Tengslin efld milli meistaraflokks og yngri flokka

Þjálfarar meistaraflokks kvenna, þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson, hrintu af stað nýju verkefni fyrr í vikunni sem stuðlar að því að efla tengsl milli meistaraflokks og yngri flokka. Nokkrum sinnum í mánuði verða tveimur duglegum stelpum úr 4. eða 5. flokki boðið að mæta á meistaraflokksæfingu.

Stelpurnar kíkja inn í klefa fyrir æfingu og sitja stuttan fund með liðinu, taka svo þátt í upphitun og léttum boltaæfingum. Verkefnið fór af stað á þriðjudaginn þegar þær Nína og Aufí úr 5. flokki voru með á meistaraflokksæfingu og stóðu sig með eindæmum vel!

Vivaldi framlengir styrktarsamning sinn

Vivaldi á Íslandi hefur gert tveggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu vegna barna- og unglingastarf deildarinnar. Samkvæmt samningnum munu vörumerkin Vivaldi og Arna prýða keppnisbúninga yngri flokka Gróttu næstu tvö árin.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Við tilefnið afhenti Bragi Björnsson, formaður Gróttu, Jóni bronsmerki félagsins sem honum var veitt í byrjun árs, fyrir stuðning sinn við knattspyrnudeildina í gegnum árin.

6. flokkur karla á Njarðvíkurmótinu og með bikar heim

6. flokkur karla skellti sér á Njarðvíkurmótið síðustu helgi. Grótta tefldi fram 5 liðum á mótinu en spilað var í Reykjaneshöllinni. Fallegur fótbolti og leikgleði var fremst í flokki og allir leikmenn stóðu sig með prýði. Lið Gróttu í Ensku-deildinni gerði sér svo lítið fyrir og vann sína deild á mótinu 👏🏼🏆

7. flokkur karla og kvenna á Krónumóti HK

7. flokkar Gróttu skemmtu sér vel á Krónumóti HK helgina 16.-17. nóvember. 7. flokkur karla spilaði í Kórnum á laugardeginum og tefldu drengirnir fram sjö liðum en stelpurnar spiluðu í fimm liðum á sunnudeginum.

Þetta var fyrsta vetrarmótið hjá flokkunum og því mikil tilhlökkun sem stóðst allar væntingar. Sigrar, töp en umfram allt mikil stemning.