Góð mæting á 8. flokks æfingar

Æfingar hjá yngri flokkum félagsins hófust þann 1. september og fór 8. flokkur karla og kvenna vel af stað á sinni fyrstu æfingu. 8. flokkur karla og kvenna er fyrir börn fædd 2017 og 2018 og eru æfingar í vetur inni í íþróttahúsi en á sumrin er fært sig út á Vivaldivöll.

Æfingatímarnir eru eftirfarandi:
8 flokkur kvenna: Þriðjudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur karla: Miðvikudaga kl. 7:50-8:30
8 flokkur kk og kvk: Fimmtudaga kl. 15:45-16:25

Börnin eru sótt í leikskólann á fimmtudögum og á þriðjudögum og miðvikudögum er þeim fylgt í leikskólann að æfingu lokinni. Við hvetjum börn fædd 2017 og 2018 til að koma og prófa fótboltaæfingu
Þjálfari flokksins er Hansína Þóra Gunnarsdóttir og henni til aðstoðar eru Agnar Guðjónsson, Helga Sif Bragadóttir og Jóna Guðrún Gylfadóttir.

Óliver Dagur Thorlacius er kominn í 100 leikja klúbb Gróttu

Óliver Degi var veittur blómvöndur fyrir leik Gróttu og Kórdrengja þann 2. september sl. í tilefni þess að hann hefur spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Óliver kom til félagsins frá KR árið 2018 og hefur verið lykilleikmaður í liðinu síðan. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Óliver innilega til hamingju með þennan merka áfanga.


Mynd: Eyjólfur Garðarsson

6. flokkur karla á Króksmótinu

Tæplega þrjátíu Gróttustrákar úr 6. flokki karla skelltu sér á Sauðárkrók um helgina og léku á Króksmóti Tindastóls. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig mjög vel og uppskáru eftir því. Að sögn þjálfaranna spiluðu strákarnir geggjaðan fótbolta á Sauðárkróki! Lið Gróttu hétu eftir meistaraflokks leikmönnum til að vekja athygli drengjanna á þeim fyrirmyndum sem þeir hafa innan félagsins. Liðin hétu Addi Bomba, Kristófer Orri, Arnþór Páll, Kjartan Kári og Júlí Karls.

Tómas Johannessen til Ungverjalands með U17

Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U17 karla, hefur valið leikmannahóp til þátttöku í alþjóðlegu móti í Telki í Ungverjalandi dagana 14.-21. ágúst n.k.
Alls hafa 20 leikmenn verið valdir í hópinn og koma þeir frá 15 félögum. Einn þeirra er Gróttumaðurinn Tómas Johannessen sem er einungis 15 ára. Vel gert Tómas og gangi þér vel!

4. flokkur kvenna í 3. sæti á Rey Cup

4. flokkur kvenna tók þátt í Rey Cup sem var haldið í 21. sinn í Laugardalnum í lok júlí og sendi Grótta/KR tvö lið til leiks að þessu sinni. Bæði lið stóðu sig með prýði á mótinu og enduðu bæði liðin í 3. sæti í sínum styrkleikaflokki. Spilað var frá miðvikudegi til sunnudags á vallarsvæði Þróttar. Grótta/KR 1 tapaði naumlega 1-0 fyrir KA á laugardeginum og spilaði því upp á 3. sætið á sunnudeginum. Stelpunum tókst að landa bronsinu með 2-1 sigri á Þór. Grótta/KR 2 spilaði einnig um 3. sætið á sunnudeginum og unnu KF/Dalvík 2-1 og tókst þeim með sigrinum að næla sér í 3. sætið líkt og samherjum sínum. Stelpurnar skemmtu sér vel á mótinu, innan sem utan vallar, og spiluðu fallegan fótbolta. Liðin stóðu sig bæði vel og gaman að uppskera 3. sætið eftir hörkuleiki.
Vel gert stelpur!

3. flokkur kvenna alla leið í 8-liða úrslit á Gothia Cup

3. flokkur kvenna fór í júlí til Svíþjóðar þar sem Gothia Cup, eitt stærsta fótboltamót heims fer fram. Stelpurnar unnu fyrstu þrjá leikina sína, 1-0 gegn sænsku liði, 3-0 gegn þýsku liði og síðan 4-0 gegn sænsku liði og komust upp úr riðlinum sínum og í 16-liða úrslit. Í 16-liða úrslitum mættu þær sænska liðinu Mjölby AI/FF og var staðan 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Þá var farið í vítaspyrnukeppni þar sem Grótta/KR bar sigur úr býtum, en mörk Gróttu/KR skoruðu Katla, Íris, Rakel og Jóhanna. Gaman er að segja frá því að fram að vítaspyrnukeppninni höfðu markmennirnir okkar, Helena og Júlíana, ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum leikjunum. Síðar sama dag var strax komið að 8-liða úrslitunum og mættu stelpurnar þar gríðarlega sterku liði frá Noregi, Arna-Bjørnar, þar sem Grótta/KR beið lægri hlut. Arna-Bjørnar stóðu síðan upp sem sigurvegarar á mótinu í 3. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel í miklum hita og spiluðu vel saman. Þær nýttu frítímann einnig vel, kíktu á ströndina, fóru í Liseberg, versluðu og nutu samverunnar. Þær mega vera stoltar af sinni frammistöðu og þeim árangri sem þær náðu á mótinu og óskum við þeim til hamingju með hann!

CRAFT er nýr búningastyrktaraðili Gróttu

Íþróttafélagið Grótta hefur samið við New Wave Iceland um að félagið noti CRAFT íþróttafatnað næstu fjögur árin.  Félagið fór í stórt útboð síðastliðinn vetur og niðurstaðan var að semja við New Wave Iceland en strax frá upphafi sýndi fyrirtækið mikinn áhuga að semja við okkur. Með tilkomu samningsins verður New Wave Iceland einn af aðal styrktaraðilum Íþróttafélagsins Gróttu.

Íþróttafélagið Grótta þakkar Errrea á Íslandi fyrir frábært samstarf undanfarin 14 ár en Grótta hefur spilað í Errea fatnaði frá haustinu 2008. 

Haraldur Jens Guðmundsson, framkvæmdastjóri New Wave Iceland er hæstánægður með nýja samninginn: „Við hjá New Wave Iceland erum afar ánægð að hafa náð saman við Gróttu um samstarf næstu fjögur árin þar sem Grótta æfir og keppir í fatnaði frá Craft.  Grótta er öflugt félag sem við erum stolt af að geta stutt við bakið á næstu árin og hlökkum við mikið til samstarfsins.”

Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Gróttu hafði þetta að segja eftir undirritun samningsins: „Um leið og við þökkum Errea fyrir áralangt farsælt samstarf hlökkum við mikið til samstarfsins við Craft. Samningurinn er einn stærsti heildarsamningur sem félagið hefur gert frá upphafi. Vöruúrval Craft er mikið og spennandi tímar framundan í samvinnu Gróttu og Craft.”

Craft er alþjóðlegt íþróttavörumerki sem hóf starfsemi 1977 og framleiðir í dag hágæða fatnað fyrir flestar íþróttir sem hafa notið mikilla vinsælda um langt skeið.  Craft er í eigu New Wave Group sem er móðurfélag dreifingaraðila Craft á Íslandi, New Wave Iceland.  Á síðustu árum hefur Craft haslað sér völl á liðamarkaðnum með frábærum árangri þar sem má telja fjölda landsliða og félagsliða sem hafa kosið að leika í Craft sbr. sænsku knattspyrnuliðin Hammarby IF og IFK Gautaborg, sænska handboltalandsliðið og sænska landsliðið í fimleikum. 

Tveir leikmenn Gróttu og þjálfarinn í úrvalsliðinu

Grótta á tvo fulltrúa í úrvalsiði fyrri hluta Lengjudeildarinnar ásamt því að þjálfari fyrri hlutans er þjálfari Gróttu, Chris Brazell!
Kjartan Kári Halldórsson var valinn leikmaður fyrri hlutans en þessi 19 ára Seltirningur er langmarkahæstur í deildinni með 12 mörk. Fyrirliði Gróttu, Arnar Þór Helgason, er einnig í úrvalsliðinu í hjarta varnarinnar.
Grótta situr eins og stendur í 2. sæti Lengjudeildarinnar og er næsti leikur hjá drengjunum á laugardaginn þegar þeir halda til Ísafjarðar og mæta Vestra.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson