Antoine Óskar valinn í U18 ára landsliðið

Á dögunum var valið í U18 ára landslið karla fyrir næsta verkefni sem verður í lok desember. Í hópnum var Antoine Óskar Pantano líkt og undanfarin skipti. Liðið mun koma saman 18.desember og æfa fram að jólum. Milli jóla og nýárs mun liðið síðan fara á geysisterkt æfingamót í Þýskalandi, Sparkassen Cup.

Antoine Óskar hélt upp á þetta val með virkilega flottum leik með meistaraflokki gegn Selfyssingum þar sem hann skoraði 5 mörk, var með 6 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína og eitt fiskað víti.

Til hamingju Antoine og gangi þér vel !

Skattaafsláttur þegar þú styrkir Gróttu

Með því að styrkja starf Gróttu með fjárframlögum þá getur þú fengið skattaafslátt. Lágmarksupphæð styrks til að fá lækkun á tekjuskattsstofni er 10.000 krónur, en hámark 350.000 krónur – eða samtals 700.000 krónur hjá hjónum.

Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, og þar á meðal er Íþróttafélagið Grótta.

Fólk sem ákveður að styrkja félagið getur komið þeim skilaboðum áleiðis á skrifstofu Gróttu á netfangið kristin@grotta.is. Síðan er hægt að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabankann. Fjármálastjóri Gróttu sér síðan um að upplýsa Skattinn um styrkina og síðan er það fært inn í skattframtal viðkomandi í framhaldi. Frádráttur frá tekjuskattsstofni er áritaður fyrirfram inn á framtalið, í reit 155 í klafla 2.6. á tekjusíðu framtals. Því er það mjög mikilvægt að láta skrifstofu félagsins vita til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í ferlinu.

Lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.

Þegar fólk ákveður að styrkja Gróttu er hægt að velja um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0537-26-201234, kt. 700371-0779 – eða fá reikning í heimabanka.

Grótta þakkar öllum styrktaraðilinum innilega veittan stuðning

Áfram Grótta

Komdu og prófaðu handbolta

Í tilefni af því að íslenska kvennalandsliðið hefur leik á HM í handbolta á morgun, þá býður Grótta öllum stelpum sem vilja koma og prófa handbolta frítt á æfingar á meðan mótið stendur yfir. Fyrsti leikur Íslands er á morgun, 30.nóvember og lýkur mótinu með úrslitaleik 17.desember.

Tveir leikmenn Íslands léku með Gróttu. Elín Jóna Þorsteinsdóttir er uppalin á Nesinu og lék með öllum yngri flokkum félagsins. Hún varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með meistaraflokki áður en skipti yfir í Hauka og loks út í atvinnumennskuna. Þórey Anna Ásgeirsdóttir lék með Gróttu í þrjú keppnistímabil og varð Íslandsmeistari árið 2016 áður en hún skipti yfir í Stjörnuna og síðan í atvinnumennskuna.

Æfingatöflu Gróttu má finna hér: https://grotta.is/aefingatoflur/

Frábæru þjálfararnir okkar taka vel á móti krökkunum.

Allar upplýsingar gefur skrifstofa Gróttu eða yfirþjálfari handknattleiksdeildar, Magnús Karl Magnússon á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Antoine framlengir til 2026

Antoine Óskar Pantano hefur skrifað undir nýjan samning við Handknattleiksdeild Gróttu sem gildir út tímabilið 2026. Antoine er 17 ára gamall leikstjórnandi og hefur heldur betur stimplað sig inn í Olísdeildina í vetur með góðri frammistöðu. Hann hefur skorað 11 mörk og skapað 22 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína í þeim 9 leikjum sem búnir eru.

Antoine Óskar er lykilleikmaður í U18 ára landsliði karla en liðið endaði endaði í 5.sæti á Opna Evrópumótinu í Svíþjóð og 5.sæti á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóveníu síðastliðið sumar.

Það eru miklar gleðifréttir að Antoine leiki í Gróttutreyjunni næstu árin enda framtíðarleikmaður meistaraflokks.

Ari Pétur framlengir til 2026

Ari Pétur Eiríksson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til ársins 2026. Ara Pétur þarf vart að kynna fyrir Gróttufólk enda hefur hann leikið 90 leiki fyrir félagið. Hann er 21 árs gamall og leikur sem hægri skytta. Ari Pétur hefur skorað 17 mörk sem af er Olísdeildarinnar. Þess fyrir utan er hann með 28 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína.

Ari Pétur hefur leikið með flestum yngri landsliðum Íslands. Það eru gleðifréttir að Ari Pétur verði áfram í herbúðum Gróttu. Miklar vonir eru bundnar við þennan uppalda Gróttumann og verður spennandi sjá hann næstu misserin.

Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra

Á dögunum hélt Anna Steinsen frá KVAN fyrirlestur fyrir handboltaforeldra sem bar yfirskriftina „Hvernig get ég stutt barnið mitt í handbolta?“

Hún fjallaði um menningu í hópum og hvernig við getum orðið jákvæðir leiðtogar. Mikilvægi liðsheildar og að við látum okkur aðra varða, hugsum um heildina. Hún talaði einnig um samskipti og með áherslu á samskipti milli kynslóða og hvernig við getum stutt við okkar barn á uppbyggilegan hátt.

Virkilega áhugavert fræðsluerindi fyrir foreldra sem höfðu einmitt á orði hversu gagnlegt þetta hefði verið.

Anna Karólína og Katrín Anna í U20 ára landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U20 ára landsliðs kvenna, þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson völdu í gær landsliðshóp U20 ára landsliðsins til æfingar dagana 23. – 26.nóvember. Við í Gróttu eigum tvo fulltrúa í liðinu en það eru þær Anna Karólína Ingadóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir.

Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum.

Edda valin í U15 ára landslið kvenna

Landsliðsþjálfarar U15 ára landsliðs kvenna, Sigríður Unnur Jónsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir völdu í dag U15 ára landsliðshóp sem mun æfa dagana 23. – 26.nóvember næstkomandi. Einn fulltrúi frá Gróttu er í landsliðshópnum en það er hún Edda Sigurðardóttir. Edda er leikmaður í 4.flokki kvenna hjá félaginu.

Til hamingju Edda og gangi þér vel á æfingunum !

Grótta leitar að framkvæmdastjóra

Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

·        Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum

·        Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna

·        Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins

·        Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir

·        Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins

·        Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið

·        Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins

·        Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra

·        Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur

·        Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins

·        Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins

·        Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila

·        Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda

·        Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfniskröfur

·        Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni

·        Háskólamenntun sem nýtist í starfi

·        Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum

·        Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf

·        Sjálfstæð og öguð vinnubrögð

·        Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is