Boltaskóli Gróttu heldur áfram

!!VORÖNN!! Nú verður einnig hægt að skrá börn sem eru fædd snemma árið 2023😁

Knattspyrnu og handknattleiksdeildir Gróttu halda áfram með Boltaskóla fyrir börn fædd 2022 á sunnudögum kl. 09:15.

Vorönn byrjar 4. janúar og skráning er hafin, líkt og seinast er notast við klippikortakerfi. https://www.abler.io/shop/grotta/fotbolti?program=Q2x1YlNlcnZpY2U6NDY0NDg=

Skemmtilegt námskeið þar sem að við leggjum áherslu á að foreldri/forráðamaður og barn njóti gæðastundar saman í tímanum þar sem unnið er með leik og hreyfingu með bolta og önnur áhöld.

Námskeiðið er sett upp þannig að einn forráðamaður mætir með barninu í tímann og er með barninu í leik og starfi.

Hlökkum til að sjá ykkur!
Hansína og Arndís María

Arndís Áslaug framlengir til 2028

Arndís Áslaug Grímsdóttir hefur framlengt leikmannasamninginn sinn við Handknattleiksdeild Gróttu út tímabilið 2028. Arndís er 18 ára gömul og leikur sem línumaður. Hún hefur verið í lykilhlutverki í 3.flokki kvenna undanfarin ár en Gróttuliðið hefur ekki tapað leik á þessu leiktímabili.

Í meistaraflokki hefur Arndís komið við sögu í 10 leikjum í Grill 66-deildinni og skoraði þeim 10 mörk. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Arndís leikið 51 leik með meistaraflokki.

Arndís er ekki bara góður sóknarlínumaður því hún er líka öflugur varnarmaður og getur leikið nokkrar stöður þar. Hún hefur æft með unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár.

„Arndís er virkilega efnilegur leikmaður sem gaman verður að sjá taka næsta skref. Hún er öflug beggja megin vallarins og hefur sýnt það að hún er framtíðarleikmaður Gróttu“ sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttuliðsins við undirritun samningsins.

RISAKVÖLD Á FÖSTUDAGINN

Það er heldur betur RISAKVÖLD hjá meistaraflokkunum okkar á föstudaginn.

Strákarnir hefja leik kl. 18:00 í Hertz-höllinni þegar Víkingar koma í heimsókn. Bæði lið á toppnum og gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

Stelpurnar taka við kl. 20:00 í Kórnum í Kópavogi þegar þær mæta HK. Toppslagur milli liðanna og gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

Gróttufólk þarf að fjölmenna á þessa tvo leiki og hjálpa okkar liði í þessum mikilvægu leikjum.

Áfram Grótta !

Jólahandboltaskóli Gróttu/KR

Hinn árlegi jólahandboltaskóli fer fram um hátíðarnar líkt og undanfarin ár. Námskeiðsdagarnir eru fimm talsins og er hægt að skrá sig á staka daga eða allt námskeiðið.

Skólinn er frá 09:00-12:00 og fer fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi. Skólinn er fyrir krakka í 1. – 6.bekk eða krakka fædd 2019-2014. Byrjendur jafnt sem krakkar lengra komin eru velkomin. Við hvetjum stelpur sérstaklega til að taka þátt.

Skráningin fer fram í gegnum Abler en beinn hlekkur er hérna: https://www.abler.io/…/product/Q2x1YlNlcnZpY2U6NDk4NzM=/

Nánari upplýsingar gefur Andri og Mummi yfirþjálfarar handboltans á netföngunum [email protected] og [email protected]

Katrín Helga áfram í Gróttu til 2029

Katrín Helga Sigurbergsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Handknattleiksdeild Gróttu sem gildir út tímabilið 2029. Katrín Helga er 23 ára gömul en þrátt fyrir ungan aldur er hún hokin af reynslu í meistaraflokki. Hún hefur leikið 177 leiki með Gróttu og er önnur af tveimur fyrirliðum kvennaliðs Gróttu.

Katrín Helga leikur sem skytta og miðjumaður. Hún er útsjónarsöm og öflugur skotmaður. Þess fyrir utan er hún frábær varnarmaður og leikur í hjarta Gróttuvarnarinnar.

Það eru frábær tíðindi að Katrín Helga verði áfram í Gróttubúningnum til ársins 2029. „Katrín Helga hefur stimplað sig inn undanfarin misseri sem frábær varnarleikmaður og ein af þeim betri hér á landi. Þess fyrir utan er hún góður skotmaður og stýrir leik Gróttu vel í sókninni. Hún er góður karakter sem smitar út frá sér til yngri leikmanna liðsins. Það gleður mig mikið að hún verði áfram í Gróttuliðinu næstu árin“, sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttuliðsins þegar blekið var þornað á undirskriftinni.

HM í handbolta að hefjast

Á meðan HM stendur yfir hvetjum við allar stelpur og stráka að koma á handboltaæfingar hjá okkur í Gróttu þeim að kostnaðarlausu.

Þjálfararnir taka vel á móti öllum sem koma. Æfingatímana má sjá hérna: https://grotta.is/aefingatafla-handbolti/

Fyrsti leikur kvennalandsliðsins er í dag. Þær leika þrjá leiki í riðlakeppninni og eru leiktímarnir þessir:

Miðvikudagur 26.nóv
Ísland – Þýskaland kl. 17:00

Föstudagur 28.nóv
Ísland – Serbía kl. 19:30

Sunnudagur 30.nóv
Ísland – Úrúgvæ kl. 14:30

Áfram Grótta og áfram Ísland !

Næringarfræðsla frá Elísu

Í vikunni hélt Elísa Viðarsdóttir áhugaverðan næringarfyrirlestur fyrir 5., 4. og 3.flokk í hátíðarsal félagsins. Hópnum var skipt upp eftir aldri. Það var góð mæting hjá báðum hópum og greinilegt að krakkarnir höfðu mikinn áhuga á efninu.

Elísa fór yfir hvernig hægt er að næra líkamann á einfaldan og skynsamlegan hátt, á mannamáli. Hún ræddi hvað skiptir mestu máli dags daglega í mataræði ungmenna, hvernig má undirbúa sig fyrir æfingar og leiki, og hvað er gott að borða eftir á til að styðja við endurheimt.

Við þökkum Elísu fyrir komuna og eru fullviss um að þetta hjálpi okkar krökkum til frekari afreka.

Soffía Helen skrifar undir

Markvörðurinn Soffía Helen Sölvadóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta leikmannasamning við Handknattleiksdeild Gróttu. Soffía er 15 ára gömul og leikur sem markvörður. Hún hefur undanfarin misseri verið valin í öll yngri landslið kvenna og nú nýverið í U16 ára landsliðið.

Soffía hefur leikið alla leiki með 4.flokki og 3.flokki kvenna núna í vetur og staðið sig vel. Báðir flokkar leika í 1.deild Íslandsmótsins.

Það verður spennandi að sjá Soffíu halda áfram að bæta sig og eflast á næstu misserum.

Á myndinni má sjá Soffíu Helen með Júlíusi Þóri þjálfara meistaraflokks kvenna.

Handboltaskóli Gróttu/KR

Handboltaskóli Gróttu/KR verður starfræktur í vetrarleyfinu. Skólinn er fyrir krakka í 1. – 6.bekk sem eru fædd 2014-2019. Skólinn hefst kl. 09:00 og honum lýkur kl. 12:00. Krakkarnir þurfa að hafa með sér nesti. Skipt verður í hópa eftir aldri.

Námskeiðsdagarnir eru:

Fimmtudagur 23.október
Föstudagur 24.október
Mánudagur 27.október
Þriðjudagur 28.október

Hægt er skrá sig á staka daga en líka á allt námskeiðið.

Þjálfarar námskeiðsins er þjálfarar félagsins auk leikmanna meistaraflokks.

Skráningin fer fram í Abler en beinn hlekkur er hérna: https://www.abler.io/shop/grotta/product/Q2x1YlNlcnZpY2U6NDgzMTM=/

Æfingagjöld

Kæru foreldrar og forráðamenn

Við minnum á greiðslu æfingagjalda og hvetjum ykkur til að ganga frá skráningu iðkenda í gegnum Abler.

Æfingagjöldin eru forsenda þess að iðkandi gerist löglegur og geti tekið þátt í keppnum á vegum félagsins. Einnig eru þau lífæð félagsins í rekstri deilda.

Fyrirfram þakkir
#okkargrótta