Tinna Brá í Fylki

Grótta og Fylkir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti markvarðarins efnilega Tinnu Brár Magnúsdóttur. Tinna gerir 3 ára samning við Árbæinga sem enduðu í 3. sæti í Pepsi Max deild kvenna síðasta sumar.

Tinna Brá er uppalin Gróttukona og stóð milli stanganna síðasta sumar í frumraun Gróttu í Lengjudeildinni. Frammistaða hennar vakti verðskuldaða athygli, ekki síst í ljósi þess að Tinna er aðeins 16 ára gömul. Tinna hefur leikið 24 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og fjóra leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara meistaraflokks, sagði þetta um málið: „Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta.“

Sigurvin framlengir við Gróttu

Sigurvin Reynisson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til loka keppnistímabilsins 2022. Sigurvin kom til Gróttu á árinu 2015 og hefur verið í lykilhlutverki í uppgangi liðsins síðustu ár. Hann hefur leikið yfir 100 leiki fyrir meistaraflokk félagsins og verið fyrirliði liðsins síðastliðin þrjú ár.

„Við erum afar ánægð með að hafa samið við Sigurvin um að halda áfram í verkefninu hjá Gróttu. Hann hefur verið lykilmaður hjá okkur og það skiptir miklu máli að hafa leikmann með slíka reynslu í okkar forystusveit, þótt hann sé reyndar ekki nema 25 ára gamall,“ sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar Gróttu við undirritun samningsins.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri hjá Gróttu undanfarin ár, en mér finnst verkefninu ekki vera lokið. Hópurinn er enn ungur, margir að bæta sig og ég vil leggja mitt af mörkum áfram. Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, síðasta ár var mjög sérstakt, en við horfum fram á veginn og ætlum okkur stóra hluti næsta sumar,“ sagði Sigurvin.

Vivaldi styrkir knattspyrnudeild Gróttu áfram

Vivaldi á Íslandi hefur gert nýjan þriggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu.
Samkvæmt samningnum mun vörumerkið Vivaldi prýða keppnisbúninga meistaraflokka knattspyrnudeildar Gróttu næstu þrjú árin og völlurinn mun áfram bera nafnið Vivaldivöllurinn. Að auki prýðir vörumerkið keppnisbúninga yngri flokka félagsins.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Jólakveðja Gróttu

Íþróttafélagið Grótta óskar þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Þökkum stuðninginn og samfylgdina á árinu sem er að líða.

Continue reading

Styrktu Gróttu og Græna skáta með dósum og flöskum

Íþróttafélagið Grótta í samstarfi við Græna skáta eru með tvo dósagáma við inngang íþróttamiðstöðvar Gróttu. Gróttufólk er hvatt til að koma skilagjaldsskyldum dósum og flöskum í þessa gáma og styrkja Gróttu og skátastarfið í landinu.

Áfram Grótta!

Gróttublaðið komið út í tíunda sinn!

Gróttublaðið er komið út í tíunda sinn 👏

Fyrir jólin 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2020 myndi 10. blaðið koma út! Blaðið var 28 blaðsíður árið 2011 en er nú 52. 

Í blaði ársins má m.a. finna viðtal við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur og önnur viðtöl við Gróttumenn- og konur sem eru að gera það gott. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið. 

Dreifing hefur gengið vel og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í flest hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins er að finna hér

Magnus teiknaði jólakort Gróttu 2020

Jólakortsamkeppni Gróttu var haldin í annað skipti nú fyrir jólin. Við efndum til teiknisamkeppni í 4. bekk Mýrarhúsaskóla um að velja teikningu sem myndi príða jólakortið í ár.

Magnus Holm-Andersen átti teikninguna sem varð hlutskörpust og hún prýðir jólakort félagsins árið 2020. Auk þess voru veitt verðlaun fyrir 3 aðrar teikningar.

Við viljum þakka skólastjórnendum í Mýrarhúsaskóla fyrir samstarfið í ár og þessi viðburður er orðinn hefð hjá félaginu.