Andri Fannar valinn í U20 ára landsliðið

Á dögunum var valið í öll yngri landslið karla. Í U20 ára landsliðinu áttum við hinn örvhenta Andra Fannar Elísson. Andri Fannar er búinn að koma vel inn í Gróttuliðið og hefur skorað 29 mörk með liðinu það sem af er Olísdeildinni.

Þjálfarar U20 ára landsliðsins eru Einar Andri Einarsson og Halldór Jóhann Sigfússon. Við óskum Andra Fannari til hamingju með valið sem og góðs gengis á æfingunum næstu daga.

Æfingar um jól og opnunartími Íþróttamannvirkja

Opnunartími og æfingar um hátíðarnar

Knattspyrnu- og handknattleiksdeild Gróttu fara í jólafrí frá og með deginum í dag, þann 20. desember og munu æfingar hefjast aftur þann 4.janúar á nýju ári. Þjálfarar eiga nú þegar að hafa fellt niður allar æfingar í Sportabler hjá yngri flokkum félagsins.

Fimleikadeild Gróttu mun æfa eins og venjulega fyrir utan það að vera í frí þessa hefðbundnu rauðu daga um hátíðarnar.

Vallarhúsið mun vera lokað á þeim tíma sem knattspyrnudeildin er í jólafríi en Íþróttahúsið verður lokað 23. desember og opnar aftur miðvikudaginn 27.desember. Húsið verður síðan lokað 30. desember til og með 1. janúar.

Jólakveðja

Íþróttafélagið Grótta

Jólanámskeið Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu býður upp á tvö jólanámskeið núna yfir hátíðarinnar. Fyrra námskeiðið er 21. – 22.desember og seinna námskeiðið 27. – 29.desember. Námskeiðin fara fram í Hertz-höllinni.

Námskeiðin eru aldursskipt. Annað námskeiðið er fyrir krakka f. 2012-2017 og hinn námskeiðið fyrir iðkendur 2011-2008 eða þau sem skipa 4. og 5. flokk.

Námskeiðin eru jafnt fyrir þá sem eru að æfa og vilja prófa handbolta. Æfingarnar á yngra námskeiðinu eru frá kl. 09:00-12:00 og þurfa krakkarnir að taka með sér nesti. Æfingarnar á eldra námskeiðinu eru 12:30-14:00.

Við hvetjum alla krakka sem vilja æfa aukalega að mæta, æfa og hafa gaman um hátíðarinnar.

Skráning fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Áfram Grótta !

Helgi Skírnir valinn í U16 ára landslið karla

Í seinustu viku var valið í U16 ára landslið karla fyrir næsta verkefni sem verður í lok desember. Í hópnum var okkar maður Helgi Skírnir Magnússon. Liðið mun koma saman 18.desember og æfa fram að jólum

Við óskum Helga Skírni til hamingju með valið og óskum honum góðs gengis á æfingunum.

Antoine Óskar valinn í U18 ára landsliðið

Á dögunum var valið í U18 ára landslið karla fyrir næsta verkefni sem verður í lok desember. Í hópnum var Antoine Óskar Pantano líkt og undanfarin skipti. Liðið mun koma saman 18.desember og æfa fram að jólum. Milli jóla og nýárs mun liðið síðan fara á geysisterkt æfingamót í Þýskalandi, Sparkassen Cup.

Antoine Óskar hélt upp á þetta val með virkilega flottum leik með meistaraflokki gegn Selfyssingum þar sem hann skoraði 5 mörk, var með 6 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína og eitt fiskað víti.

Til hamingju Antoine og gangi þér vel !

Skattaafsláttur þegar þú styrkir Gróttu

Með því að styrkja starf Gróttu með fjárframlögum þá getur þú fengið skattaafslátt. Lágmarksupphæð styrks til að fá lækkun á tekjuskattsstofni er 10.000 krónur, en hámark 350.000 krónur – eða samtals 700.000 krónur hjá hjónum.

Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, og þar á meðal er Íþróttafélagið Grótta.

Fólk sem ákveður að styrkja félagið getur komið þeim skilaboðum áleiðis á skrifstofu Gróttu á netfangið kristin@grotta.is. Síðan er hægt að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabankann. Fjármálastjóri Gróttu sér síðan um að upplýsa Skattinn um styrkina og síðan er það fært inn í skattframtal viðkomandi í framhaldi. Frádráttur frá tekjuskattsstofni er áritaður fyrirfram inn á framtalið, í reit 155 í klafla 2.6. á tekjusíðu framtals. Því er það mjög mikilvægt að láta skrifstofu félagsins vita til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í ferlinu.

Lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.

Þegar fólk ákveður að styrkja Gróttu er hægt að velja um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0537-26-201234, kt. 700371-0779 – eða fá reikning í heimabanka.

Grótta þakkar öllum styrktaraðilinum innilega veittan stuðning

Áfram Grótta

Komdu og prófaðu handbolta

Í tilefni af því að íslenska kvennalandsliðið hefur leik á HM í handbolta á morgun, þá býður Grótta öllum stelpum sem vilja koma og prófa handbolta frítt á æfingar á meðan mótið stendur yfir. Fyrsti leikur Íslands er á morgun, 30.nóvember og lýkur mótinu með úrslitaleik 17.desember.

Tveir leikmenn Íslands léku með Gróttu. Elín Jóna Þorsteinsdóttir er uppalin á Nesinu og lék með öllum yngri flokkum félagsins. Hún varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með meistaraflokki áður en skipti yfir í Hauka og loks út í atvinnumennskuna. Þórey Anna Ásgeirsdóttir lék með Gróttu í þrjú keppnistímabil og varð Íslandsmeistari árið 2016 áður en hún skipti yfir í Stjörnuna og síðan í atvinnumennskuna.

Æfingatöflu Gróttu má finna hér: https://grotta.is/aefingatoflur/

Frábæru þjálfararnir okkar taka vel á móti krökkunum.

Allar upplýsingar gefur skrifstofa Gróttu eða yfirþjálfari handknattleiksdeildar, Magnús Karl Magnússon á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Antoine framlengir til 2026

Antoine Óskar Pantano hefur skrifað undir nýjan samning við Handknattleiksdeild Gróttu sem gildir út tímabilið 2026. Antoine er 17 ára gamall leikstjórnandi og hefur heldur betur stimplað sig inn í Olísdeildina í vetur með góðri frammistöðu. Hann hefur skorað 11 mörk og skapað 22 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína í þeim 9 leikjum sem búnir eru.

Antoine Óskar er lykilleikmaður í U18 ára landsliði karla en liðið endaði endaði í 5.sæti á Opna Evrópumótinu í Svíþjóð og 5.sæti á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóveníu síðastliðið sumar.

Það eru miklar gleðifréttir að Antoine leiki í Gróttutreyjunni næstu árin enda framtíðarleikmaður meistaraflokks.

Ari Pétur framlengir til 2026

Ari Pétur Eiríksson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til ársins 2026. Ara Pétur þarf vart að kynna fyrir Gróttufólk enda hefur hann leikið 90 leiki fyrir félagið. Hann er 21 árs gamall og leikur sem hægri skytta. Ari Pétur hefur skorað 17 mörk sem af er Olísdeildarinnar. Þess fyrir utan er hann með 28 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína.

Ari Pétur hefur leikið með flestum yngri landsliðum Íslands. Það eru gleðifréttir að Ari Pétur verði áfram í herbúðum Gróttu. Miklar vonir eru bundnar við þennan uppalda Gróttumann og verður spennandi sjá hann næstu misserin.