Tæplega þrjátíu Gróttustrákar úr 6. flokki karla skelltu sér á Sauðárkrók um helgina og léku á Króksmóti Tindastóls. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig mjög vel og uppskáru eftir því. Að sögn þjálfaranna spiluðu strákarnir geggjaðan fótbolta á Sauðárkróki! Lið Gróttu hétu eftir meistaraflokks leikmönnum til að vekja athygli drengjanna á þeim fyrirmyndum sem þeir hafa innan félagsins. Liðin hétu Addi Bomba, Kristófer Orri, Arnþór Páll, Kjartan Kári og Júlí Karls.
Tómas Johannessen til Ungverjalands með U17
Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U17 karla, hefur valið leikmannahóp til þátttöku í alþjóðlegu móti í Telki í Ungverjalandi dagana 14.-21. ágúst n.k.
Alls hafa 20 leikmenn verið valdir í hópinn og koma þeir frá 15 félögum. Einn þeirra er Gróttumaðurinn Tómas Johannessen sem er einungis 15 ára. Vel gert Tómas og gangi þér vel!
4. flokkur kvenna í 3. sæti á Rey Cup
4. flokkur kvenna tók þátt í Rey Cup sem var haldið í 21. sinn í Laugardalnum í lok júlí og sendi Grótta/KR tvö lið til leiks að þessu sinni. Bæði lið stóðu sig með prýði á mótinu og enduðu bæði liðin í 3. sæti í sínum styrkleikaflokki. Spilað var frá miðvikudegi til sunnudags á vallarsvæði Þróttar. Grótta/KR 1 tapaði naumlega 1-0 fyrir KA á laugardeginum og spilaði því upp á 3. sætið á sunnudeginum. Stelpunum tókst að landa bronsinu með 2-1 sigri á Þór. Grótta/KR 2 spilaði einnig um 3. sætið á sunnudeginum og unnu KF/Dalvík 2-1 og tókst þeim með sigrinum að næla sér í 3. sætið líkt og samherjum sínum. Stelpurnar skemmtu sér vel á mótinu, innan sem utan vallar, og spiluðu fallegan fótbolta. Liðin stóðu sig bæði vel og gaman að uppskera 3. sætið eftir hörkuleiki.
Vel gert stelpur!
3. flokkur kvenna alla leið í 8-liða úrslit á Gothia Cup
3. flokkur kvenna fór í júlí til Svíþjóðar þar sem Gothia Cup, eitt stærsta fótboltamót heims fer fram. Stelpurnar unnu fyrstu þrjá leikina sína, 1-0 gegn sænsku liði, 3-0 gegn þýsku liði og síðan 4-0 gegn sænsku liði og komust upp úr riðlinum sínum og í 16-liða úrslit. Í 16-liða úrslitum mættu þær sænska liðinu Mjölby AI/FF og var staðan 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Þá var farið í vítaspyrnukeppni þar sem Grótta/KR bar sigur úr býtum, en mörk Gróttu/KR skoruðu Katla, Íris, Rakel og Jóhanna. Gaman er að segja frá því að fram að vítaspyrnukeppninni höfðu markmennirnir okkar, Helena og Júlíana, ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum leikjunum. Síðar sama dag var strax komið að 8-liða úrslitunum og mættu stelpurnar þar gríðarlega sterku liði frá Noregi, Arna-Bjørnar, þar sem Grótta/KR beið lægri hlut. Arna-Bjørnar stóðu síðan upp sem sigurvegarar á mótinu í 3. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel í miklum hita og spiluðu vel saman. Þær nýttu frítímann einnig vel, kíktu á ströndina, fóru í Liseberg, versluðu og nutu samverunnar. Þær mega vera stoltar af sinni frammistöðu og þeim árangri sem þær náðu á mótinu og óskum við þeim til hamingju með hann!
Tveir leikmenn Gróttu og þjálfarinn í úrvalsliðinu
Grótta á tvo fulltrúa í úrvalsiði fyrri hluta Lengjudeildarinnar ásamt því að þjálfari fyrri hlutans er þjálfari Gróttu, Chris Brazell!
Kjartan Kári Halldórsson var valinn leikmaður fyrri hlutans en þessi 19 ára Seltirningur er langmarkahæstur í deildinni með 12 mörk. Fyrirliði Gróttu, Arnar Þór Helgason, er einnig í úrvalsliðinu í hjarta varnarinnar.
Grótta situr eins og stendur í 2. sæti Lengjudeildarinnar og er næsti leikur hjá drengjunum á laugardaginn þegar þeir halda til Ísafjarðar og mæta Vestra.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
5. flokkur karla á N1 mótinu
5. flokkur karla hélt á hið víðfræga N1 mót á Akureyri í lok júní eins og vaninn hjá Gróttu er. Grótta fór með fjögur lið á mótið sem fór fram 29. júní til 2. júlí. Mikil eftirvænting hafði verið fyrir mótinu hjá drengjunum eins og eðlilegt er, enda hápunktur fótboltasumarsins. Öll liðin upplifðu töp og sigra og eitt og annað sem fór í reynslubankann. Eitt Gróttuliðið fór heim með bikar að móti loknu eftir að hafa lent í 3. sæti í Brasilísku-deildinni sem uppskar mikla gleði!
Annað Gróttulið komst í undanúrslit í Kólumbísku-deildinni en komst því miður ekki lengra en það. Strákarnir fóru þó sáttir heim eftir skemmtilega dvöl á Akureyri í góðra vina hópi þar sem fótbolti var spilaður fram á kvöld og ógleymanlegar minningar skapaðar.
Rúmlega 70 Gróttustelpur á Símamótinu
Rúmlega 70 Gróttustelpur spiluðu á Símamótinu helgina 8.-10. júlí, stærsta fótboltamóti landsins, sem er haldið ár hvert í Kópavogi. Grótta fór með 11 lið á mótið, fjögur úr 7. flokki, fimm úr 6. flokki og tvö úr 5. flokki. Leikið var á vallarsvæðum Breiðabliks föstudag, laugardag og sunnudag en mótið hófst með skrúðgöngu á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld. Símamótið verður að teljast hápunktur ársins hjá knattspyrnustúlkum um allt land, þar sem fótbolti er spilaður í þrjá daga og ógleymanlegar minningar skapaðar. Gróttustelpur mættu ákveðnar til leiks, sýndu dugnað og baráttuvilja og spiluðu fallegan fótbolta. Gróttuliðin hétu öll eftir leikmönnum meistaraflokks kvenna líkt og í fyrra og skapaði það góða stemningu. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum kíktu leikmenn meistaraflokks kvenna á sín lið um helgina sem vakti mikla lukku meðal stelpnanna.
Eitt Gróttulið fór heim með bikar og eitt með silfurmedalíu, en öll liðin stóðu sig ótrúlega vel. Grótta Edda Steingríms í 6. flokki sigldi sigri heim í úrslitaleik gegn Víking. Leikurinn fór 4-3 og var gríðarlega spennandi en sigurmarkið var skorað á síðustu mínútunni. Grótta Tinna Bjarkar í 6. flokki komst einnig í úrslit en tapaði naumlega 3-2 gegn Stjörnunni í úrslitaleik og þurftu stelpurnar að sætta sig við silfrið eftir ótrúlegan baráttuleik. Grótta Lilja Lív í 6. flokki komst alla leið í undanúrslit í hæsta styrkleikaflokki 6. flokks á mótinu en laut lægra haldi fyrir Val í undanúrslitum, 3-2, eftir hörkuleik. Grótta Lilja Lív mega þó vera stoltar af því að hafa verið meðal top fjögurra liða af 160 liðum í 6. flokki á mótinu, en Grótta er svo sannarlega hreykið af þeim árangri. Grótta Margrét Rán í 5. flokki komst einnig í undanúrslit og nældi sér í 3. sætið eftir góðan sigur gegn FH.
Gróttustúlkur höfðu beðið lengi í eftirvæntingu eftir Símamótinu og það má segja að það hafi heldur betur staðið undir væntingum. Stelpurnar skemmtu sér vel og eru eflaust farnar að telja niður í næsta Símamót!
6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum
Eldra ár 6. flokks karla skellti sér á Orkumótið í Eyjum dagana 23.-25. júní. Grótta fór með þrjú lið á mótið og skemmtu drengirnir sér gríðarlega vel í Vestmannaeyjum!
Halda áfram að lesa3. flokkur kvenna komnar í undanúrslit bikarsins
3. flokkur kvenna eru komnar áfram í undanúrslit bikarsins!!💪🏼🏆
Grótta/KR vann öruggan sigur á Fjölni í 8-liða úrslitum bikarsins í gær á KR-velli en leikurinn fór 5-1 fyrir heimastúlkum. Mörk Gróttu/KR skoruðu Katla Guðmundsdóttir (3), Helga Sif Bragadóttir og Rakel Grétarsdóttir ⚽️
Vel gert stelpur! 👊🏼
Tinna fyrst í meistaraflokki kvenna til að spila 100 leiki
Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, náði þeim merka áfanga þann 18. júní sl. að spila sinn 100. leik fyrir Gróttu en hún er fyrsti leikmaður meistaraflokks kvenna sem nær þeim áfanga!
Fyrir leik Gróttu og Álftanes í gær var Tinnu veittur blómvöndur frá knattspyrnudeildinni í tilefni dagsins. Leikurinn endaði þó í svekkjandi 1-1 jafntefli en María Lovísa Jónasdóttir skoraði eina mark Gróttu.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tinnu innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga!