Næring, fræðslufyrirlestur fyrir íbúa 60+ í hátíðarsal Gróttu

FRÍSK Í GRÓTTU bjóða íbúa Seltjarnarnesbæjar, 60 ára og eldri, hjartanlega velkomna á fræðslufyrirlestur um næringu með Agnesi Þóru Árnadóttur, næringar- og íþróttafræðingi (BSc í næringarfræði, MSc í íþróttanæringarfræði) en fræðslufyrirlesturinn er samstarfsverkefni Frísk í Gróttu, Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og Seltjarnarnesbæjar.

Á fyrirlestrinum verður farið yfir mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu, orku og vellíðan. Þátttakendur fá hagnýtar ráðleggingar sem auðvelt er að nýta í daglegu lífi. Markmið okkar er að stuðla að auknu heilsulæsi meðal þátttakenda og íbúa bæjarins — því þekking á eigin heilsu og næringu er lykillinn að betri lífsgæðum.

Við hvetjum alla til að mæta, hlusta, spyrja spurninga og taka þátt í fræðandi og skemmtilegri samveru!

Staðsetning: Hátíðarsalur Gróttu (Suðurströnd 8, 170 Seltjarnarnes)

Dagsetning: Fimmtudagur 30. október

Tími: Kl. 10:45

Æfingagjöld

Kæru foreldrar og forráðamenn

Við minnum á greiðslu æfingagjalda og hvetjum ykkur til að ganga frá skráningu iðkenda í gegnum Abler.

Æfingagjöldin eru forsenda þess að iðkandi gerist löglegur og geti tekið þátt í keppnum á vegum félagsins. Einnig eru þau lífæð félagsins í rekstri deilda.

Fyrirfram þakkir
#okkargrótta

Boltaskóli Gróttu

!!NÝTT!!

Knattspyrnu og handknattleiksdeildir Gróttu ætla að bjóða uppá Boltaskóla fyrir börn fædd 2022 á sunnudögum í vetur kl. 09:15.

Haustönn 21. september til 16.nóvember.

Skemmtilegt námskeið þar sem að við leggjum áherslu á að foreldri/forráðamaður og barn njóti gæðastundar saman í tímanum þar sem unnið er með leik og hreyfingu með bolta og önnur áhöld.

Námskeiðið er sett upp þannig að einn forráðamaður mætir með barninu í tímann og er með barninu í leik og starfi.

Skráning fer fram hér

Hlökkum til að sjá ykkur!

Hansína og Arndís María

Æfingar í 9.flokki

Í byrjun september hefjast handboltaæfingar fyrir krakka á leikskólaaldri, fædda 2020 og 2021. Æfingarnar fara fram á laugardögum í vetur kl. 09:15-10:00.

Þjálfarar flokksins eru þær Arndís María Erlingsdóttir og Eva Björk Hlöðversdóttir sem báðar hafa áralangra reynslu sem þjálfarar yngri flokka. Arndís María er grunnskólakennari og Eva Björk hefur B.Sc. í uppeldis- og menntunarfræðum.

Fyrsta æfingin fer fram laugardaginn 6.september. Þjálfararnir taka vel á móti krökkunum. Eingöngu er pláss fyrir 30 iðkendur.

Skráning fer fram í Abler. Beinn hlekkur á skráninguna er hérna: https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti/product/Q2x1YlNlcnZpY2U6NDM0ODI=

Ágústa Edda leiðir Fimleikadeild Gróttu

Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu og hefur tekið til starfa.

Ágústa Edda kemur til Gróttu frá Sidekick Health þar sem hún hefur starfað við verkefnastýringu og notendarannsóknir síðustu fjögur ár. Áður starfaði hún hjá Félagsvísindastofnun í 10 ár sem verkefnastjóri við rannsóknir, rýnihópa, kannanir og viðtöl. Ágústa Edda hefur einnig sinnt stundakennslu í íþróttafélagsfræði við bæði HÍ og HR. Hún hefur ennfremur yfirgripsmikla reynslu af þjálfun þvert á íþróttagreinar. Ágústa Edda þjálfaði fimleika hjá Gróttu, var yfirþjálfari yngri flokka Vals í handbolta um árabil og er enn að þjálfa hjólreiðar hjá Hreyfingu, World Class og utandyra með Tindi. Ágústa Edda er með MA-gráðu í félagsfræði frá HÍ og B.sc. í félagsfræði og viðskiptafræði frá sama skóla. 

Margir þekkja Ágústu Eddu sem afreksíþróttakonu í fimleikum, handbolta, hjólreiðum og nú nýlega í hlaupum. Ágústa Edda byrjaði í fimleikum 8 ára gömul þegar Fimleikadeild Gróttu var stofnuð, var í fyrsta keppnishóp félagsins og var valin í landsliðið. Handboltinn átti síðar hug hennar allan og spilaði hún með U-18 ára og A-landsliðum um árabil. Síðustu 10 ár hefur Ágústa Edda stundað hjólreiðar af kappi, verið í landsliðinu og keppt á þremur heimsmeistaramótum. Nú er hlaupin í hana áhugi fyrir hlaupum og við hlökkum til að fylgjast með afrekum hennar á því sviði. 

Ágústa Edda býr í Garðabæ og á þrjá syni sem hafa allir stundað íþróttir af kappi hjá Stjörnunni og yngri landsliðum. Hún hefur einnig setið í stjórn Barna-og unglingaráðs Stjörnunnar. Ágústa Edda býr þannig yfir víðtækri reynslu af íþróttastarfi og afreksþjálfun barna sem iðkandi, foreldri og þjálfari. Við bjóðum Ágústu Eddu hjartanlega velkomna til starfa heim á Seltjarnarnesið og erum sannfærð um að þarna fari mikill liðstyrkur fyrir Gróttu og Fimleikadeildina.

Sumarnámskeið – Ágúst

Sumarnámskeið fara aftur af stað!

Leikja-, ævintýra- og survivour námskeiðin hefjast á ný beint eftir frídag verlsunarmanna. Handboltaskólinn og afreksskóli handboltans er kominn í gang og verður í boði næstu þrjár vikurnar, eða þangað til að krakkarnir fara aftur í skólann.

Skráning fer fram í gegnum Abler

Frábærri Partille Cup-ferð lokið

Í nótt kom þreyttur en sæll Gróttuhópur heim eftir vikudvöl í Gautaborg í Svíþjóð. 84 iðkendur og 16 þjálfarar og fararstjórar fóru fyrir hönd Gróttu á stærsta og flottasta handboltamót í heimi, Partille Cup. Grótta tefldi fram 10 liðum sem öll lögðu allt í sölurnar í leikjum gegn nýjum andstæðingum. Mótið er það stærsta í heimi en rúmlega 20.000 keppendur frá öllum heimshornum taka þátt í mótinu.

Þó að leikirnir hafi verið aðalatriðið þá var margt annað gert. Krakkarnir fóru í Skara Sommarland vatnsrennibrautar- og skemmtigarð, horfðu á U19 ára landslið karla með Bessa innanborðs næla sér í silfur, fóru í verslunarleiðangra, fóru í GoKart, kíktu í Liseberg skemmtigarðinn, studdu önnur Gróttulið í sinni keppni og margt, margt annað.

Öll liðin okkar stóðu sig vel innan- sem utanvallar. Okkar krakkar fengu mikið hrós fyrir umgengni og framkomu. Öll liðin léku 5-6 leiki í riðlakeppninni og síðan 1-6 leiki í úrslitakeppninni. Fjögur okkar liða fóru í A-úrslit, eitt fór í B-úrslit og fimm fóru í C-úrslitin.

Lengst náðu B13-1, B15-1 og G16 liðin okkar í A-úrslitum en þau komust í 32-liða úrslit. B14-1 gerði sér svo lítið fyrir og vann C-úrslitin.

Segja má að vikan hafi verið viðburðarík og skilur eftir ótal minningar hjá Gróttukrökkunum. Krakkarnir koma allir heim reynslunni ríkari og munu mæta sterk inn í næsta handboltavetur sem hefst í ágúst.

Handboltaskóli Gróttu/KR

Líkt og seinustu ár munum við vera með Handboltaskóla Gróttu/KR í fjórar vikur, 28.júlí – 21.ágúst. Hægt verður að skrá sig á stakar vikur en það er einnig hægt að skrá sig á öll námskeiðin. Öll skráning á námskeiðið fer fram í Abler.

Skólinn er fyrir krakka f. 2014-2019 eða þau sem verða í 1. – 6.bekk næsta vetur. Krökkunum verður skipt upp eftir aldri þannig að öll njóti sín sem best. Byrjendur jafnt sem lengra komin eru velkomin. Krakkarnir eru beðnir um að taka með sér nesti.

Námskeiðið er frá kl. 9:00-12:00 en við bjóðum upp á gæslu frá kl. 8:00-9:00 og síðan aftur 12:00-13:00. Gæslan kostar 2000kr. Námskeiðið fer fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi.

Við bjóðum einnig upp á Afreksskóla Gróttu/KR sem er fyrir iðkendur í 7. – 10.bekk næsta vetur, f. 2010-2013. Afreksskólinn er kl. 13:00-14:15.

Skólastjóri á námskeiðinu er Patrekur Pétursson Sanko en auk hans verða þjálfarar félagsins og góðir gestir.