Axel Sigurðarson í Gróttu

Sóknarmaðurinn Axel Sigurðarson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu. Axel spilaði mikilvægt hlutverk í Gróttuliðinu síðasta sumar en þá spilaði hann 13 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim þrjú mörk. Axel á að baki sér 47 meistaraflokks leiki en hann hefur einnig spilað með KR, HK og ÍR.

Það er mikið gleðiefni að Axel muni spila með Gróttu á komandi tímabili, enda öflugur sóknarmaður sem mikils er vænst af. Við bjóðum Axel hjartanlega velkominn aftur á Nesið!

Signý Ylfa gengin til liðs við Gróttu

Hin 18 ára gamla Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val á láni út tímabilið. Signý spilar sem framherji en hún á að baki þrjá landsleiki fyrir U16 ára landslið Íslands og nokkra Lengjubikar- og Reykjavíkurmótsleiki fyrir Val.

Við bjóðum Signýju velkoma á Nesið og hlökkum til að fylgjast með henni í bláu treyjunni í sumar.

Tinna Brá til Írlands með U17 ára landsliðinu

Efnilegi markmaðurinn Tinna Brá leggur land undir fót með U17 ára landsliðinu á morgun en ferðinni er heitið til Írlands 🇮🇪 U17 ára landslið kvenna spilar tvo vináttuleiki við Írland, á föstudag og sunnudag.

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tinnu Brá til hamingju með landsliðsvalið og góðs gengis í leikjunum! 👏🏼

Emma Steinsen í Gróttu

Hin 16 ára gamla Emma Steinsen Jónsdóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val á láni út tímabilið. Emma er efnilegur varnarmaður sem á 6 leiki með U16 ára landsliðinu og einn leik með U17. Gróttasport ræddi við Emmu og Magnús Örn þjálfara eftir æfingu í gærkvöldi:

Maggi:
„Það er frábært að fá Emmu í okkar raðir. Hún er öflugur varnarmaður og auk þess flottur karakter og mikil keppnismanneskja. Hún hefur staðið sig vel á æfingum og smellpassar inn í hópinn“.

Emma:
„Ég er mjög ánægð með að vera komin og hlakka til að spila með Gróttu á tímabilinu. Mér leist strax vel á aðstæður og stelpurnar hafa tekið mér mjög vel. Þjálfunin hjá Gróttu er góð og ég er viss um að ég geti bætt mig hérna.“

Emma (#18) með U16 á Norðurlandamótinu sumarið 2019