Lokahóf meistaraflokka Gróttu

Laugardaginn 14.maí fór fram lokahóf meistaraflokka Gróttu í handbolta. Þar komu leikmenn, þjálfarar, stjórn og sjálfboðaliðar og fögnuðu góðu tímabili.Á lokahófinu voru þeir leikmenn verðlaunaðir sem þóttu skara fram úr í vetur.

Meistaraflokkur kvenna

Efnilegasti leikmaður – Lilja Hrund Stefánsdóttir
Mikilvægasti leikmaður – Valgerður Helga Ísaksdóttir
Besti leikmaður – Rut Bernódusdóttir

______________________

Meistaraflokkur karla

Mikilvægasti leikmaður – Andri Þór Helgason
Mikilvægasti leikmaður – Einar Baldvin Baldvinsson
Besti leikmaður – Birgir Steinn Jónsson

______________________

Ungmennalið karla

Mikilvægasti leikmaður – Oliver Magnússon
Besti leikmaður – Daníel Andri Valtýsson

______________________

Því næst voru leikmenn heiðraðir sem höfðu leikið 50 leiki fyrir Gróttu. Það voru þau:

Anna Katrín Stefánsdóttir
Ari Pétur Eiríksson
Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir
Jakob Ingi Stefánsson
Katrín Anna Ásmundsdóttir
Valgerður Helga Ísaksdóttir

Þeir leikmenn sem voru verðlaunaðir fyrir 100 leiki fyrir Gróttu voru:

Guðrún Þorláksdóttir
Soffía Steingrímsdóttir

________________________

Að lokum var þjálfarateymi meistaraflokks kvenna þakkað fyrir sín störf undanfarin ár; Davíð Örn Hlöðversson og Kári Garðarsson.

Við óskum þessum verðlaunahöfum til hamingju og hlökkum til að sjá þá og liðin okkar aftur í haust í Olísdeildinni, Grill 66-deildinni og 2.deild karla.

Meistaraflokkur karla byrjar Lengjudeildina vel

Meistaraflokkur karla hóf keppni í Lengjudeild karla laugardaginn 7. maí þegar drengirnir tóku á móti Vestra á Vivaldivellinum. Heimamenn uppskáru vel og fór leikurinn 5-0 fyrir Gróttu. Mörk Gróttu skoruðu Luke Rae (2), Kristófer Orri, Kjartan Kári og Sigurður Hrannar. Eftir geggjaða byrjun á sumrinu átti Grótta fimm fulltrúa í liði umferðarinnar, fjóra leikmenn og Chris Brazell þjálfara Gróttu. Luke Rae var valinn besti leikmaður umferðarinnar og þá voru markvörðurinn Jón Ívan Rivine, fyrirliðinn Arnar Þór Helgason og Kjartan Kári Halldórsson einnig í liðinu. Grótta átti flesta fulltrúa í liði umferðarinnar eftir stórsigurinn. Þá var Chris Brazell þjálfari Gróttu valinn þjálfari umferðarinnar. Næsti heimaleikur hjá drengjunum er fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15 á móti HK! Sjáumst á Vivaldi!

Heimaleikjakort til sölu

Heimaleikjakort knattspyrnudeildar Gróttu eru komin í sölu. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að næla sér í kort á kostakjörum. Handhafar heimaleikjakorta njóta forgangs á völlinn. Sala heimaleikjakorta fer fram í vefverslun grotta.is/knattspyrnudeild/heimaleikjakort

Continue reading

Jakob Ingi framlengir

Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jakob er fæddur árið 1997 og leikur í vinstra horninu. Jakob kom til Gróttu árið 2019 frá Aftureldingu en hann er uppalinn í Breiðholtinu hjá ÍR.

Jakob skoraði 20 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni í vetur og myndaði frábært hornapar í vinstra horninu með Andra Þór Helgasyni. Jakob nýtir færin næstbest allra í Olísdeildinni en af þeim leikmönnum sem skoruðu fleiri en 3 mörk í deildinni, þá er hann með næstbestu nýtinguna eða 87%.

Það eru gleðileg tíðindi að Jakob Ingi verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær hornamaður sem við bindum vonir við að haldi áfram að dafna á Nesinu.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Mér hefur liðið vel í félaginu á undanförnum árum og næsta tímabil stefnir í veislu“, sagði Jakob Ingi við undirskriftina.

Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️

Arnar Daði og Maksim áfram með Gróttuliðið

Þjálfarateymi Gróttu hefur framlengt samninga sína við Handknattleiksdeild Gróttu til þriggja ára. Arnar Daði Arnarsson verður áfram þjálfari liðsins og honum til aðstoðar verður áfram Maksim Akbachev. Þjálfararnir hafa átt gríðarlega mikinn þátt í því að festa Gróttuliðið á meðal bestu liða landsins. Takmark næstu tímabila er að færast enn ofar í töflunni.

„Þetta er stór dagur fyrir Gróttu. Arnar Daði og Maksim hafa staðið sig frábærlega hérna á Nesinu og við lögðum okkur mikið fram við að halda þeim áfram. Það og að Birgir Steinn verður áfram í herbúðum okkar er stórt skref í þeirri vegferð að Grótta berjist í efri helmingi deildarinnar“, sagði Arnkell Bergmann Arnkelsson varaformaður Handknattleiksdeildar Gróttu við undirritunina.

Birgir Steinn framlengir

Birgir Steinn Jónsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Birgir Steinn hefur verið í herbúðum Gróttu undanfarin tvö ár og staðið sig frábærlega. Það eru því frábær tíðindi að hann verði áfram á Nesinu. Birgir skoraði 125 mörk í vetur og varð fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Ef frá eru talin mörk úr vítaköstum, þá er þetta annað tímabilið í röð sem Birgir Steinn er markahæsti leikmaður deildarinnar.  Hann gaf flestar stoðsendingar í deildinni í vetur. Nýverið var hann valinn besti leikmaður deildarinnar samkvæmt tölfræði HBstatz og í liði tímabilsins.

„Ég er virkilega spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Við höfum sýnt það í vetur að við erum með hörkugott lið en ég hef trú á því að þessi hópur geti náð enn lengra á næsta tímabili og á næstu árum“, sagði Birgir Steinn við undirritunina.

„Þetta eru stór tíðindi fyrir Gróttu enda Birgir Steinn stimplað sig inn sem einn albesti leikmaður deildarinnar og mörg lið sem horfðu hýru auga til hans. Hann hefur bætt leik sinn gríðarlega undanfarin ár og verður frábært að vinna áfram með honum næstu tvö árin“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Ágúst Emil áfram á Nesinu

Ágúst Emil Grétarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Ágúst Emil er 24 ára gamall og leikur sem hægri hornamaður. Hann hefur leikið með Gróttu undanfarin fjögur tímabil og leikið samtals 84 leiki fyrir félagið. Ágúst Emil hefur leikið afar vel í vetur og skorað 43 mörk í deildinni og er með um 70% skotnýtingu. Það er mikil gleðitíðindi að Ágúst Emil verði áfram í herbúðum Gróttu.

„Ágúst Emil hefur verið vaxandi leikmaður undanfarin ár og hefur í vetur verið frábær. Það er því frábært að hann verði áfram á Nesinu. Ég hlakka mikið til að vinna með honum áfram“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu þegar samningurinn var í húsi.

Daníel framlengir við Gróttu

Daníel Örn Griffin hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Daníel hefur verið í Gróttu undanfarin tvö ár en hann lenti í því óláni í lok seinasta tímabils að slíta krossband í hné og hefur því verið í endurhæfingu allt þetta tímabil. Hann er byrjaður að æfa með liðinu en stefnt er að því að hann byrji að spila með Gróttu í haust.

Daníel Örn Griffin er örvhentur og spilar sem hægri skytta. Hann er jafnvígur á báðum endum vallarins, kröftugur sóknarmaður og öflugur varnarmaður. Tímabilið 2020-2021 skoraði hann 73 mörk í 19 leikjum í Olísdeildinni.

„Það eru mikil gleðitíðindi að Daníel verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær leikmaður sem gaman verður að sjá aftur á parketinu eftir árs fjarveru. Daníel tók miklum framförum á seinasta tímabili og ég er sannfærður að hann verði lykilleikmaður liðsins á næsta tímabili“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins við undirritun samningsins.

Þorgeir Bjarki aftur heim

Þorgeir Bjarki Davíðsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu og gengur til liðs við félagið að þessu leiktímabili loknu. Þorgeir þekkja flestir Seltirningar en hann er uppalinn Gróttumaður og lék með öllum yngri flokkum félagsins og síðan meistaraflokki. Hann lék með öllum yngri landsliðum Íslands.

Þorgeir er örvhentur leikmaður og spilar aðallega í hægra horninu en getur einnig leikið sem skytta. Hann hefur leikið 79 leiki fyrir Gróttu og skorað í þeim 138 mörk. Þorgeir er 25 ára gamall og hefur undanfarin ár leikið með Fram, HK og Val.

„Það eru gríðarlega góðar fréttir að Þorgeir sé kominn í Gróttu. Hann er mikill karakter og mun styrkja liðið mikið“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari liðsins við undirritun samningsins.

„Ég er mjög spenntur að snúa aftur í Gróttu eftir 6 ára fjarveru. Ég hef mikla trú á hópnum og þjálfarateyminu og markmiðum þeirra. Það hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig að koma heim til uppeldisfélagsins og gera mitt besta til að styrkja hópinn fyrir næstu leiktíð“, sagði Þorgeir Bjarki á sama tíma.

Þorgeir, velkominn aftur á Nesið !