6. og 7. flokkur kvenna á Krónumóti HK

6. og 7. flokkur kvenna Gróttu kepptu á Krónumóti HK um helgina sem fór fram í Kórnum. Á laugardeginum spilaði 6. flokkur kvenna en þær tefldu fram 5 liðum á mótinu. Á sunnudeginum var svo komið að 7. flokki kvenna en þær voru með fjögur lið. Sumar voru að spila á sínu fyrsta alvöru fótboltamóti en þær höfðu allar beðið lengi spenntar eftir þessum degi, enda ansi langt síðan síðasta mót var. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel og ljóst að framtíðin er björt hjá Gróttu. Fleiri myndir má sjá á instagram.com/grottasport og á Facebook síðu Gróttu knattspyrna.

7. flokkur karla á Krónumóti HK


Rúmlega 30 Gróttustrákar úr 7. flokki karla fengu loksins að fara á fótboltamót þegar Krónumót HK var haldið í Kórnum í gær. Grótta fór með 6 lið á mótið og stóðu drengirnir sig allir með prýði. Mikil gleði var á mótinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en fleiri myndir má sjá á instagram síðu fótboltans (grottasport) og á facebook (Grótta Knattspyrna).

Hákon í æfingahóp U21 árs landsliðsins

Hákon Rafn Valdimarsson er í æfingahóp U21 árs landsliðsins sem æfir saman dagana 3. og 4. mars.  

U21 karla leikur í lokakeppni EM 2021 í lok mars, en liðið er í riðli með Rússlandi, Frakklandi og Danmörku. Tvö efstu lið riðilsins fara svo áfram í átta liða úrslit, en þau fara fram í júní ásamt undanúrslitum og úrslitum. Mótið fer fram í Slóveníu og Ungverjalandi, en Ísland leikur alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni í Györ í Ungverjalandi.

Björn Axel og Birkir semja við Gróttu

Björn Axel hefur snúið aftur í sitt uppeldisfélag en hann skrifaði á dögunum undir samning um að leika með Gróttu á komandi keppnistímabili. Björn Axel er 26 ára sóknarmaður sem á að baki 73 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 35 mörk, þar af 20 leiki fyrir Gróttu. Björn Axel spilaði með Gróttu árin 2015, 2018 og 2019 en hann hefur einnig spilað með KV, Njarðvík, KFR og KFS.

Hinn 19 ára Birkir Rafnsson skrifaði undir tveggja ára samning við Gróttu nú á dögunum. Birkir er uppalinn Gróttumaður en meðfram því að spila með 2. flokki á síðasta ári lék hann einnig með Kríu. Þar spilaði Birkir 15 leiki og skoraði í þeim þrjú mörk.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að fá Björn Axel aftur í félagið og því að hafa samið við Birki.

Rakel Lóa valin í æfingahóp U17 ára landsliðsins

Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin á æfingar hjá U17 ára landsliði kvenna dagana 22.-24. febrúar. Æfingarnar fara fram í Skessunni undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar, landsliðsþjálfara U17 kvenna. Við óskum Rakel innilega til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum 👊🏼

Lilja, Lilja og Emelía valdar í æfingahóp U16

Þær Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lilja Lív Margrétardóttir og Emelía Óskarsdóttir hafa verið valdar til að taka þátt í úrtaksæfingum hjá U16 kvenna dagana 15.-17. febrúar. Innilega til hamingju með valið stelpur!