Grótta leitar að framkvæmdastjóra

Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

·        Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum

·        Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna

·        Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins

·        Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir

·        Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins

·        Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið

·        Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins

·        Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra

·        Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur

·        Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins

·        Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins

·        Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila

·        Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda

·        Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfniskröfur

·        Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni

·        Háskólamenntun sem nýtist í starfi

·        Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum

·        Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf

·        Sjálfstæð og öguð vinnubrögð

·        Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is

Jólablað knattspyrnudeildar Gróttu er komið út í tólfta sinn

Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!

Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.

Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙

Sara Björk á leið til Póllands með U15 ára landsliðinu!

Gróttukonan Sara Björk er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið fyrir UEFA development mót í Póllandi dagana 2. – 9.október. Hópurinn mun æfa tvisvar sinnum áður en haldið er til Pólland og fara þær æfingar fram 30. september og 1. október í Miðgarði.
Til hamingju Sara og gangi þér vel! 💪🏽💙

Óliver Dagur Thorlacius er kominn í 100 leikja klúbb Gróttu

Óliver Degi var veittur blómvöndur fyrir leik Gróttu og Kórdrengja þann 2. september sl. í tilefni þess að hann hefur spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Óliver kom til félagsins frá KR árið 2018 og hefur verið lykilleikmaður í liðinu síðan. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Óliver innilega til hamingju með þennan merka áfanga.


Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Einar Baldvin framlengir við Gróttu

Markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hefur framlengt samning sinn við Gróttu til tveggja ára. Einar Baldvin er uppalinn í Fossvoginum hjá Víkingi en hann lék með Val og Selfoss áður en hann kom til Gróttu síðastliðið sumar. Einar Baldvin átti frábært tímabil með Gróttu í vetur og var með þriðju bestu hlutfallsmarkvörsluna í Olísdeldinni eða 30,9%. Einar Baldvin var ennfremur markahæsti markmaður deildarinnar með 8 mörk.

Það eu mikil gleðitíðindi að Einar Baldvin verði áfram í herbúðum Gróttu enda frábær markmaður með mikinn metnað.

Jakob Ingi framlengir

Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jakob er fæddur árið 1997 og leikur í vinstra horninu. Jakob kom til Gróttu árið 2019 frá Aftureldingu en hann er uppalinn í Breiðholtinu hjá ÍR.

Jakob skoraði 20 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni í vetur og myndaði frábært hornapar í vinstra horninu með Andra Þór Helgasyni. Jakob nýtir færin næstbest allra í Olísdeildinni en af þeim leikmönnum sem skoruðu fleiri en 3 mörk í deildinni, þá er hann með næstbestu nýtinguna eða 87%.

Það eru gleðileg tíðindi að Jakob Ingi verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær hornamaður sem við bindum vonir við að haldi áfram að dafna á Nesinu.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Mér hefur liðið vel í félaginu á undanförnum árum og næsta tímabil stefnir í veislu“, sagði Jakob Ingi við undirskriftina.

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼