Grótta fer vel af stað í 2. deild kvenna

Meistaraflokkur kvenna fer vel af stað í 2. deildinni en þær hófu leik á föstudagskvöld. Grótta tók á móti ÍH í fyrsta leik Íslandsmótsins á Vivaldivellinum föstudaginn 20. maí. Heimakonur unnu öruggan sigur en leikurinn fór 9-1 fyrir Gróttu! Mörk Gróttu skoruðu María Lovísa Jónsdóttir (2), Tinna Bjarkar Jónsdóttir (2), Bjargey Sigurborg Ólafsson (2), Lilja Lív Margrétardóttir, Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving.
Næsti leikur hjá stelpunum er á fimmtudaginn á Vopnafirði gegn Einherja.

Meistaraflokkur karla byrjar Lengjudeildina vel

Meistaraflokkur karla hóf keppni í Lengjudeild karla laugardaginn 7. maí þegar drengirnir tóku á móti Vestra á Vivaldivellinum. Heimamenn uppskáru vel og fór leikurinn 5-0 fyrir Gróttu. Mörk Gróttu skoruðu Luke Rae (2), Kristófer Orri, Kjartan Kári og Sigurður Hrannar. Eftir geggjaða byrjun á sumrinu átti Grótta fimm fulltrúa í liði umferðarinnar, fjóra leikmenn og Chris Brazell þjálfara Gróttu. Luke Rae var valinn besti leikmaður umferðarinnar og þá voru markvörðurinn Jón Ívan Rivine, fyrirliðinn Arnar Þór Helgason og Kjartan Kári Halldórsson einnig í liðinu. Grótta átti flesta fulltrúa í liði umferðarinnar eftir stórsigurinn. Þá var Chris Brazell þjálfari Gróttu valinn þjálfari umferðarinnar. Næsti heimaleikur hjá drengjunum er fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15 á móti HK! Sjáumst á Vivaldi!

6. flokkur karla og kvenna og 7. flokkur kvenna á TM móti Stjörnunnar

6. flokkur karla skellti sér á TM Stjörnunnar á sumardaginn fyrsta og helgina eftir á fylgdu 6. og 7. flokkur kvenna fast á eftir og tóku þátt í mótinu. Grótta fór með 14 lið á mótið í heild sinni, sex frá 6. flokki karla, fimm frá 6. flokki kvenna og þrjú frá 7. flokki kvenna. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel á fyrsta stórmóti sumarsins og stóðu sig með prýði eins og við var að búast!

Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️

Eyrún, Rebekka, Sara og Aufí valdar í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttustúlkurnar Eyrún Þórhallsdóttir, Rebekka Sif Brynjarsdóttir, Sara Björk Arnarsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir voru valdar til að taka þátt í Hæfileikamótun N1 og KSÍ þann 5. apríl í síðustu viku. Æfingin fór fram á Vivaldivellinum og voru 25 stúlkur frá Gróttu, KR, Val, Víking R. og Þrótti R. í hópnum sem æfði saman. Vel gert stelpur! 

Arnór, Fannar, Kári og Patrekur í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttudrengirnir Arnór Alex Óskarsson, Fannar Hrafn Hjartarson, Kári Kristjánsson og Patrekur Ingi Þorsteinsson hafa verið valdir til að taka þátt í æfingu í Hæfileikamótun N1 og KSÍ á Suðvesturlandi. Tæplega þrjátíu leikmenn frá fimm félögum taka þátt í æfingunum. 

Æfingin fer fram í knatthúsi ÍR í Breiðholti mánudaginn 11.apríl 2022 undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar þjálfara í Hæfileikamótun. 

Gangi ykkur vel strákar! 

Kjartan Kári og Orri Steinn léku með U19 í Króatíu 

Kjartan Kári Halldórsson og Orri Steinn Óskarsson léku með U19 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki og fóru þeir fram í Króatíu. Ísland tapaði sínum fyrsta leik 1-2 gegn Króatíu en Orri Steinn Óskarsson skoraði eina mark Íslands. Í öðrum leik liðsins gerði Ísland 1-1 jafntefli og var það aftur Orri Steinn sem skoraði eina mark Íslands. U19 ára landsliðið endaði svo mótið á glæsilegum 3-0 sigri gegn Rúmeníu og hafnaði í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, en Rúmenía fór áfram í lokakeppni EM eftir að hafa endað í efsta sæti riðilsins með sex stig. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Kjartani og Orra til hamingju með árangurinn!

Lilja Lív og Emelía léku með U17 í milliriðlum

Lilja Lív Margrétardóttir og Emelía Óskarsdóttir léku með U17 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar. Í fyrsta leik gerði Ísland 1-1 jafntefli við Finnland en unnu síðan 1-0 sigur gegn Slóvakíu í öðrum leik sínum. Síðasti leikur stelpnanna var gegn Írlandi og vann Ísland glæsilegan 4-1 sigur, þar sem Emelía Óskarsdóttir skoraði eitt mark liðsins. Sigurinn dugði liðinu þó ekki, þar sem Ísland endaði í öðru sæti riðilsins, jafnt að stigum og Finnland en Finnland fór áfram þar sem þær voru með betri markatölu. Svekkjandi niðurstaða en engu að síður glæsilegur árangur hjá stúlkunum. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Lilju, Emelíu og Magga til hamingju með árangurinn 🇮🇸👏🏼