Daníel framlengir við Gróttu

Daníel Örn Griffin hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Daníel hefur verið í Gróttu undanfarin tvö ár en hann lenti í því óláni í lok seinasta tímabils að slíta krossband í hné og hefur því verið í endurhæfingu allt þetta tímabil. Hann er byrjaður að æfa með liðinu en stefnt er að því að hann byrji að spila með Gróttu í haust.

Daníel Örn Griffin er örvhentur og spilar sem hægri skytta. Hann er jafnvígur á báðum endum vallarins, kröftugur sóknarmaður og öflugur varnarmaður. Tímabilið 2020-2021 skoraði hann 73 mörk í 19 leikjum í Olísdeildinni.

„Það eru mikil gleðitíðindi að Daníel verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær leikmaður sem gaman verður að sjá aftur á parketinu eftir árs fjarveru. Daníel tók miklum framförum á seinasta tímabili og ég er sannfærður að hann verði lykilleikmaður liðsins á næsta tímabili“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins við undirritun samningsins.

Hrafnhildur nýr framkvæmdastjóri fimleikadeildar

Stjórn fimleikadeildar gekk nýverið frá ráðningu Hrafnhildar Sigurjónsdóttir sem framkvæmdastjóra fimleikadeildar meðan Ólöf Línberg verður í fæðingarorlofi. Við hlökkum til að vinna með Hrafnhildi í nýju hlutverki og sendum Ólöfu okkar bestu kveðjur og óskir.
kveðja, Stjórn Fimleikadeildar

Lilja Lív og Emelía léku með U17 í milliriðlum

Lilja Lív Margrétardóttir og Emelía Óskarsdóttir léku með U17 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar. Í fyrsta leik gerði Ísland 1-1 jafntefli við Finnland en unnu síðan 1-0 sigur gegn Slóvakíu í öðrum leik sínum. Síðasti leikur stelpnanna var gegn Írlandi og vann Ísland glæsilegan 4-1 sigur, þar sem Emelía Óskarsdóttir skoraði eitt mark liðsins. Sigurinn dugði liðinu þó ekki, þar sem Ísland endaði í öðru sæti riðilsins, jafnt að stigum og Finnland en Finnland fór áfram þar sem þær voru með betri markatölu. Svekkjandi niðurstaða en engu að síður glæsilegur árangur hjá stúlkunum. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Lilju, Emelíu og Magga til hamingju með árangurinn 🇮🇸👏🏼

Páskaskóli Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu verður með námskeið í dymbilvikunni þar sem áhersla verður lögð á undirstöðuatriði og leiki hjá yngri hópnum en flóknari atriði hjá eldri hópnum. Allir eru velkomnir, hvort sem viðkomandi hefur æft áður eða eru byrjendur.

Hvenær?
11., 12. og 13.apríl

Klukkan hvað?
Yngri hópur (f. 2013-2015) kl. 10:30-12:00
Eldri hópur (f. 2010-2012) kl. 12:15-13:45

Hvar?
Stóri og litli salur í Íþróttahúsi Gróttu

Hverjir þjálfa?
Leikmenn meistaraflokka Gróttu

Kostnaður?
6000 kr

Skráning:
https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Við hvetjum alla til að nota páskafríið vel, verða betri í handbolta og skemmta sér á sama tíma !

Þorgeir Bjarki aftur heim

Þorgeir Bjarki Davíðsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu og gengur til liðs við félagið að þessu leiktímabili loknu. Þorgeir þekkja flestir Seltirningar en hann er uppalinn Gróttumaður og lék með öllum yngri flokkum félagsins og síðan meistaraflokki. Hann lék með öllum yngri landsliðum Íslands.

Þorgeir er örvhentur leikmaður og spilar aðallega í hægra horninu en getur einnig leikið sem skytta. Hann hefur leikið 79 leiki fyrir Gróttu og skorað í þeim 138 mörk. Þorgeir er 25 ára gamall og hefur undanfarin ár leikið með Fram, HK og Val.

„Það eru gríðarlega góðar fréttir að Þorgeir sé kominn í Gróttu. Hann er mikill karakter og mun styrkja liðið mikið“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari liðsins við undirritun samningsins.

„Ég er mjög spenntur að snúa aftur í Gróttu eftir 6 ára fjarveru. Ég hef mikla trú á hópnum og þjálfarateyminu og markmiðum þeirra. Það hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig að koma heim til uppeldisfélagsins og gera mitt besta til að styrkja hópinn fyrir næstu leiktíð“, sagði Þorgeir Bjarki á sama tíma.

Þorgeir, velkominn aftur á Nesið !

Lúðvík áfram í Gróttu

Lúðvík Thorberg Arnkelsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Gróttu. Lúðvík er 24 ára gamall og leikur aðallega sem leikstjórnandi og skytta. Hann hefur skorað 29 mörk í Olísdeildinni í vetur og sent 24 stoðsendingar.

Lúðvík hefur undanfarin tvö árin leikið með Gróttu en hann er uppalinn í Safamýrinni.

„Það eru virkilega góð tíðindi að Lúðvík verði áfram í herbúðum okkar enda hefur hann leikið fantavel með liðinu í vetur, bæði sóknar- og varnarlega. Það er von okkar að hann muni halda áfram að þróa leik sinn enn frekar enda býr mikið í Lúlla“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Sjö lið frá 6. flokki karla á Kjörísmót Hamars

6. flokkur karla skellti sér á Kjörísmót Hamars sem haldið var í Akraneshöllinni síðustu helgi. Grótta fór með 37 drengi í sjö liðum á mótið og spilaði hvert lið fjóra leiki. Um leið og drengirnir voru komnir í gírinn eftir langa mótspásu þá byrjaði sambaboltinn og spiluðu þeir flottan fótbolta og skoruðu helling af frábærum mörkum 🤩

Ofurhetjumót Gróttu og MINISO tókst vel

Ofurhetjumót Fimleikadeildar Gróttu og MINISO fór fram um síðustu helgi og sýndu alls 400 ofurhetjur frá 8 félögum listir sínar. Mótið gekk ótrúlega vel og þökkum við öllum keppendum og foreldrum þeirra fyrir komuna. Þjálfurum og dómurum þökkum við fyrir vel unnin störf ásamt öllum þeim sjálfboðaliðum sem lagt hafa hönd á plóg. Við þökkum aðalstyrktaraðila mótsins versluninni MINISO í Kringlunni sérstaklega fyrir stuðninginn en allir keppendur fóru heim með glaðning frá þeim.