Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️

Aðalfundir Gróttu næsta þriðjudag

Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu fara fram þriðjudaginn næsta (26. apríl)
Aðalfundirnir hefjast kl. 17:30 og er gert ráð fyrir að þeim sé lokið kl. 18:30.

Eftir að aðalfundum lýkur verður öllum fundargestum boðið upp á léttar veitingar.

Katrín Anna og Katrín Scheving í U18

Þessa dagana æfir U18 ára landslið kvenna undir stjórn landsliðsþjálfaranna Ágústar Þórs Jóhannssonar og Árna Stefáns Guðjónssonar. Upphaflega var eingöngu einn fulltrúi frá Gróttu í hópnum, Katrín Anna Ásmundsdóttir sem hefur verið fastamanneskja í liðinu undanfarin ár. Núna hefur nafna hennar, Katrín Scheving einnig verið valin í hópinn. Við eigum því tvo fulltrúa í hópnum.

Til hamingju með valið, Katrín Anna og Katrín Scheving og gangi ykkur vel !

Arna Katrín og Sigríður Agnes valdar í æfingahóp

Á dögunum voru tveir leikmenn úr 5.flokki kvenna valdir í æfingahóp Reykjavíkurúrvalsins í handbolta. Það eruð þær Arna Katrín Viggósdóttir og Sigríður Agnes Arnarsdóttir. Liðið mun æfa saman næstu daga og vikur til undirbúnings fyrir hina árlega höfuðborgarleika sem haldnir eru að þessu sinni í Osló í Noregi 29. maí – 4.júní næstkomandi.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og vonum að þær verði í lokahópnum sem fer til Noregs í lok maí.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson

Arnar Daði og Maksim áfram með Gróttuliðið

Þjálfarateymi Gróttu hefur framlengt samninga sína við Handknattleiksdeild Gróttu til þriggja ára. Arnar Daði Arnarsson verður áfram þjálfari liðsins og honum til aðstoðar verður áfram Maksim Akbachev. Þjálfararnir hafa átt gríðarlega mikinn þátt í því að festa Gróttuliðið á meðal bestu liða landsins. Takmark næstu tímabila er að færast enn ofar í töflunni.

„Þetta er stór dagur fyrir Gróttu. Arnar Daði og Maksim hafa staðið sig frábærlega hérna á Nesinu og við lögðum okkur mikið fram við að halda þeim áfram. Það og að Birgir Steinn verður áfram í herbúðum okkar er stórt skref í þeirri vegferð að Grótta berjist í efri helmingi deildarinnar“, sagði Arnkell Bergmann Arnkelsson varaformaður Handknattleiksdeildar Gróttu við undirritunina.

Birgir Steinn framlengir

Birgir Steinn Jónsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Birgir Steinn hefur verið í herbúðum Gróttu undanfarin tvö ár og staðið sig frábærlega. Það eru því frábær tíðindi að hann verði áfram á Nesinu. Birgir skoraði 125 mörk í vetur og varð fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Ef frá eru talin mörk úr vítaköstum, þá er þetta annað tímabilið í röð sem Birgir Steinn er markahæsti leikmaður deildarinnar.  Hann gaf flestar stoðsendingar í deildinni í vetur. Nýverið var hann valinn besti leikmaður deildarinnar samkvæmt tölfræði HBstatz og í liði tímabilsins.

„Ég er virkilega spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Við höfum sýnt það í vetur að við erum með hörkugott lið en ég hef trú á því að þessi hópur geti náð enn lengra á næsta tímabili og á næstu árum“, sagði Birgir Steinn við undirritunina.

„Þetta eru stór tíðindi fyrir Gróttu enda Birgir Steinn stimplað sig inn sem einn albesti leikmaður deildarinnar og mörg lið sem horfðu hýru auga til hans. Hann hefur bætt leik sinn gríðarlega undanfarin ár og verður frábært að vinna áfram með honum næstu tvö árin“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Ágúst Emil áfram á Nesinu

Ágúst Emil Grétarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Ágúst Emil er 24 ára gamall og leikur sem hægri hornamaður. Hann hefur leikið með Gróttu undanfarin fjögur tímabil og leikið samtals 84 leiki fyrir félagið. Ágúst Emil hefur leikið afar vel í vetur og skorað 43 mörk í deildinni og er með um 70% skotnýtingu. Það er mikil gleðitíðindi að Ágúst Emil verði áfram í herbúðum Gróttu.

„Ágúst Emil hefur verið vaxandi leikmaður undanfarin ár og hefur í vetur verið frábær. Það er því frábært að hann verði áfram á Nesinu. Ég hlakka mikið til að vinna með honum áfram“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu þegar samningurinn var í húsi.

Eyrún, Rebekka, Sara og Aufí valdar í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttustúlkurnar Eyrún Þórhallsdóttir, Rebekka Sif Brynjarsdóttir, Sara Björk Arnarsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir voru valdar til að taka þátt í Hæfileikamótun N1 og KSÍ þann 5. apríl í síðustu viku. Æfingin fór fram á Vivaldivellinum og voru 25 stúlkur frá Gróttu, KR, Val, Víking R. og Þrótti R. í hópnum sem æfði saman. Vel gert stelpur! 

Arnór, Fannar, Kári og Patrekur í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttudrengirnir Arnór Alex Óskarsson, Fannar Hrafn Hjartarson, Kári Kristjánsson og Patrekur Ingi Þorsteinsson hafa verið valdir til að taka þátt í æfingu í Hæfileikamótun N1 og KSÍ á Suðvesturlandi. Tæplega þrjátíu leikmenn frá fimm félögum taka þátt í æfingunum. 

Æfingin fer fram í knatthúsi ÍR í Breiðholti mánudaginn 11.apríl 2022 undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar þjálfara í Hæfileikamótun. 

Gangi ykkur vel strákar! 

Kjartan Kári og Orri Steinn léku með U19 í Króatíu 

Kjartan Kári Halldórsson og Orri Steinn Óskarsson léku með U19 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki og fóru þeir fram í Króatíu. Ísland tapaði sínum fyrsta leik 1-2 gegn Króatíu en Orri Steinn Óskarsson skoraði eina mark Íslands. Í öðrum leik liðsins gerði Ísland 1-1 jafntefli og var það aftur Orri Steinn sem skoraði eina mark Íslands. U19 ára landsliðið endaði svo mótið á glæsilegum 3-0 sigri gegn Rúmeníu og hafnaði í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, en Rúmenía fór áfram í lokakeppni EM eftir að hafa endað í efsta sæti riðilsins með sex stig. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Kjartani og Orra til hamingju með árangurinn!