Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Dom og Paul áfram hjá knattspyrnudeild

Það er gleðiefni að tilkynna að þeir Dom Ankers og Paul Western verða áfram þjálfarar knattspyrnudeildar Gróttu eftir farsælt sumar 👏🏼Englendingarnir Dom og Paul hófu störf í sumar hjá Gróttu og unnu þar með flestum flokkum félagsins ásamt því að bjóða upp á afreksæfingar. Á komandi tímabili mun Dom þjálfa 5. og 2. flokk karla og Paul 3. flokk karla og kvenna. Dom og Paul verða einnig báðir í þjálfarateymum meistaraflokks karla og kvenna.

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Starfsmannakynningin heldur áfram og nú er komið að Örlygi Hinrik Ásgeirssyni.
Gælunafn: oft kallaður Ölli, 
Fyrri störf (nefna 2-3): Kjötiðnaðarmaður, vann m.a. hjá Goða. Ég hef einnig kennaramenntun, kenndi í Menntaskólanum í Kópavogi iðngreinar.  
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég hóf störf hjá Gróttu  í október 2016 – nýbúin að eiga 5 ára starfsafmæli. 

Hvar ólstu upp:  Í Bústaðarhverfinu (er uppalinn Víkingur)
Áhugamál: Stangveiði og fluguveiði. 

Stundaðir þú íþróttir:  Nei, ekkert að ráði. 

Uppáhalds tónlistarmenn: Ég hlusta þungarokk og blús, annað er ekki músík. Uppháalds hljómsveit er Metallica  og allt
þar í kring. 
Bíómynd í uppáhaldi: Vanishing Point (1971) 
Uppáhalds matur:  Hamborgari og franskar.
Skilaboð til foreldra:  Þið eigið mjög hress börn. 

Níu leikmenn mfl. kvk. skrifa undir til tveggja ára

Okkur er sönn ánægja að segja frá því að þær Bjargey Sigurborg Ólafsson, Edda Steingrímsdóttir, Jórunn María Þorsteinsdóttir, Nína Kolbrún Gylfadóttir, María Lovísa Jónasdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, Tinna Bjarkar Jónsdóttir og Patricia Dúa Thompson Landmark hafa skrifað undir samning við knattspyrnudeild Gróttu til næstu tveggja ára. Þær eru allar mikilvægir hlekkir í Gróttuliðinu og við hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru með þeim 🤝

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Nafn: Bogi Elvar Grétarsson, kallaður Elvar
Fyrri störf (nefna 2-3): Verslunarmaður í byggingarvörudeild í Kaupfélagi Austur Skaftfellinga á Höfn (KASK) og húsvörður í íþróttahúsinu Höfn í Horfnafirði.
Elvar hóf störf hjá Gróttu 3. október 2016 – nýbúin að eiga 5 ára starfsafmæli.
Hvar ólstu upp: Á Hvammstanga.
Áhugamál: Fótbolti og gítarleikur.
Mitt uppáhalds fótboltafélag er Keflavík.
Stundaðir þú íþróttir: Æfði fótbolta frá 5 ára aldri, spilaði í meistaraflokk með Sindra á Hornafirði og eitt ár með Tindastól í næst efstu deild. Alls spilaði ég 130 leiki og skoraði í þeim 86 mörk.
Uppáhalds tónlistarmenn: Nafnarnir Rúnar Þór og Rúnar Júlíusson. Bíómynd í uppáhaldi: Papillon (1973) með Steve McQueen og Dustin Hoffman
Uppáhalds matur: Hamborgarar og pylsur.
Skilaboð til foreldra: Hvetja fólk til að sýna krökkunum áhuga í leik og starfi.

5.flokkur á Eyjablikksmót

Helgina 8. – 10. október fór eldra árið í 5.flokki kvenna og karla til Vestmannaeyja og spiluðu á sínu fyrsta Íslandsmóti. Strákarnir tefldu fram einu liði en stelpurnar tveimur liðum. Ferðin heppnaðist vel bæði handboltalega séð og félagslega séð.

Stelpurnar mættu ferskar og spenntar í fyrstu leikina á föstudeginum. Lið 1 lék gegn HK en því miður tapaðist sá leikur. Lið 2 spiluðu gegn Fram og náðu í jafntefli eftir að hafa verið undir meirihluta leiksins. Á laugardeginum spiluðu bæði lið tvo leiki. Lið 1 gerði jafntefli gegn Fram og unnu síðan Stjörnuna. Lið 2 áttu fyrsta leik gegn Haukum sem voru mun sterkari og tapaðist sá leikur. Seinni leikurinn var gegn FH og unnu þær flottan sigur. Á sunnudeginum átti lið 1 erfiðan leik fyrir höndum gegn Val og unnu þær okkur stúlkur sem börðust hins vegar allt til loka leiks. Lið 2 spilaði sinn síðasta leik gegn sterku liði Selfoss og tapaðist sá leikur eftir mikla baráttu hjá okkar stúlkum.

Strákarnir spiluðu tvo leiki á föstudeginum. Fyrri leikurinn var við Aftureldingu og byrjuðu strákarnir af miklum krafti og voru þremur mörkum yfir í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur gekk brösulega og fóru Afturelding með sigur úr leiknum. Seinni leikurinn var við Selfoss þar sem leikurinn var hnífjafn en endaði með sigri Selfyssinga. Á laugardeginum mættu strákarnir Fram í fyrsta leik og voru strákarnir greinilega ekki tilbúnir í þá baráttu. Seinni leikurinn var við ÍBV og sá leikur hnífjafn frá fyrstu mínutu, strákarnir spiluðu feikilega vel sóknarlega og endaði leikurinn með þriggja marka sigri Gróttu.

Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldvaka og hluti af henni var leikur landsliðsins gegn pressuliðinu og áttum við einn strák í pressuliðinu; Arnar Magnús Andrason og tvær stúlkur; Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir. Okkar fulltrúar stóðu sig feikivel í leikjunum.

Þessi ferð á Eyjablikksmótið skildi eftir sig góðar minningar og vonandi halda krakkarnir áfram að bæta sig í handboltanum eins og þeir hafa gert hingað til.

Þjálfarar strákanna eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm. Þjálfarar stelpnanna eru Davíð Örn Hlöðversson og Patrekur Pétursson Sanko.

Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir

Arnar Magnús Andrason

Þrír í U16 ára landsliðinu

Helgina 5. – 7.nóvember æfir U16 ára landslið karla undir stjórn Heimis Arnar Árnasonar og Hrannars Guðmundssonar þjálfara liðsins.

Við eigum þrjá fulltrúa í þeim hópi, þá Alex Kára Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson.

Við óskum strákunum til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum.

Kjartan Kári og Arnþór Páll æfa með Bodö/Glimt

Kjartan Kári Halldórsson og Arnþór Páll Hafsteinsson hafa síðustu daga æft með Noregsmeisturum Bodö/Glimt. Þeir hafa æft með unglingaliðum félagsins en fengu í dag tækifæri til að æfa með aðalliðinu, daginn eftir frækinn 6-1 sigur Bodö/Glimt á Roma í Evrópudeildinni.

Gera má ráð fyrir að reynslan verði frábær fyrir Gróttumennina ungu en ferðin er þáttur í afreksstefnu Gróttu sem meðal annars felur í sér samvinnu með erlendum félögum.

Chris Brazell þjálfari meistaraflokks karla er ánægður fyrir hönd strákanna:
„Grótta er lítið félag sem þarf að fara ótroðnar slóðir til að halda í við, og gera betur en önnur félög. Mikið fjármagn er ekki aðalatriðið í þróun ungra leikmanna og því stefnir Grótta að því að búa ungum leikmönnum sem eru að hefja sinn meistaraflokksferil besta umhverfi á landinu. Umræddir leikmenn (strákar og stelpur) geta verið uppaldir í Gróttu, lánsmenn frá öðrum félögum eða leikmenn sem við komum auga á (e. scouting) og fáum til liðs við okkur. Við viljum hjálpa ungum leikmönnum að bæta sig innan okkar raða og hjálpa þeim þannig að taka næstu skrefin á sínum knattspyrnuferli.

Hluti af þessari nálgun hjá Gróttu er að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að fara í heimsóknir til atvinnumannafélaga og upplifa æfingar og umhverfi eins og það gerist best. Ég tel það alls ekki síðra en að fara á „trial“ þar sem pressan er mikil og skemmir oft upplifunina. Heimsóknir eins og Arnþór og Kjartan eru í núna bæta miklu við reynslubankann og geta hjálpað leikmönnum síðar meir að aðlagast og líða vel komist þeir út í atvinnumennsku.

Grótta fagnar samstarfinu við Bodö/Glimt. Reynslan er frábær fyrir strákana og við hlökkum til að eiga gott samband við félagið og starfsfólk þess

Stuð og stemning hjá 7.flokki karla

Mikið stuð og stemning var hjá strákunum í 7.flokki karla helgina 9. – 10.október síðastliðinn en þá léku strákarnir á sínu fyrsta móti í vetur. Mótið fór fram í Garðabænum hjá Stjörnunni.

Grótta tefldi fram hvorki fleiri né færri en 8 liðum á mótinu. Strákarnir stóðu sig vel og sáust mörg glæsileg tilþrif á báðum endum vallarins; varnarlega, hjá markmönnunum og sóknarlega. Strákarnir eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér og gaman verður að sjá þá á næstu mótum.

7.flokkur karla æfir þrisvar sinnum í viku undir stjórn Hannesar Grimm þjálfara flokksins.