Hundahlaupið fór fram í gær

Alls tóku tæplega 100 hundaeigendur ásamt hundum sínum þátt í hundahlaupi UMFÍ og Non-stop dogwear sem fór fram síðdegis í gær.  Íþróttafélagið Grótta tók þátt í framkvæmd hlaupsins sem fór mjög vel fram og var mikil ánægja með hvernig til tókst.

Í boði voru tvær hlaupaleiðir, 2 kílómetra og 5 kílómetra hlaup og var ræst út á túninu við smábátahöfnina, leiðin lá út Bakkagranda og sú lengri í kringum Bakkatjörn. 

Hundahlaupið markar tímamót því þetta er fyrsta skiptið sem íþróttahreyfingin og hundaeigendur snúa bökum saman og standa að skemmtilegum viðburði.

Sjá fleiri myndir á https://www.facebook.com/grottasport

Drengir úr 3.flokki Gróttu í knattspyrnu stóðu vaktina í hundahlaupinu
Þór bæjarstjóri var mættur

Minningarleikur Ása

Miðvikudaginn 7.september fer fram minningarleikur Ása en þá mætast Grótta og U18 ára landslið kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:30 og fer fram í Íþróttahúsi Gróttu, Hertz-höllinni.

Allir handboltaunnendur og aðrir sem vilja minnast Ása eru hvattir til að mæta.

Aðangaseyrir er 1000 kr eða frjáls framlög. Sjoppusala verður á staðnum og mun öll sjoppusala og aðgangseyrir renna í styrktarsjóð barna hans: 512-26-204040, kt. 700371-0779.

Ásmundur Einarsson var formaður Handknattleiksdeildar Gróttu. Hann vann mikið og gott starf allan sinn tíma í félaginu, fyrst í barna- og unglingaráði og síðan heimaleikjaráði og formennsku Handknattleiksdeildar. Ási var bráðkvaddur 24.júlí sl. langt fyrir aldur fram.

Æfingar hefjast í handboltanum

Á mánudaginn, 22.ágúst, hefjast handboltaæfingar hjá öllum flokkum í Gróttu. Við hvetjum alla krakka til að koma á æfingar strax frá upphafi. Við vonumst til að sjá alla iðkendurna frá því í fyrra og þeir krakkar sem vilja koma og prófa eru sérstaklega boðin velkomin. Frítt er að prófa handboltaæfingar í ágúst. Þjálfarar taka vel á móti krökkunum.

Æfingatöfluna má sjá hér fyrir neðan en einnig eru allar æfingar komnar inn í Sportabler. Búið er að opna fyrir skráningar í Sportabler. Allir iðkendur fá nýjan keppnisbúning frá Craft núna í haust en sérstakur mátunardagur verður auglýstur síðar.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Maksim yfirþjálfara á netfangið maksim@grotta.is

Áfram Grótta !

Æfingar hjá 9.flokki hefjast aftur

Æfingarnar í 9.flokki sem slógu í gegn í fyrra hefjast aftur í byrjun september. Æfingarnar verða kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfar verða þær Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu.

Skráning fyrir haustönnina er hafin og fer fram í gegnum Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

6. flokkur karla á Króksmótinu

Tæplega þrjátíu Gróttustrákar úr 6. flokki karla skelltu sér á Sauðárkrók um helgina og léku á Króksmóti Tindastóls. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig mjög vel og uppskáru eftir því. Að sögn þjálfaranna spiluðu strákarnir geggjaðan fótbolta á Sauðárkróki! Lið Gróttu hétu eftir meistaraflokks leikmönnum til að vekja athygli drengjanna á þeim fyrirmyndum sem þeir hafa innan félagsins. Liðin hétu Addi Bomba, Kristófer Orri, Arnþór Páll, Kjartan Kári og Júlí Karls.

Tómas Johannessen til Ungverjalands með U17

Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U17 karla, hefur valið leikmannahóp til þátttöku í alþjóðlegu móti í Telki í Ungverjalandi dagana 14.-21. ágúst n.k.
Alls hafa 20 leikmenn verið valdir í hópinn og koma þeir frá 15 félögum. Einn þeirra er Gróttumaðurinn Tómas Johannessen sem er einungis 15 ára. Vel gert Tómas og gangi þér vel!

4. flokkur kvenna í 3. sæti á Rey Cup

4. flokkur kvenna tók þátt í Rey Cup sem var haldið í 21. sinn í Laugardalnum í lok júlí og sendi Grótta/KR tvö lið til leiks að þessu sinni. Bæði lið stóðu sig með prýði á mótinu og enduðu bæði liðin í 3. sæti í sínum styrkleikaflokki. Spilað var frá miðvikudegi til sunnudags á vallarsvæði Þróttar. Grótta/KR 1 tapaði naumlega 1-0 fyrir KA á laugardeginum og spilaði því upp á 3. sætið á sunnudeginum. Stelpunum tókst að landa bronsinu með 2-1 sigri á Þór. Grótta/KR 2 spilaði einnig um 3. sætið á sunnudeginum og unnu KF/Dalvík 2-1 og tókst þeim með sigrinum að næla sér í 3. sætið líkt og samherjum sínum. Stelpurnar skemmtu sér vel á mótinu, innan sem utan vallar, og spiluðu fallegan fótbolta. Liðin stóðu sig bæði vel og gaman að uppskera 3. sætið eftir hörkuleiki.
Vel gert stelpur!

3. flokkur kvenna alla leið í 8-liða úrslit á Gothia Cup

3. flokkur kvenna fór í júlí til Svíþjóðar þar sem Gothia Cup, eitt stærsta fótboltamót heims fer fram. Stelpurnar unnu fyrstu þrjá leikina sína, 1-0 gegn sænsku liði, 3-0 gegn þýsku liði og síðan 4-0 gegn sænsku liði og komust upp úr riðlinum sínum og í 16-liða úrslit. Í 16-liða úrslitum mættu þær sænska liðinu Mjölby AI/FF og var staðan 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Þá var farið í vítaspyrnukeppni þar sem Grótta/KR bar sigur úr býtum, en mörk Gróttu/KR skoruðu Katla, Íris, Rakel og Jóhanna. Gaman er að segja frá því að fram að vítaspyrnukeppninni höfðu markmennirnir okkar, Helena og Júlíana, ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum leikjunum. Síðar sama dag var strax komið að 8-liða úrslitunum og mættu stelpurnar þar gríðarlega sterku liði frá Noregi, Arna-Bjørnar, þar sem Grótta/KR beið lægri hlut. Arna-Bjørnar stóðu síðan upp sem sigurvegarar á mótinu í 3. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel í miklum hita og spiluðu vel saman. Þær nýttu frítímann einnig vel, kíktu á ströndina, fóru í Liseberg, versluðu og nutu samverunnar. Þær mega vera stoltar af sinni frammistöðu og þeim árangri sem þær náðu á mótinu og óskum við þeim til hamingju með hann!

Minningarorð – Ásmundur Einarsson

Fallinn er frá einstakur Gróttumaður í blóma lífsins, Ásmundur Einarsson. Ási eins og hann var jafnan kallaður, var ákveðinn, glaðlyndur og heilsteyptur maður sem sinnti föðurhlutverkinu af stakri prýði.  Það var því sjálfgefið hjá Ása að leggja Gróttu lið þegar yngsta dóttir hans kom til félagsins frá KR.  Frá þeim degi átti félagið því láni að fagna að njóta starfskrafta hans. Alla tíð vildi hann veg félagsins sem mestan og lagði sitt að mörkum til þess. Fyrst með störfum í barna- og unglingaráði handknattleiksdeildar Gróttu, síðan sem fulltrúi í heimaleikjaráði meistaraflokks og nú síðustu misseri sem formaður handknattleiksdeildar Gróttu. Ási tók að sér þau störf sem þörf var fyrir hverju sinni og sinnti þeim af stakri samviskusemi og vandvirkni. Ekkert verkefni var of lítið eða of stórt fyrir Ása sem hoppaði í öll verk með bros á vör. Fyrir þessi óeigingjörn störf í þágu félagsins var Ási sæmdur bronsmerki Gróttu árið 2021.

Grótta saknar vinar í stað og harmar einstakan liðsmann. Mestur er þó missir fjölskyldu hans. Stjórn Gróttu færir þeim einlægar samúðarkveðjur, ekki síst Katrínu Önnu dóttur hans sem leikur með meistaraflokki félagsins, með djúpri þökk fyrir ómetanlegt starf Ása á liðnum árum.