Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Gústi lætur af störfum

Knattspyrnudeild Gróttu og Ágúst Gylfason, þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu, hafa ákveðið í sameiningu að Ágúst láti af störfum fyrir félagið eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur.

Ágúst tók við liðinu haustið 2019 og stýrði því í Pepsi Max deildinni tímabilið 2020, en félagið var þá í fyrsta skipti í sögunni í deild þeirra bestu. Þótt Grótta hafi fallið úr deildinni, stóð liðið sig vel við erfiðar aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Á yfirstandandi keppnistímabili í Lengjudeild karla hefur Gróttuliðið leikið vel og árangurinn ágætur, þótt herslumun hafi vantað svo liðið blandaði sér af fullum þunga toppbaráttu deildarinnar.

Ágúst Gylfason hefur reynst Gróttu vel frá því hann tók við haustið 2019 og skilur við liðið á góðum stað. Félagið mun að tímabilinu loknu kveðja Ágúst með virktum og söknuði og óskar honum velfarnaðar í öllum hans störfum í framtíðinni.

Skráning iðkenda 2021-2022

Kæru forráðamenn, iðkendur og annað Gróttufólk

Nú hefur verið opnað fyrir skráningar hjá öllum deildum og eru æfingatöflur vetrarins tilbúnar og aðgengilegar á vefsíðu félags. Þær gætu þó tekið breytingum og biðjum við forráðamenn að fylgjast vel með viðkomandi deild. 

Sú breyting hefur orðið á að nú fara allar skráningar í félagið í gegnum Sportabler https://www.sportabler.com/shop/grotta/

Öll samskipti milli þjálfara og foreldra fara fram í gegnum forritið og því mikilvægt að kynna sér umhverfið vel. 

Við skráningu fara iðkenndur sjálfkrafa inn í viðkomandi flokka/hópa á Sportabler og þar eru allir æfingatímar birtir og uppfærðir eftir því sem við á. Viljum við biðja ykkur að yfirfara vel allar upplýsingar (netföng og síma) en skráningar eru ákveðið öryggistæki og mikilvægt að réttar upplýsingar séu til staðar þegar ná þarf í aðstandendur. 

Ef spurningar vakna hafið samband við grotta@grotta.is

Hlökkum til að sjá ykkur vetur. 

Pétur Theódór til Breiðabliks

Knattspyrnudeild Gróttu hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Breiðabliks um félagaskipti Péturs Theódórs Árnasonar að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Pétur Theódór, sem er 26 ára gamall,er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og lék hann upp alla yngri flokka Gróttu. Pétur lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki Gróttu árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall en sama ár spilaði hann með U16 ára landsliði Íslands. Pétur fór í framhaldi á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa Íslands næstu misseri á eftir. Pétur Theódór þurfti að taka sér hlé frá fótboltanum vegna meiðsla, en endurkoma hans frá árinu 2018 hefur verið ævintýri líkust. Árið 2019 var Pétur Theódór lykilmaður í meistaraliði Gróttu í Inkasso-deildinni, var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum ásamt því að vera markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins. Pétur Theódór var valinn besti leikmaður fyrri hluta deildarinnar, var í liði ársins auk þess að vera íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness sama ár. Pétur var lykilmaður í Gróttuliðinu á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild sumarið 2020. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Pétur Theódór verið sjóðheitur fyrir framan markið, er markahæstur í Lengjudeildinni með 18 mörk í 18 leikjum. Alls hefur hann leikið 139 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 62 mörk.

Pétur hefur öll sín ár hjá Gróttu verið sannur liðsmaður, góður samherji og fyrirmynd ungra iðkenda, ekki síst vegna eljusemi, þrautseigju og metnaðar. Þótt allt Gróttufólk muni kveðja Pétur Theódór að loknu tímabili með trega, samgleðjumst við honum og óskum velgengni í nýjum verkefnum 👊🏼💙

Æfingatafla knattspyrnudeildar 2021-2022

Hér má sjá æfingatöflu knattspyrnudeildarinnar fyrir veturinn 2021-2022. Æfingar samkvæmt töflunni hefjast mánudaginn 30. ágúst. Taflan var gerð í samvinnu við yfirþjálfara handknattleiksdeildarinnar sem og fimleikadeildarinnar. Smávægilegir árekstrar verða leystir milli þjálfara deildanna og ætti það að ganga smurt. Styrktaræfingar hjá 2.-4. flokki eiga eftir að bætast við í æfingatöfluna.

7. flokkur karla og kvenna á Hamingjumóti Víkings


7. flokkur karla og kvenna léku á Hamingjumóti Víkings í Fossvogi helgina 14. og 15. ágúst. Drengirnir léku á laugardeginum í sól og blíðu en stúlkurnar á sunnudeginum í rigningu og skýjum – en létu veðrið ekki á sig fá. 7. flokkur karla fór með 6 lið á mótið og 7. flokkur kvenna með 5 lið, en liðin hétu eftir leikmönnum meistaraflokks karla og kvenna. Krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel á mótinu, en blanda af þrautseigju og leikgleði var ríkjandi hjá Gróttuliðunum.

Magnús Örn ráðinn U17 landsliðsþjálfari kvenna

Magnús Örn Helgason hefur verið ráðinn sem nýr U17 landsliðsþjálfari kvenna. Það þarf ekki að kynna Magnús Örn fyrir Gróttufólki en hann hefur starfað hjá knattspyrnudeild Gróttu frá árinu 2007 og er Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Árið 2018 tók Maggi við meistaraflokki kvenna og hann hefur stýrt liðinu síðan ásamt Pétri Rögnvaldssyni, en undir þeirra stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019. 

Magga verður sárt saknað innan knattspyrnudeildarinnar, enda hefur hann gegnt stóru hlutverki þar lengi og sinnt starfi sínu af mikilli kostgæfni og ástríðu. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Magga innilega til hamingju með nýja starfið og er hreykið af því að þjálfari félagsins sé orðinn landsliðsþjálfari. Maggi tekur við U17 ára landsliðinu að loknu keppnistímabili hjá meistaraflokki kvenna í september mánuði. Við hlökkum til að fylgjast með honum í nýju starfi. 

75 Gróttustelpur á Símamótinu

Stærsta helgi ársins hjá ungum og efnilegum knattspyrnukonum rann upp síðustu helgi þegar hið fræga Símamót fór fram í Kópavogi. Um 3000 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins, og fer sífellt stækkandi. 75 Gróttustelpur héldu á mótið en 5. flokkur Gróttu tefldi fram tveimur liðum sem samanstóðu af 16 stelpum, 6. flokkur kvenna var með 30 stelpur í fimm liðum og 7. flokkur kvenna fór með 29 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags. Mótið fór fram með hefðbundnu sniði en hins vegar var breyting á liðsnöfnum í ár, en mótsstjórn Símamótsins hvatti félög til að leggja niður númeraröðun liða á mótinu og þess í stað skíra lið félaganna eftir knattspyrnukonum. Grótta tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra framtaki og
Gróttuliðin hétu öll eftir meistaraflokksleikmönnum Gróttu. Leikmennirnir kíktu á stelpurnar á mótinu og fannst stelpunum það ansi spennandi.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu. Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu en umfram allt skemmtu þær sér vel og komu heim á Seltjarnarnesið reynslunni ríkari 🤩

Emelía og Lilja Lív á Norðurlandamóti með U16

Þær Emelía Óskarsdóttir og Lilja Lív Margrétardóttir héldu til Danmerkur þann 4. júlí með U16 ára landsliði Íslands í spennandi verkefni. Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U16 kvenna, valdi þessar tvær efnilegu Gróttukonur í lokahóp til þátttöku í Norðurlandamóti U16 kvenna sem fram fór í Kolding í Danmörku 4.-13. júlí. Í hópnum voru 20 leikmenn frá 11 félögum og er Grótta hreykið af því að eiga þar þessa tvo flottu fulltrúa. Íslenska liðið mætti Svíþjóð, Danmörku og Danmörku 2 (Denmark Future) og voru leikdagarnir 6., 9. og 12. júlí. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Svíþjóð, vann Danmörku 2 1-0 og tapaði síðan fyrir Danmörku 3-0. Emelía og Lilja Lív komu við sögu í öllum leikjunum og voru glæsilegir fulltrúar félagsins!