Gróttumót 7. flokks karla haldið í þriðja sinn á Vivaldivellinum

Gróttumót 7. flokks karla var haldið í þriðja sinn síðastliðinn sunnudag. Sólin skein á Vivaldivellinum þegar 250 drengir víðsvegar af landinu spiluðu fótbolta af kappi. Grótta, Víkingur R., KR, ÍR, Leiknir R., Hamar, Álftanes, Skallagrímur og KFR tefldu fram liðum á mótinu sem gekk vonum framar. Allir þátttakendur fóru glaðir heim með Floridana safa, medalíu og gjafabréf á Hamborgarafabrikkuna.

Benedikt Bjarnason tók liðsmyndir á mótinu en þær má allar finna á facebook síðu knattspyrnudeildarinnar.

Axel Sigurðarson í Gróttu

Sóknarmaðurinn Axel Sigurðarson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu. Axel spilaði mikilvægt hlutverk í Gróttuliðinu síðasta sumar en þá spilaði hann 13 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim þrjú mörk. Axel á að baki sér 47 meistaraflokks leiki en hann hefur einnig spilað með KR, HK og ÍR.

Það er mikið gleðiefni að Axel muni spila með Gróttu á komandi tímabili, enda öflugur sóknarmaður sem mikils er vænst af. Við bjóðum Axel hjartanlega velkominn aftur á Nesið!

Tengslin efld milli meistaraflokks og yngri flokka

Þjálfarar meistaraflokks kvenna, þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson, hrintu af stað nýju verkefni fyrr í vikunni sem stuðlar að því að efla tengsl milli meistaraflokks og yngri flokka. Nokkrum sinnum í mánuði verða tveimur duglegum stelpum úr 4. eða 5. flokki boðið að mæta á meistaraflokksæfingu.

Stelpurnar kíkja inn í klefa fyrir æfingu og sitja stuttan fund með liðinu, taka svo þátt í upphitun og léttum boltaæfingum. Verkefnið fór af stað á þriðjudaginn þegar þær Nína og Aufí úr 5. flokki voru með á meistaraflokksæfingu og stóðu sig með eindæmum vel!

Signý Ylfa gengin til liðs við Gróttu

Hin 18 ára gamla Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val á láni út tímabilið. Signý spilar sem framherji en hún á að baki þrjá landsleiki fyrir U16 ára landslið Íslands og nokkra Lengjubikar- og Reykjavíkurmótsleiki fyrir Val.

Við bjóðum Signýju velkoma á Nesið og hlökkum til að fylgjast með henni í bláu treyjunni í sumar.