Vivaldi framlengir styrktarsamning sinn

Vivaldi á Íslandi hefur gert tveggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu vegna barna- og unglingastarf deildarinnar. Samkvæmt samningnum munu vörumerkin Vivaldi og Arna prýða keppnisbúninga yngri flokka Gróttu næstu tvö árin.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Við tilefnið afhenti Bragi Björnsson, formaður Gróttu, Jóni bronsmerki félagsins sem honum var veitt í byrjun árs, fyrir stuðning sinn við knattspyrnudeildina í gegnum árin.

6. flokkur karla á Njarðvíkurmótinu og með bikar heim

6. flokkur karla skellti sér á Njarðvíkurmótið síðustu helgi. Grótta tefldi fram 5 liðum á mótinu en spilað var í Reykjaneshöllinni. Fallegur fótbolti og leikgleði var fremst í flokki og allir leikmenn stóðu sig með prýði. Lið Gróttu í Ensku-deildinni gerði sér svo lítið fyrir og vann sína deild á mótinu 👏🏼🏆

7. flokkur karla og kvenna á Krónumóti HK

7. flokkar Gróttu skemmtu sér vel á Krónumóti HK helgina 16.-17. nóvember. 7. flokkur karla spilaði í Kórnum á laugardeginum og tefldu drengirnir fram sjö liðum en stelpurnar spiluðu í fimm liðum á sunnudeginum.

Þetta var fyrsta vetrarmótið hjá flokkunum og því mikil tilhlökkun sem stóðst allar væntingar. Sigrar, töp en umfram allt mikil stemning.

4. flokkur kvenna deildarmeistarar í A og B liðum

A og B lið 4. flokks kvenna náðu þeim glæsta árangri í ágúst að verða deildarmeistarar í bæði A og B liðum! A-liðið endaði í 1. sæti eftir að hafa unnið alla sína 12 leiki. Emelía Óskarsdóttir var markahæst í deildinni með 24 mörk, og á eftir henni er Ísabella Sara með 20 mörk, sem er KR megin í liðinu. B-liðið var einnig í 1. sæti með 34 stig eftir 14 leiki. Marín Jóhannsdóttir var þar markahæst með 19 mörk, en hún er KR megin. B-liðið innsiglaði sigurinn með 6-3 sigri gegn Selfoss/Ham/Æg/KFR á KR-vellinum í gær en A-liðið vann einnig sama lið 3-0 í gær.

Knattspyrnudeild Gróttu óskar stelpunum og Bjössa og Íunni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Áfram Grótta/KR!