Handknattleiksdeild Gróttu auglýsir eftir þjálfurum til starfa hjá yngri flokkum félagsins. Nánari upplýsingar og umsóknir sendast á Andra Sigfússon yfirþjálfara á netfangið andri@grotta.is
Frábær ferð til Þýskalands
Í byrjun júní hélt 3.flokkur karla í æfinga- og keppnisferð til Þýskalands. Liðið dvaldi í Leipzig fyrri hluta ferðarinnar þar sem liðið æfði og lék þrjá æfingaleiki gegn unglinga- og ungmennaliðum félagsins. Fyrsti leikurinn var gegn B-jugend liðinu. Okkar strákar léku við hvern sinn fingur og uppskáru góðan 23-40 sigur þar sem allir útileikmenn skoruðu og markmennirnir dreifðu markvörslunni á milli sín.
Daginn eftir léku strákarnir gegn U23 ára liði Leipzig. Um var að ræða hörkuleik gegn öflugu liði. Því miður tapaðist leikurinn 31-24 og segja má að Akkilesarhæll liðsins hafi verið færanýting. Seinasti æfingaleikur Gróttu var gegn A-jugend liði Leipzig. Eftir hraðan og skemmtilegan leik voru það okkar menn sem uppskáru fimm marka sigur, 35-40.
Á meðan liðið dvaldi í Leipzig bauð Gróttumaðurinn Viggó Kristjánsson leikmaður Leipzig liðinu heim til sín í grillveislu. Við þökkum honum kærlega fyrir heimboðið og gestrisnina.
Seinni hluti ferðarinnar var í Köln þar sem strákarnir fylgdust með Final 4 í meistaradeildinni. Þar horfðu þeir á undanúrslitin og úrslitaleikina í stórkostlegri Lanxess-höllinni. Eftir mikla baráttu voru það Barcelona sem voru sterkastir eftir æsispennandi úrslitaleik.
Ferðin stóð yfir í rúmlega viku og heppnaðist frábærlega. Hún skilur án efa eftir góðar minningar hjá strákunum.
Ungir og efnilegir skrifa undir
Grótta hefur framlengt samninga sína til tveggja ára við unga og efnilega leikmenn félagsins sem hluta af uppbyggingu félagsins. Allir leikmennirnir eru lykilleikmenn í 3.flokki og U-liði félagsins. Leikmennirnir eru Alex Kári Þórhallsson, Gísli Örn Alfreðsson, Hannes Pétur Hauksson og Sverrir Arnar Hjaltason.
* Alex Kári er 18 ára gamall. Hann örvhentur og getur bæði leikið sem skytta og hornamaður. Hann er klókur leikmaður og spilar vel upp á félaga sína í liðinu.
* Gísli Örn er 17 ára gamall og getur bæði leikið sem leikstjórnandi og skytta. Hann er góður skotmaður, fylginn sér og öflugur beggja megin vallarins.
* Hannes Pétur er 18 ára gamall og er hávaxinn markvörður. Hann hefur góðar staðsetningar, les skotin vel og hefur góða sendingagetu.
* Sverrir Arnar er 16 ára gamall og er línumaður. Hann er nautsterkur, viljugur og hefur stigið stór framfaraskref síðastliðinn vetur.
Gísli og Hannes hafa hlotið eldskírn sína í Olísdeildinni á meðan Alex og Sverrir eiga hana eftir og vonandi kemur hún á næstu misserum.
Grótta er virkilega ánægt með samningana enda eru þeir mikilvægur liður í framtíðaráformum félagsins.
„Við erum mjög ánægðir að vera búnir að semja við þessa ungu stráka. Þessir strákar hafa flestir verið viðloðandi meistaraflokkinn síðastliðinn vetur og því eðlileg þróun að þeir stígi næsta skref og verði partur af uppbyggingunni,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.
Sumaræfingatafla knattspyrnudeildar tekur gildi 10. júní
Frábært frammistaða í bikarúrslitum
6.flokkur kvenna yngri og 6.flokkur karla eldri léku sunnudaginn 10.mars í bikarúrslitum í Laugardalshöllinni.
Andstæðingar stelpnanna voru Valur. Fjölmargir áhorfendur gerðu leið sína í Laugardalshöllina til að fylgjast með stelpunum. Eftir mikla baráttu gegn frábæru liði, þá þurftu okkar stelpur að sætta sig við silfrið að þessu sinni. Lokatölur voru 2-7 fyrir Val. Gróttustelpurnar geta þrátt fyrir úrslitin verið hrikalega sáttar enda börðust þær eins og ljón allan leikinn og ekki sjálfgefið að komast alla leið í úrslitaleikinn. Vonandi nýta þær sér þessa reynslu til að halda áfram að bæta sig, þetta er rétt að byrja !
Andstæðingar strákanna voru FH. Strákarnir komu reynslunni ríkari í Laugardalshöllina eftir svekkjandi tap í úrslitaleik fyrir ári síðan. Liðið lék á bikarmóti HSÍ í janúar og núna fór fram úrslitaleikurinn í því móti. Baráttan og leikgleðin skein úr andliti strákanna í dag sem fengu góðan stuðning fjölmargra áhorfenda. Gróttustrákarnir uppskáru sigur, 8-5 eftir frábæran leik.
Grótta í bikarúrslitum
Um helgina fara fram bikarúrslit í öllum keppnisflokkum HSÍ. Við í Gróttu eigum tvö lið í úrslitum en það eru 6.flokkur karla eldri og 6.flokkur kvenna yngri.
Allir úrslitaleikirnir fara fram við glæsilega umgjörð í Laugardalshöllinni. Báðir leikir Gróttu fara fram á laugardeginum.
6.flokkur kvenna yngri
Grótta – Valur
Laugardaginn 8.mars
kl. 09:45
6.flokkur karla eldri
Grótta – FH
Laugardaginn 8.mars
kl. 11:15
Við hvetjum allt Gróttufólk til að fjölmenna í Laugardalshöllina og hvetja okkar upprennandi leikmenn til dáða.
Áfram Grótta !
Grótta óskar eftir þjálfurum
Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála
Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.
Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.
Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.
Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.
„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.
„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.
Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.
Myndir: Eyjólfur Garðarsson
Handboltaskóli Gróttu/KR
Í vetrarleyfinu verður boðið upp á handboltaskóla í Hertz-höllinni fyrir krakka f. 2012-2017 eða þá sem eru í 1. – 6.bekk. Skólinn er kl. 09:00-12:00 og eru krakkarnir beðnir um að taka með sér nesti. Byrjendur jafnt sem lengra komnir eru velkomnir.
Námskeiðsdagarnir eru:
Föstudagurinn 16.febrúar
Mánduagurinn 19.febrúar
Skráning fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti
Aufí á leið til Portúgals með U17 ára landsliðinu
Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U17 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í milliriðli Evrópumóts UEFA í Portúgal dagana 19.-28.febrúar 2024. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Hin 15 ára Aufí lék einnig með U17 í undankeppni EM í október sl.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal!