið 2007. Knattspyrnudeild Gróttu er hreykin af því að eiga svona flottan fulltrúa í hópnum.
Leikirnir við Svíþjóð munu fara fram á Íslandi 29.nóvember og 1.desember 2023 í Miðgarði Garðabæ. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í verkefninu framundan!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Rebekka á leiðinni til Portúgal með U15 ára landsliðinu 

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í UEFA Development Tournament. Gróttukonan Rebekka Sif Brynjarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Rebekka er 14 ára gömul og gríðarlega efnileg knattspyrnukona. Hún lék tvo leiki með meistaraflokki Gróttu í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Þá lék hún einnig með 3. flokki kvenna og 4. flokki karla og kvenna í sumar þar sem hún skoraði samtals 30 mörk. Mótið verður haldið í Lissabon í Portúgal dagana 17.-23. nóvember, en liðið æfir í tvígang á Íslandi fyrir brottför. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Rebekku innilega til hamingju með valið og góðs gengis á mótinu! 

Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra

Á dögunum hélt Anna Steinsen frá KVAN fyrirlestur fyrir handboltaforeldra sem bar yfirskriftina „Hvernig get ég stutt barnið mitt í handbolta?“

Hún fjallaði um menningu í hópum og hvernig við getum orðið jákvæðir leiðtogar. Mikilvægi liðsheildar og að við látum okkur aðra varða, hugsum um heildina. Hún talaði einnig um samskipti og með áherslu á samskipti milli kynslóða og hvernig við getum stutt við okkar barn á uppbyggilegan hátt.

Virkilega áhugavert fræðsluerindi fyrir foreldra sem höfðu einmitt á orði hversu gagnlegt þetta hefði verið.

Anna Karólína og Katrín Anna í U20 ára landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U20 ára landsliðs kvenna, þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson völdu í gær landsliðshóp U20 ára landsliðsins til æfingar dagana 23. – 26.nóvember. Við í Gróttu eigum tvo fulltrúa í liðinu en það eru þær Anna Karólína Ingadóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir.

Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum.

Edda valin í U15 ára landslið kvenna

Landsliðsþjálfarar U15 ára landsliðs kvenna, Sigríður Unnur Jónsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir völdu í dag U15 ára landsliðshóp sem mun æfa dagana 23. – 26.nóvember næstkomandi. Einn fulltrúi frá Gróttu er í landsliðshópnum en það er hún Edda Sigurðardóttir. Edda er leikmaður í 4.flokki kvenna hjá félaginu.

Til hamingju Edda og gangi þér vel á æfingunum !