Samstarfi við KR slitið

Fyrr í dag var okkur í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu tilkynnt um að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta samstarfi við Gróttu í 2., 3. og 4. flokki kvenna. Ávörðunin tekur gildi frá og með lokum keppnistímabils í Íslandsmóti. Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi.

Knattspyrnudeild Gróttu mun halda sínu striki og starfrækja alla yngri flokka kvenna á komandi tímabili þar sem haldið verður áfram að byggja ofan á það frábæra starf sem unnið hefur verið í kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er er meistaraflokkur kvenna í toppbaráttu í Lengjudeildinni annað tímabilið í röð og uppaldar Gróttustelpur hafa skilað sér upp í liðið nær árlega. Og við erum rétt að byrja. Tilkynnt verður um þjálfara og æfingatíma á næstunni. Allt kapp verður lagt á að byggja upp sterka einstaklinga og frambærilegar knattspyrnukonur til framtíðar.

Við þökkum nágrönnum okkar í KR fyrir samstarfið og óskum félaginu velfarnaðar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu mun boða foreldra í viðeigandi flokkum á upplýsingafund í næstu viku þar sem farið verður betur yfir næstu skref.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu

Aufí og Rebekka á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu

Gróttukonurnar Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Rebekka Sif Brynjarsdóttir eru á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu sem tekur þátt í Norðurlandamótinu dagana 1. til 7. júlí næstkomandi. Knattspyrnudeild Gróttu er hreykin af því að eiga svona flotta fulltrúa innan þessa hóps. Aufí og Rebekka eru báðar leikmenn meistaraflokks Gróttu og gríðarlega efnilegar knattspyrnukonur.

Ísland mætir Englandi í fyrsta leik sínum á mótinu mánudaginn 1. júlí kl. 10:00. Úrslit leiksins skera svo úr um það hvaða liði það mætir í leik tvö og þrjú.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim í Finnlandi í júlí!

Til hamingju stelpur og gangi ykkur vel!

Leikjadagatal í júní

Sjáumst á vellinum í júní!

Hér má sjá dagskránna í júní og hvetjum við Gróttufólk að vista þessa mynd hjá sér og taka dagana frá. Gulmerktu dagarnir eru kvennaleikir og blámerktu eru karlaleikir 💙💛

ÁFRAM GRÓTTA!

Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.

Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.

Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.

Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.

„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.

Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson 

Aufí á leið til Portúgals með U17 ára landsliðinu

Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U17 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í milliriðli Evrópumóts UEFA í Portúgal dagana 19.-28.febrúar 2024. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Hin 15 ára Aufí lék einnig með U17 í undankeppni EM í október sl.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal!

Jólakveðja Gróttu

Íþróttafélag Gróttu óskar öllu Gróttufólk nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Þökkum kærlega samfylgdina á líðandi ári og hlökkum mikið til komandi Gróttustunda árið 2024.

Jólatilboð á Gróttu handklæðum

Gróttu handklæði í jólapakkann

Grótta hefur ákveðið að selja hin geysivinsælu og fallegu Gróttu handklæði á sannkölluðu jólatilboði.

Handklæðin kosta núna 3500 kr og eru til sölu hérna í húsinu til klukkan 15.00- en eftir þann tíma að þá er velkomið að hringja í Hörpu, stjórnarmann knattspyrnudeildarinnar, í síma 8960118 til að nálgast handlæðin.

Frábær gjöf í jólapakkann þetta árið- Áfram Grótta.