Pétur Theódór til Breiðabliks

Knattspyrnudeild Gróttu hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Breiðabliks um félagaskipti Péturs Theódórs Árnasonar að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Pétur Theódór, sem er 26 ára gamall,er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og lék hann upp alla yngri flokka Gróttu. Pétur lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki Gróttu árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall en sama ár spilaði hann með U16 ára landsliði Íslands. Pétur fór í framhaldi á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa Íslands næstu misseri á eftir. Pétur Theódór þurfti að taka sér hlé frá fótboltanum vegna meiðsla, en endurkoma hans frá árinu 2018 hefur verið ævintýri líkust. Árið 2019 var Pétur Theódór lykilmaður í meistaraliði Gróttu í Inkasso-deildinni, var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum ásamt því að vera markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins. Pétur Theódór var valinn besti leikmaður fyrri hluta deildarinnar, var í liði ársins auk þess að vera íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness sama ár. Pétur var lykilmaður í Gróttuliðinu á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild sumarið 2020. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Pétur Theódór verið sjóðheitur fyrir framan markið, er markahæstur í Lengjudeildinni með 18 mörk í 18 leikjum. Alls hefur hann leikið 139 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 62 mörk.

Pétur hefur öll sín ár hjá Gróttu verið sannur liðsmaður, góður samherji og fyrirmynd ungra iðkenda, ekki síst vegna eljusemi, þrautseigju og metnaðar. Þótt allt Gróttufólk muni kveðja Pétur Theódór að loknu tímabili með trega, samgleðjumst við honum og óskum velgengni í nýjum verkefnum 👊🏼💙

Æfingatafla knattspyrnudeildar 2021-2022

Hér má sjá æfingatöflu knattspyrnudeildarinnar fyrir veturinn 2021-2022. Æfingar samkvæmt töflunni hefjast mánudaginn 30. ágúst. Taflan var gerð í samvinnu við yfirþjálfara handknattleiksdeildarinnar sem og fimleikadeildarinnar. Smávægilegir árekstrar verða leystir milli þjálfara deildanna og ætti það að ganga smurt. Styrktaræfingar hjá 2.-4. flokki eiga eftir að bætast við í æfingatöfluna.

7. flokkur karla og kvenna á Hamingjumóti Víkings


7. flokkur karla og kvenna léku á Hamingjumóti Víkings í Fossvogi helgina 14. og 15. ágúst. Drengirnir léku á laugardeginum í sól og blíðu en stúlkurnar á sunnudeginum í rigningu og skýjum – en létu veðrið ekki á sig fá. 7. flokkur karla fór með 6 lið á mótið og 7. flokkur kvenna með 5 lið, en liðin hétu eftir leikmönnum meistaraflokks karla og kvenna. Krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel á mótinu, en blanda af þrautseigju og leikgleði var ríkjandi hjá Gróttuliðunum.

Magnús Örn ráðinn U17 landsliðsþjálfari kvenna

Magnús Örn Helgason hefur verið ráðinn sem nýr U17 landsliðsþjálfari kvenna. Það þarf ekki að kynna Magnús Örn fyrir Gróttufólki en hann hefur starfað hjá knattspyrnudeild Gróttu frá árinu 2007 og er Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Árið 2018 tók Maggi við meistaraflokki kvenna og hann hefur stýrt liðinu síðan ásamt Pétri Rögnvaldssyni, en undir þeirra stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019. 

Magga verður sárt saknað innan knattspyrnudeildarinnar, enda hefur hann gegnt stóru hlutverki þar lengi og sinnt starfi sínu af mikilli kostgæfni og ástríðu. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Magga innilega til hamingju með nýja starfið og er hreykið af því að þjálfari félagsins sé orðinn landsliðsþjálfari. Maggi tekur við U17 ára landsliðinu að loknu keppnistímabili hjá meistaraflokki kvenna í september mánuði. Við hlökkum til að fylgjast með honum í nýju starfi. 

75 Gróttustelpur á Símamótinu

Stærsta helgi ársins hjá ungum og efnilegum knattspyrnukonum rann upp síðustu helgi þegar hið fræga Símamót fór fram í Kópavogi. Um 3000 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins, og fer sífellt stækkandi. 75 Gróttustelpur héldu á mótið en 5. flokkur Gróttu tefldi fram tveimur liðum sem samanstóðu af 16 stelpum, 6. flokkur kvenna var með 30 stelpur í fimm liðum og 7. flokkur kvenna fór með 29 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags. Mótið fór fram með hefðbundnu sniði en hins vegar var breyting á liðsnöfnum í ár, en mótsstjórn Símamótsins hvatti félög til að leggja niður númeraröðun liða á mótinu og þess í stað skíra lið félaganna eftir knattspyrnukonum. Grótta tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra framtaki og
Gróttuliðin hétu öll eftir meistaraflokksleikmönnum Gróttu. Leikmennirnir kíktu á stelpurnar á mótinu og fannst stelpunum það ansi spennandi.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu. Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu en umfram allt skemmtu þær sér vel og komu heim á Seltjarnarnesið reynslunni ríkari 🤩

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Það voru 17 galvaskir Gróttudrengir sem héldu í ævintýraferð á Orkumótið í Eyjum í lok júní, áður þekkt sem Shellmótið eða Tommamótið. Veðrið var frábært þegar siglt var með Herjólfi frá Landeyjahöfn og strax fyrsta daginn fóru strákarnir í bátsferð um Eyjarnar.

Keppni hófst á fimmtudeginum og lék Grótta2 meðal annars á Helgafellsvelli sem er líklega einn af fáum fótboltavöllum í heiminum sem er staðsettur á eldfjalli. Strákarnir í Gróttu2 spiluðu glimrandi fótbolta og náðu 2. sæti í sínum riðli fyrstu tvo dagana. Síðasta daginn öttu þeir svo kappi við mjög öflug lið og gerðu tvö jafntefli en tvö töp staðreynd.

Grótta1 byrjaði mótið rólega en á föstudagsmorgni þurfti heldur betur að vakna því framundan voru leikir við tvö af bestu liðum mótsins: Stjörnuna og Þór (sem enduðu á að leika til úrslita). Báðir leikir töpuðust 2-0 en varnarleikur Gróttudrengja var stórgóður og endaði liðið daginn á frábærum sigri á Keflavík. Lokadaginn gerði Grótta1 svo tvö jafntefli, vann einn leik og tapaði einum og endaði í 11. sæti Orkumótsins.

Það eru þó ekki aðeins afrek innan vallar sem skipta máli á svona stórmóti hjá 10 ára peyjum (eins og Eyjamenn kalla stráka). Hópurinn ver miklum tíma saman og stundum getur tekið á að gista annars staðar en í öruggu skjóli foreldra sinna. Allir voru sammála um að strákarnir hafi komið nokkrum númerum stærri heim frá Eyjum, tilbúnari í að takast á við áskoranir næstu ára innan sem utan fótboltavallarins.

6. flokkur kvenna á Steinullarmóti Tindastóls

6. flokkur kvenna skellti sér á Sauðárkrók síðustu helgi og lék þar á Steinullarmóti Tindastóls. Grótta fór með 5 lið á mótið og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Miklar framfarir sáust í spilamennsku hjá Gróttustelpunum og var leikgleðin aldrei langt undan. Veðrið var frábært á Króknum og stemningin með eindæmum góð 🙌🏼
Næst á dagskrá hjá stelpunum er Símamótið sem fer fram næstu helgi í Kópavogi!

7. flokkur karla á Norðurálsmótinu

37 drengir úr 7. flokki karla spiluðu á hinu víðfræga Norðurálsmóti síðustu helgi en Grótta fór með sex lið á mótið. Drengirnir fengu frábært veður á Skaganum sem skemmdi ekki fyrir stemningunni. Þeir stóðu sig gríðarlega vel og gátu þjálfararnir séð miklar framfarir á vellinum. Frábært var að sjá hvað margir foreldrar fylgdu strákunum og hvöttu þá til dáða. Mótið gekk heilt yfir mjög vel og voru drengirnir félaginu til sóma, bæði innan sem utan vallar. Mikil gleði ríkti meðal drengjanna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd 🤩

5. flokkur kvenna á TM mótinu í Eyjum

5. flokkur kvenna hélt til Vestmannaeyja í síðustu viku á hið margfræga TM mót, betur þekkt sem Pæjumótið! Grótta fór með tvö lið á mótið og 21 stúlku innanborðs. Spilað var fimmtudag, föstudag og laugardag og var mikið fjör á Eyjunni. Rebekka Sif Brynjarsdóttir var valinn fulltrúi liðsins í pressuliðinu sem lék gegn landsliðinu á föstudagskvöldið, en lið Rebekku vann leikinn 3-0 og átti hún tvær stoðsendingar 👏🏼 Rebekka var einnig valin í lið mótsins!
Stelpurnar stóðu sig vel á mótinu innan sem utan vallar og voru glæsilegir fulltrúar félagsins 💙