Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Gústi lætur af störfum

Knattspyrnudeild Gróttu og Ágúst Gylfason, þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu, hafa ákveðið í sameiningu að Ágúst láti af störfum fyrir félagið eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur.

Ágúst tók við liðinu haustið 2019 og stýrði því í Pepsi Max deildinni tímabilið 2020, en félagið var þá í fyrsta skipti í sögunni í deild þeirra bestu. Þótt Grótta hafi fallið úr deildinni, stóð liðið sig vel við erfiðar aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Á yfirstandandi keppnistímabili í Lengjudeild karla hefur Gróttuliðið leikið vel og árangurinn ágætur, þótt herslumun hafi vantað svo liðið blandaði sér af fullum þunga toppbaráttu deildarinnar.

Ágúst Gylfason hefur reynst Gróttu vel frá því hann tók við haustið 2019 og skilur við liðið á góðum stað. Félagið mun að tímabilinu loknu kveðja Ágúst með virktum og söknuði og óskar honum velfarnaðar í öllum hans störfum í framtíðinni.

Pétur Theódór til Breiðabliks

Knattspyrnudeild Gróttu hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Breiðabliks um félagaskipti Péturs Theódórs Árnasonar að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Pétur Theódór, sem er 26 ára gamall,er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og lék hann upp alla yngri flokka Gróttu. Pétur lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki Gróttu árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall en sama ár spilaði hann með U16 ára landsliði Íslands. Pétur fór í framhaldi á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa Íslands næstu misseri á eftir. Pétur Theódór þurfti að taka sér hlé frá fótboltanum vegna meiðsla, en endurkoma hans frá árinu 2018 hefur verið ævintýri líkust. Árið 2019 var Pétur Theódór lykilmaður í meistaraliði Gróttu í Inkasso-deildinni, var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum ásamt því að vera markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins. Pétur Theódór var valinn besti leikmaður fyrri hluta deildarinnar, var í liði ársins auk þess að vera íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness sama ár. Pétur var lykilmaður í Gróttuliðinu á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild sumarið 2020. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Pétur Theódór verið sjóðheitur fyrir framan markið, er markahæstur í Lengjudeildinni með 18 mörk í 18 leikjum. Alls hefur hann leikið 139 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 62 mörk.

Pétur hefur öll sín ár hjá Gróttu verið sannur liðsmaður, góður samherji og fyrirmynd ungra iðkenda, ekki síst vegna eljusemi, þrautseigju og metnaðar. Þótt allt Gróttufólk muni kveðja Pétur Theódór að loknu tímabili með trega, samgleðjumst við honum og óskum velgengni í nýjum verkefnum 👊🏼💙

Hákon valinn í U21 fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson var á dögunum valinn í hóp U21 karla landsliðsins sem mætir Svíþjóð í undankeppni EM þann 4. september á Víkingsvelli. Hákon er fæddur árið 2001 en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í meistaraflokki síðustu tvö ár. Gríðarlega efnilegur leikmaður sem er vert að fylgjast með.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸

Bjarki og Ari framlengja

Uppöldu Gróttu-strákarnir Bjarki Daníel Þórarinsson og Ari Pétur Eiríksson hafa framlengt samninga sína við handknattleiksdeildina um 1 ár. Strákarnir sem urðu 18 ára á árinu eru báðir uppaldir hjá félaginu og því mikil ánægja með að náðst hafi að framlengja við þá.

Halda áfram að lesa