Þorrablótinu frestað !

Þorrablót Gróttu sem árlega fer fram í janúar fellur því miður niður vegna áhrifa heimsfaraldurs. Þetta er annað árið í röð sem fella þarf niður þorrablót Gróttu sem hefur verið gríðarlega vinsæll viðburður. Tekjutapið fyrir deildir félagsins er umtalsvert en þessi viðburður hefur verið mikilvægur hlekkur í félagslífi Gróttufólks undanfarin ár og þykir okkur því afar leitt að þurfa að aflýsa þorrablótinu. Við munum blása til viðburðar á vegum félagsins um leið og tækifæri gefst.

Arnar Daði þjálfari ársins 2021

Arnar Daði Arnarsson er þjálfari ársins 2021 hjá Gróttu. 

Úr umsögn handknattleiksdeildar:
Arnar Daði er fæddur árið 1992 og var ráðinn til Gróttu haustið 2019 á erfiðum tíma hjá Handknattleiksdeild Gróttu. Þá hafði liðið fallið úr úrvalsdeildinni og ekki bjartir tímar framundan. Fáir leikmenn voru samningsbundnir félaginu og elstu yngri flokkar Gróttu voru fámennir. Ný stjórn við og réð Arnar Daða sem þjálfara meistaraflokks karla. Arnar Daði hafði aldrei áður stýrt meistaraflokk en hafði sýnt frábæran árangur sem þjálfari yngri flokka. Á sínu fyrsta ári kom Arnar Daði liðinu aftur á meðal bestu liða landsins, í úrvalsdeildina sem vakti mikla athygli í handboltaheiminum.

Í fyrra lék liðið í úrvalsdeildinni og með fyrstu verkum Arnars Daða var að fá Maksim Akbachev sem aðstoðarþjálfara. Arnar Daði fékk til sín unga og efnilega leikmenn sem langaði að sanna sig og í bland við unga og efnilega Seltirninga gerðist hið ótrúlega, liðið hélt sæti sínu í deildinni um vorið. Sá árangur vakti mikla athygli enda Gróttuliðið ungt, efnilegt og lítill leikmannakostnaður sem fylgdi því. 

Núna í vetur er sama uppi á teningnum. Gróttuliðið er ungt, efnilegt og kostnaðarlítið. Liðið situr sem stendur í 10.sæti Olísdeildarinnar og hefur náð frábærum árangri í leikjunum hingað til. Grótta hefur tapað naumlega gegn bestu liðum landsins, unnið verðskuldað leiki gegn virkilega sterkum liðum og spilað feikilega skemmtilegan handbolta. Auk þess að þjálfa meistaraflokk, þjálfar Arnar Daði 3.flokks félagsins sem eru ungir leikmenn sem vonandi með tíð og tíma munu spila með meistaraflokki félagsins. Arnar Daði er ennfremur í þjálfarateymi ungmennaliðs Gróttu sem Maksim Akbachev stjórnar. Liðið situr þar á toppi 2.deildar.

Arnar Daði er mikill félagsmaður. Ekkert verk er of lítið eða of stórt fyrir hann. Hann hefur áhuga á öllu starfi deildarinnar eða félagsins ef því er að skipta. Hann tekur mikinn þátt í sjálfboðaliðstarfi félagsins, hvort sem það er mönnum dómara, dómgæsla, umgjörð á leikjum meistaraflokka eða hvað það sem viðkemur deildinni.

Kjartan Kári er íþróttamaður æskunnar 2021

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er íþróttamaður æskunnar árið 2021.
Hinn 18 ára Kjartan Kári er Gróttumaður í húð og hár sem átti frábært tímabil með Gróttu síðastliðið sumar. Hinn ungi og efnilegi Kjartan á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan var valinn efnilegasti leikmaður Gróttu á lokahófi meistaraflokkanna í haust. 

Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Kjartan spilaði fyrir íslenska U-19 ára landsliðið þegar liðið keppti í undankeppni EM, þar kom hann við sögu í öllum þremur leikjum liðsins. Kjartan spilaði einnig í þremur vináttulandsleikjum fyrir U-19 ára landsliðið á árinu. 

Nú á dögunum framlengdi Kjartan samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.

—-
Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.

Katrín Anna er íþróttakona æskunnar 2021

Katrín Anna Ásmundsdóttir er íþróttakona æskunnar fyrir árið 2021 hjá Gróttu.
Úr umsögn handknattleiksdeildar um Katrínu Önnu:
Katrín Anna er leikmaður meistaraflokks kvenna og 3.flokks félagsins. Hún er fædd árið 2004 og er örvhentur hornamaður. Þrátt fyrir ungan aldur er þetta þriðja tímabil Katrínar Önnu með meistaraflokki Gróttu. Hún skoraði 51 mark í deildinni í fyrra þegar liðið komst alla leið í úrslit í umspili um sæti í Olísdeildinni en tapaði í úrslitaeinvígi við Olísdeildarlið HK. Katrín Anna hefur sýnt með sinni frammistöðu að hún er einn albesti örvhenti hornamaður deildarinnar. Á lokahófi meistaraflokks í vor var Katrín Anna valinn efnilegasti leikmaður liðsins.

Katrín Anna hefur verið fastamaður í unglingalandslið Íslands og var tvívegis valin í keppnisferðir með liðinu á árinu. Í sumar lék U17 ára landslið Íslands í Litháen á Evrópumóti B-landsliða. Þar komst liðið alla leið í úrslitaleik en tapaði honum naumlega. Katrín Anna lék stórt hlutverk með liðinu og stóð sig frábærlega. Núna í haust var hún aftur valin og nú til keppni í Serbíu þar sem liðið lék við Slóvena, Slóvaka og Serba um laust sæti á Evrópumót A-landsliða næstkomandi sumar. Því miður tapaði liðið aftur úrslitaleik og nú gegn Serbíu. Aftur lék Katrín Anna vel með liðinu.
Katrín Anna er félagsmaður mikill og tekur virkan þátt í starfi félagsins. Í sumar þjálfari Katrín Anna í Handboltaskóla Gróttu og stóð sig vel þar.

Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. 
Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.

Pétur Theodór er íþróttamaður Gróttu 2021

Pétur Theodór Árnason  er íþróttamaður Gróttu árið 2021. 

Úr umsögn Knattspyrnudeildar um Pétur.
Pétur er 26 ára gamall og er fæddur og uppalinn Gróttumaður. Hann lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki aðeins 16 ára gamall en þá lék liðið 1. deild. Eftir að hafa orðið fyrir og loks sigrast á afar erfiðum meiðslum blés Pétur nýju lífi í ferilinn og gekk til liðs við Gróttu um mitt sumar 2018. Var Pétur mikilvægur hlekkur í að tryggja liðinu sæti í efstu deild, í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Eftir erfitt ár í efstu deild kom Pétur tvíefldur til baka sl. sumar og þegar yfir lauk hafði hann skorað 26 mörk í 23 leikjum í deild og bikar. Pétur var vafalaust einn af bestu mönnum liðsins og deildarinnar í sumar og hjó nærri um hálfrar aldar gömlu markameti í næst efstu deild. Frammistaða hans vakti athygli liða í efstu deild og eftir lok tímabils gekk hann í raðir Breiðabliks. 

Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. 

Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.


Nanna Guðmundsdóttir íþróttakona Gróttu 2021

Nanna Guðmundsdóttir er íþróttakona Gróttu árið 2021. 
Úr umsögn Fimleikadeildar um Nönnu. Nanna Guðmundsdóttir er í hópi fremstu áhaldafimleikakvenna landsins og hefur lagt mikið á sig til komast á þann stað sem hún er á í dag.  Nanna varð Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmótinu sem var haldið í mars. Þetta var hennar fyrsti Íslandsmeistaratitilll í fjölþraut í kvennaflokki. Nanna var valin í úrvalshóp kvenna hjá FSÍ árið 2021. Nanna var í landsliði Íslands á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem var haldið í Sviss dagana 21. – 25. apríl. Nanna var með besta árangur Íslenskra landsliðsins í fjölþraut og hæstu stig sem íslensk fimleikakona fékk á árinu. Hún fékk samtals 47,032 stig sem að eru hæstu stig sem hún hefur fengið í fjölþraut. Hennar besti árangur var á gólfi þar sem hún varð í 40. sæti af 91 keppanda.

Hún var í landsliði Íslands á Heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem var haldið í Japan dagana 18. – 24. október. Hún var efst íslenskra kvenna á einstökum áhöldum, en hún skoraði 12.000 stig á gólfi og fékk hrós frá yfirdómara á gólfi fyrir „perfect artistry“. Hún varð í 39. sæti af alls 82 keppendum. 


Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar. 

Smitgát og sóttkví í íþróttum

Af gefnu tilefni vil Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands minna á leiðbeiningar um smitrakningu í íþróttum sem má nálgast hér. Einnig er hægt að skoða viðmið smitrakningateymis hér á covid.is.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að smittölur í samfélaginu eru ansi háar þessa dagana og því hefur verið mikið að gera hjá smitrakningarteyminu. Ekki er alltaf hægt að ná í smitrakningarteymið til að fá svör og þegar upp kemur smit á æfingu eða í íþróttakeppni er gott ef þjálfarar og aðrir sem koma að skipulaginu séu meðvitaðir um ofangreindar leiðbeiningar og geti brugðist við á viðeigandi hátt.

Í leiðbeiningunum er hægt að sjá þau viðmið sem smitrakningarteymið notast við en auðvitað eru aðstæður mismunandi og geta verið flóknar í íþróttahreyfingunni. Ef upp kemur smit í ykkar röðum skulu þið endilega styðjast við leiðbeiningarnar og sinna þessu eftir bestu getu miðað við þær upplýsingar sem þið hafið hverju sinni.

Hér er hægt að lesa allt um smitgát og hér um sóttkví en að lokum er vert að benda á breyttar reglur um sóttkví fyrir einstaklinga sem hafa verið þríbólusettir eða fengið tvær bólusetningar og fengið COVID-19. Allt um nýja reglugerð í tengslum við sóttkví má lesa hér á vef Heilbrigðisráðuneytisins.

Ný lög um frádráttarbæra styrki til íþróttafélaga

Með nýjum lögum sem samþykkt voru 1. nóvember síðastliðinn geta einstaklingar nú styrkt Gróttu um allt að 350.000 krónur en að lágmarki 10.000 krónur á ári sem er frádráttarbært frá skattskyldum tekjum.

Fyrirtækjum er heimilt að draga frá skattstofni allt að 1,5% af rekstrartekjum.

Svona er ferlið:
Þú millifærir upphæð að eigin vali að lágmarki kr. 10.000 inn á reikning Gróttu:
0512-14-405405, kt. 700371-0779

Sendir tölvupóst með eftirfarandi upplýsingum á grotta@grotta.is

  • Nafn greiðanda
  • Kennitala greiðanda
  • Fjárhæð framlags
  • Greiðsludagur

Einnig þarf að tilgreina hvaða deild viðkomandi vill styrkja óski greiðandi eftir því, annars fara öll framlög í sérstakan sjóð sem aðalstjórn síðan úthlutar til allra deilda.

Grótta gefur út kvittun til greiðanda þar sem kemur fram nafn og kennitala greiðanda og fjárhæð framlags.

Til að geta nýtt sér heimildina fyrir 2021 þarf greiðsla að hafa borist fyrir 30. desember nk.

Íþróttafélagið Grótta þakkar kærlega fyrir allan ómetanlegan stuðning í gegnum tíðina.

Jólakort Gróttu 2021

Jólakortsamkeppni Gróttu var haldin í þriðja skipti nú fyrir jólin. 
Eins og fyrri árin efndum við til teiknisamkeppni í 4. bekk Mýrarhúsaskóla um að velja teikningu sem myndi príða jólakortið í ár.
Guðmunda Margrét Jónsdóttir átti teikninguna sem varð hlutskörpust og hún prýðir jólakort félagsins árið 2021.   Auk þess voru veitt verðlaun fyrir 3 aðrar teikningar en þær teiknuðu Elmar Darri Magnússon, Sólveig Kristjana Hafstein og Sylvía Guðrún Sölvadóttir. Við viljum þakka skólastjórnendum í Mýrarhúsaskóla fyrir samstarfið í ár og er þessi viðburður orðinn hefð hjá félaginu.

Guðmunda Margrét Jónsdóttir
Guðmunda Margrét Jónsdóttir teiknaði Jólakort Gróttu 2021.