Landsliðsmenn Gróttu á ferðinni um helgina

Um helgina voru yngri landslið Íslands í handbolta á ferðinni og átti Grótta sína fulltrúa í U-17, U-19 og U-21 árs landsliðinu.

U-17 ára landslið karla hélt til Frakklands og lék þar á sterku 4 landa æfingarmóti en fulltrúar Gróttu í ferðinni voru þeir Ari Pétur Eiríksson og Gunnar Hrafn Pálsson.

Strákarnir léku gegn heimamönnum í Frakklandi, Sviss og Króatíu og upplifðu þar jafntefli, sigur og tap gegn þessum sterku þjóðum. Okkar strákar stóðu sig með mikilli prýði en Gunnar Hrafn skoraði 5 mörk í leikjunum þremur og Ari Pétur 2 mörk.

U-19 ára landslið karla æfði hér heima á Íslandi yfir helgina og áttum við einn fulltrúa þar í Kára Rögnvaldssyni.

U-21 árs landsliðið spilaði svo hér heima tvo æfingarleiki við sterkt lið Frakka og átti Grótta 3 fulltrúa í hópnum, þá Hannes Grimm, Alexander Jón og Svein Jose Riviera. Fyrri leikurinn fór fram á föstudaginn og vannst þar frábær sigur 28-24 og skoruðu þeir Sveinn og Alexander sitthvort markið í þeim leik. Síðari leikurinn fór fram daginn eftir og tapaðist hann 21-26 og skoraði Hannes Grimm 1 mark í þeim leik.

Drengirnir voru flottir fulltrúar félagsins um helgina og vonumst við til að sjá þá leika enn fleiri landsleiki í framtíðinni.

Fimm drengir úr 3. flokki á U16 úrtaksæfingum

Þeir Hannes Ísberg, Orri Steinn, Kjartan Kári, Krummi Kaldal og Grímur Ingi úr 3. flokki karla tóku þátt í U16 úrtaksæfingum KSÍ um helgina.

Þetta er glæsilegur árangur, en gaman er að segja frá því að Grótta er með þriðju flestu leikmennina í úrtakinu.

Aðeins Breiðablik og Stjarnan eru með fleiri leikmenn en Grótta í þessu úrtaki.

Á myndinni að ofan vantar Hannes, en hann meiddist í gær.

Þrír Gróttu-menn í U21 árs landsliðinu

Á dögunum valdi Einar Andri Einarsson nýráðinn þjálfari U21 árs landsliðs karla í handbolta 20 manna hóp fyrir 2 æfingarleiki við Frakkland í lok október. Leikirnir fara fram föstudaginn 26.október kl 20:00 og laugardaginn 27.október kl 16:00. Báðir leikirnir fara fram í Schenker-höllinni í Hafnarfirði.

Þrír leikmenn Gróttu voru valdir í hópinn en það eru vinstri hornamaðurinn Alexander Jón Másson og línutröllin Hannes Grimm og Sveinn José Riviera.

Við óskum þeim til hamingju með valið og góðs gengis í leikjunum tveimur.